17.12.1934
Efri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

7. mál, gengisviðauki

Magnús Jónsson:

Mér finnst óviðkunnanlegt, að ekki sé sagt neitt orð um þetta frv., sem er nú komið hingað aftur frá Nd. Það er venjulega gert um lítilfjörlegri mál, þó að einungis hafi verið gerðar við þau smábreyt. í Nd. Mér hefði fundizt viðkunnanlegra, að hæstv. fjmrh., sem hefir gengizt fyrir því í Nd., að smurt hefir verið 25% viðauka á meginhlutann af verðtollsskyldum vörum, lofaði okkur aðeins að vita um það hér í þd., hvað hann áætlar, að þessi viðauki gefi ríkissjóði í tekjur. Það mætti ætla, að hægt væri að reikna þetta út í fljótu bragði, hvað þessi viðbót nemur miklu, en þar kemur ýmislegt til athugunar, t. d. þær undantekningar, sem gerðar eru frá þessum viðauka: Skótau og ýmsar vefnaðarvörutegundir, sem keyptar eru frá Englandi og eru undanþegnar verðtolli samkv. viðskiptasamningum við Breta. Mér þætti viðkunnanlegra, að hæstv. fjmrh. gerði nánari grein fyrir þessu, en ef hann er bundinn í Nd., þá óska ég, að umr. verði frestað, svo að við getum fengið frv. til athugunar í fjhn. (JBald: Það verður að ljúka henni í dag). Það getur vel verið, að sumir hv. þdm. geti greitt atkv. með þessari stórfelldu breyt. á frv. án frekari umhugsunar. En ég er fyrir mitt leyti mjög í vafa um það, og óska því eftir frekari skýrslu um málið.