14.12.1934
Neðri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

7. mál, gengisviðauki

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég hefi ekki ástæðu til þess að gera langa aths. við ræðu hæstv. fjmrh. Það upplýstist meðan hann var að flytja ræðu sína, að okkur greinir á um 100 þús. kr., og munum við eiga hvor hálfa sökina. Ég taldi tekjur af tollabreytingu 450 þús., en átti að vera 400 þús. Þarna munar 50 þús., en hæstv. fjmrh. mun hafa heyrt skakkt um hinar 50 þús. kr., svo að það er ekki mikið, sem ber á milli þar.

Út af orðum hæstv. fjmrh. síðast í ræðu hans, en þar minntist hann á það, sem snertir kjarna þessa máls, en það er, hverra tekna von er af áfenginu, þá hygg ég, að það stafi af misskilningi hjá honum, að menn þurfi að drekka meira af sterkum vínum til þess að tekjur ríkissjóðs, aukist. Ef drukkið verður hið sama og áður, þá fær ríkissjóður 1/2—1 millj. kr. í tekjur, en hann fær meira, af því að smygl og „landi“ minnkar, en þá verða auðvitað síður drukkin Spánarvínin, svo að tekjur af þeim minnka. En ég játa, að þarna er um dálítið óvissar tekjur að ræða. — Ég hefi svo ekki annað um þetta að segja, en ég vil leiða athygli að því, að hæstv. fjmrh. vill ekki taka til athugunar uppástungu mína um, að þær tekjur áfengisverzlunarinnar, sem fara fram úr 1320 þús. kr., falli í skuldaskilasjóð útgerðarmanna. Og rökin, sem hann færir fyrir þessu, get ég að sumu leyti fallizt á. Hann gerir ráð fyrir ýmsum útgjöldum, sem ekki eru áætluð í fjárlagafrv., og verð ég að viðurkenna, að það er rétt. En hvernig ætlar hann að fullnægja þörf ríkissjóðs. ef tekjur af áfengisverzluninni fara ekki fram úr 1320 þús. kr.? Annaðhvort verður hann að trúa á þessar auknu tekjur eða ekki, en ef hann trúir ekki á það, að tekjurnar fari fram úr 1320 þús. kr., og ef hann lítur svo svörtum augum á hina auknu útgjaldaþörf ríkissjóðs árið 1935 sem hann hefir nú skýrt frá, þá vil ég spyrja hann. hvort hann telji sæmilega fyrir öllu séð án þess að séð sé fyrir meiri tekjum. Annars var það ekki nema tvennt, sem hæstv. ráðh. nefndi, þó að hann teldi það í 4 liðum. Hann nefndi skuldaskilasjóð og vaxtalækkunina. Hann nefndi það, að það á að verja 1 millj. kr. í þágu sjávarútvegsins til þess að greiða fyrir útflutningi á fiski og leita að nýjum mörkuðum. En það er ætlazt til, að það verði gert með lántöku, og er margt, sem mælir með því, að svo verði gert. Við, sem verðum að rísa undir hinum dæmalausu örðugleikum, getum með góðri samvizku fært þetta yfir á framtíðina, þar sem á að verja þessum peningum til þess að byggja upp framtíðina. Hæstv. fjmrh. þarf því ekki að kveinka sér við því að leysa þetta af hendi. Svo skal ég viðurkenna, að það getur komið til greina, að greiða þurfi kjötuppbót og vaxtagreiðslur til landbúnaðarins, sem ekki munu fara fram úr 60—70 þús. kr., og er það smávægileg upphæð, sem ekki getur raskað jafnvægi fjárl. Ég sé ekki, að þetta séu út af fyrir sig frambærileg rök til þess að hafna tilboði mínu. Ég hefi borið fram mínar einkaóskir, og telur hæstv. ráðh. sig ekki hafa ástæður til að taka við þeim, og munum við sjálfstæðismenn því greiða atkv. á móti tillögunni.