27.10.1934
Efri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

34. mál, bráðabirgðaútflutningsskýrslur

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

N. hefir fallizt á að mæla með því, að frv. verði samþ. að mestu leyti óbreytt. — Þær breyt., sem n. vill gera á frv., eru veigalitlar. N. leggur þannig til, að hertur fiskur, sem n. er sammála um, að verði útflutningsvara á næstu árum, og þá verður metinn og flokkaður eftir gæðum, verði tekinn með undir þann lið, sem yfirfiskimatsmönnum er ætlað að gefa skýrslu um. Þá virðist n. rétt, að umboðsmönnum ísfiskútflytjenda verði gert að síma Fiskifélaginu auk magnsins einnig verðið, enda hefir Fiskifélagið undanfarið fengið símskeyti um aflasölur togaranna jafnóðum og sala hefir farið fram, og þar jafnan verið getið bæði magns og verðs aflans.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Get ég og að öðru leyti vísað til nál., þar sem gerð er grein fyrir málinu almennt.