17.12.1934
Efri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

7. mál, gengisviðauki

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það er í raun og veru ástæðulaust fyrir mig að standa upp, þegar hæstv. ráðh. varð að fara. — Mér finnst þetta mál hafa snúizt dálítið einkennilega við, þar sem þetta frv. byrjaði þannig, að það dró stórlega úr tekjum þessum með því að fella niður jafngamla, viðurkennda og trygga liði og kaffi- og sykurtollinn, en svo er hrúgað inn í frv. undir meðferð málsins nýjum og stórum auknum tekjum. Mér hefði fundizt eðlilegt, fyrst jafnaðarmenn stöðvuðu benzínfrv., að þeir hefðu gert þau kaup þannig, að þetta frv. hefði fengið að ganga fram óbreytt. Á hinn bóginn get ég vel unnað Alþýðuflokksmönnum þess, að verða að krjúpa að þeim krossi að samþ. ekki eingöngu framlengingu á verðtollinum, heldur og 25% viðauka. Ég get ekkert vorkennt þeim það, en dálítið er það einkennilegt.

Ég verð að segja það, að mér finnst þeir tollar, sem hér er um að ræða, allt of lágt áætlaðir 180 þús. kr. Ég hygg, að það sé af því, að það geti ekki losnað úr höfði hæstv. ráðh. sú einkennilega fluga, að innflutningur sé enn stöðvaður svo mikið. Hann gætir ekki að því, að innflutningshöftin hafa nú í raun og veru alveg verið afnumin. Það þarf ekki annað en að benda á það, sem nú hefir verið birt í Lögbirtingablaðinu. Þar er það skýrt tekið fram, að engar hömlur megi leggja á innflutning frá Spáni né heldur gjaldeyrishömlur. En það er vitanlegt, að frá Spáni má fá svo að segja allar þær vörur, sem hægt er að setja innflutningshöft á, svo sem allar gull- og silfurvörur og allskonar glingur. Svo er einnig hægt að fá þar bíla, vélar og ýmislegt þess háttar, og það þarf engum getum að því að leiða, að þegar við höfum gert slíka samnings við eitt land, þá hljóta aðrar viðskiptaþjóðir okkar að heimta, að samskonar samningar verði gerðir við þær. Það er því alveg sérstaklega brosleg vitleysa, þegar þessir menn eru að samþ. fullkomin innflutningshöft, þegar þau eru í raun og veru alveg afnumin.

Hvað sem annars má um þetta segja, þá er það víst, að verðtollur hlýtur að verða meiri á næsta ári vegna þessa afnáms á innflutningshöftunum. Það er því alveg óhætt fyrir hæstv. fjmrh. að leggja út á árið með þessa tekjuauka, eins og hann orðaði það. Ég býst frekar við, að með þessu verði mönnum íþyngt stórlega um þörf fram, jafnvel til að ná greiðslujöfnuði á þeim ógurlegu fjárl., sem nú á að samþ. En það er eitt atriði, sem hér kemur þó til greina, þó að það verði kannske ekki á þessu fyrsta ári. Það er það, hvernig gjaldendur fara að rísa undir öllum þessum gjöldum. Það er hætt við, að það komi fram erfiðleikar, t. d. á því að ná inn tekju- og eignarskattinum, en ég býst við, að það komi ekki fram á svipstundu.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Ég vildi aðeins minna Alþfl. á þessa krossgöngu og Canossagöngu hans í þessu máli.