06.11.1934
Efri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

26. mál, vinnumiðlun

Magnús Guðmundsson:

Það er auðséð af orðalagi 1. gr. frv., að atvmrh. getur mælt svo fyrir, að vinnumiðlunarskrifstofa skuli vera sett á stofn í kaupstað, jafnvel þó að viðkomandi bæjarstj. eða meiri hl. hennar sé á móti því. Þetta sýnist mér ekki í góðu samræmi við þann rétt til að ráða sjálf málum sínum, sem sveitarfél. er tryggður, já, ég vil segja samkv. stjskr., ef á að taka af kaupstöðum réttinn til þess að ákveða, hvort þeir vilji hafa þessa stofnun eða ekki. Svo er það vitanlegt, að ef á að fara að setja upp þessar skrifstofur í öllum kaupstöðum landsins, þá verður af samtals mikill kostnaður. Ég vil nú beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvmrh., hvort hann hugsi sér að fyrirskipa slíkar vinnumiðlunarskrifstofur í öllum kaupstöðum landsins, hvort sem frá þeim kemur beiðni um það eða ekki. Hæstv. atvmrh. er hér á Alþ. fulltrúi fyrir minnsta kaupstað landsins, kaupstað, sem ekki getur búizt við að fá meira en h. u. b. 5 þús. kr. á ári til atvinnubótavinnu. Ætlar hæstv. atvmrh. nú að skipa þessum kaupstað að setja upp vinnumiðlunarskrifstofu með 5-6 starfsmönnum? Og ef svo er, hvað hugsar hann sér, að borgað verði þessum mönnum í kaup fyrir störf sín við þá skrifstofu. Hvað er sanngjarnt að borga slíkri skrifstofu í kaupstað, t. d. ef íbúatala bæjarins er 5 þús? Það er ekki ástæðulaust að spyrja svo á yfirstandandi tíma, þegar það er kunnara en frá þurfi að segja, að sveitarfél. og bæjarfél. yfirleitt eru í mestu vandræðum með að standa við sínar skuldbindingar um fjárgreiðslur. Hæstv. stj. er nú rækilega gengin inn á þá braut að hækka gjöld á þeim og jafnframt að taka af þeim tekjustofna, stærri og smærri. Ef halda á áfram á þessari braut, þá er það auðsætt, að hér er stefnt út í algerða ófæru og ég álít, að fara þurfi sérstaklega varlega á þeirri braut.

Það hefir verið réttilega tekið fram og er viðurkennt af öllum, sem tekið hafa til máls um frv., að það miði ekki til atvinnuaukningar. Frekar hlýtur það að rýra hana, því að sá kostnaður sem er samfara þessari skrifstofu, gæti þó að öðrum kosti a. m. k. að nokkru leyti gengið til þess að auka atvinnu. Að því er snertir Rvík sérstaklega, þá upplýsti hæstv. atvmrh., að hér væru til ýmsar vinnumiðlunarstofnanir, sem ynnu að þessu sama marki, sem á að ná með þessari löggjöf. Ég vil gera þá fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort hann ætlist til þess, að niður falli allur styrkur til þeirra stofnana og hvort þær eigi að leggjast alveg niður. Ég tek eftir því, að stj., sem flytur þetta frv. í byrjun þingsins, hún hefir jafnframt lagt til, að veittur verði í fjárl. styrkur til tveggja slíkra skrifstofa. En þar er þessum vinnumiðlunarskrifstofum, sem hér um ræðir, ekkert fé ætlað. (Atvmrh.: Þetta frv. er ekki orðið að l. ennþá). Nei, að vísu ekki, en það lítur út fyrir, að stj. ætlist til, að á næsta ári verði borgað fé úr ríkissjóði til þessara skrifstofa, sem nú eru fyrir, jafnvel þótt frv. verði samþ. En er það meining hæstv. ráðh., að þær skrifstofur, sem fjárlagafrv. ráðgerir styrk til, falli niður? Ætlar hæstv. ráðh. að strika þá styrki út úr fjárlagafrv.?

Ég skil vel, hver tilgangurinn er með þessu frv. Hæstv. atvmrh. er illa við þá breytingu, að sett skyldi vera á stofn vinnumiðlunarskrifstofa af hálfu bæjarstj. Rvíkur. Hann vill hafa sinn pólitíska lit á henni. Það er því eins ástatt með þetta og byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna. En hæstv. atvmrh. gætir þess ekki, að það er fjöldi verkamanna hér í bænum, sem ekki vill fylgja jafnaðarmönnum. En það er eins og jafnaðarmenn álíti, að þeir hafi einkarétt á pólitískri skoðun verkamanna. En það verður erfitt fyrir þá að ná öllum undir sinn væng, því þeir skipta hundruðum eða jafnvel þúsundum, sem vilja ekki fylgja þeim. Og ég býst við, að þeir vinni ekki á, þó þeir reyni að kúga þá undir sig með þvingunarráðstöfunum.