17.12.1934
Efri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

7. mál, gengisviðauki

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Af því að hv. 1. þm. Reykv. hefir nú nokkuð vikið að okkur Alþýðuflokksmönnum við þessa umr., verð ég víst að gera það honum til þægðar að segja við hann fáein orð. Annars býst ég ekki við, að við Alþfl.menn þurfum sérstaklega á hans mönnum að halda um þessi mál, þó að við tökum nú nokkuð aðra afstöðu en áður til t. d. verðtollsins, því að það er dálítill munur að fá að eiga hlutdeild í því, hvernig fénu er varið, en áður höfðum við ekki nokkurn skapaðan hlut um það að segja. Það var m. a. það, sem gerði það að verkum, að sjálfstæðismenn á sínum tíma stóðu á móti að framlengja verðtollinn, sem þeir í sjálfu sér hafa þó alltaf verið samþykkir. Þeir vildu ekki samþ. hann af því, að þeir þóttust ekki fá að ráða nógu miklu um það, hvernig fénu væri varið.

Ég hygg, að við Alþfl.menn getum fullkomlega komizt að samkomulagi við okkar flokk um það, hvernig afstöðu við höfum tekið til þessa máls. Fulltrúaþing Alþýðusambandsins hefir tekið þessa afstöðu, sem við höfum nú fylgt eftir. Það var óskað eftir, að haldið væri uppi á þessum erfiðu tímum miklum framkvæmdum, en það er ekki hægt nema með því móti, að til þess fáist nokkurt fé, og til þess að geta haldið uppi miklum framkvæmdum og atvinnubótavinnu, þá var óhjákvæmilegt að leggja á nýja skatta, ef þeir gömlu fullnægðu ekki þeirri þörf, sem nú er fyrir opinberar framkvæmdir. Þess vegna erum við ósnortnir af því, þó að hv. 1. þm. Reykv. tali um okkur með mikilli vorkunnsemi fyrir að við skulum þurfa að ganga þessa Canossagöngu, en þetta sýnir aðeins hans góða hjartalag, og það ber kannske að þakka honum fyrir.

Þá talaði hv. þm. nokkuð um innflutningshöftin. Satt að segja get ég aldrei almennilega skilið afstöðu Sjálfstfl. til þeirra mála. Þeir vilja ekki innflutningshöft, en þeir vilja beita gjaldeyrishömlum eins strangt og þurfa þykir. En eins og nú er komið, er þetta allt ekkert nema gjaldeyrishömlur. Eins og hv. þm. vel veit, þar sem hann hefir svo lengi verið í bankaráði, þá er oft hrúguð vörum inn í landið meira og minna óþörfum, og svo verða bankarnir nauðugir viljugir að greiða þessar vörur, þó að þær séu gersamlega óþarfar. Stjórnir verzlunarbankanna erlendis kaupa þessar kröfur, og svo er ómögulegt að neita þeim um peningana. Þegar því hv. sjálfstæðismenn eru að tala um gjaldeyrishömlur, þá eru þeir að leika hálfgerðan skollaleik um þetta. því að þær geta ekki gert mikið gagn, nema jafnframt sé dregið úr innflutningi eins og hægt er.

Hann segir, að með samningunum við Suðurlönd hafi innflutningshöftin verið gerð að engu. En það tekur mjög langan tíma að taka upp viðskipti um vörur, sem ekki þéna okkur, og eins tekur það langan tíma fyrir kaupmenn að komast þar í samskonar sambönd og við nágrannaþjóðirnar. Þar fá þeir langan gjaldfrest, af því að þeir hafa ekki handbært fé til að greiða vöruna út í hönd. Það hefir líka sýnt sig, að þrátt fyrir liðlegar undirtektir undir innflutning frá Suðurlöndum hefir sú verzlun ekki aukizt stórlega mikið á síðustu árum. Innflutningur á nauðsynjavörum eins og t. d. salti hefir staðið í stað, því að þar eru komin á gömul og föst sambönd, en með aðra vöruflokka hefir gengið heldur treglega, því að það þarf langan tíma til að komast í föst verzlunarsambönd, bæði að því er snertir val á vörum, gjaldfrest o. s. frv. Það er því svo, að þó að við höfum gert svona samninga við þessa viðskiptaþjóð okkar, þá þýða þeir ekki það, að allt sé þar með opið upp á gátt. Þó að samningurinn sé nokkuð fortakslaus, þá þarf alltaf nokkuð langan tíma til að koma á föstum verzlunarsamböndum við ný lönd.

Hv. þm. minntist á vélar og sagði, að við gætum vel keypt þær frá Spáni. Nú er víða hér búið að setja upp allmikið af nýjum vélum. Ef nú þarf að bæta nýjum vélum við, þá verða þær að koma frá sömu löndum og fyrstu vélarnar voru keyptar frá. Það gætu auðvitað komið nýir menn, sem keyptu þá fyrstu vélarnar frá Suðurlöndum, en þeir, sem þurfa að kaupa viðbótarvélar, leita áreiðanlega til þeirra sambanda, sem þeir hata áður haft, því að þá geta þeir fengið vélar, sem eiga saman við þær, sem fyrir eru. Það getur því orðið talsverð bið á því, að veruleg verzlunarsambönd komist á við Suðurlöndin þrátt fyrir þessa samninga.

Ég skil það vel, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vilja áætla þessar tekjur um skör fram nú, því að það er bersýnilegt, að ef sú takmörkun, sem nú er á innflutningunum, verður meiri en áður, þá verður innflutningurinn varla meiri en 1932, en það var lágt innflutningsár. Hinsvegar er óvíst, hvernig innflutningurinn verður á árinu 1934, það getur verið, að hann verði miklu meiri, en það stafar þá bara af meira fjöri í atvinnulífi þjóðarinnar. Ef eitthvað greiðist úr með sölu afurða okkar, verður innflutningurinn meiri, en hinsvegar lítur nú því miður svo skuggalega út þar, að við getum varla verið bjartsýnir um það atriði. Auk þess þurfum við eftir næstu áramót að greiða vegna erlendra viðskipta 6—7 millj. kr. eða meira, sem kemur sem kröfur smátt og smátt upp úr næstu áramótum, en um tollana þarf hv. 1. þm. Reykv. ekki að gera sér rellu viðvíkjandi okkur jafnaðarmönnum. Og benzínskatturinn, sem þetta frv. kemur nú í staðinn fyrir, hefir verið lagður í sína gröf að þessu sinni, og hugsa ég, að fjhn. geymi hann vel. En eins og hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir, myndast stórt skarð við það, að benzínskattinum var kippt burt. Það skarð vill hann fylla, og þá þörf skilja þeir, sem taka þátt í þeirri ábyrgð, hvernig búskapur ríkisins gengur, og undan þeirri ábyrgð viljum við Alþfl.menn ekki skorast.