21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

26. mál, vinnumiðlun

Magnús Jónsson:

Ég get nú í rauninni fallið frá orðinu. Hv. 2. þm. Rang. hefir þegar fært nægileg rök fyrir sameiginlegri skoðun okkar, svo að ég sé enga ástæðu til að fara að aðstoða hann.

En ég vil ítreka þá yfirlýsingu hv. frsm. meiri hl., að þetta frv. hefði aldrei komið fram. ef bæjarstj. Rvíkur hefði ekki verið búin að koma ráðningarskrifstofu á fót. (SÁÓ: Hefði e. t. v. ekki komið fram, sagði ég). Ég skrifaði hjá mér, hvað hv. frsm. sagði. Og þetta er svo merkileg yfirlýsing, að ég vil ekki láta hjá líða að undirstrika hana.

Þessi yfirlýsing gefur auðvitað laukrétta skýringu á því, hvers vegna frv. er komið fram, enda væri frv. annars hrein fjarstæða. Það á hvergi neitt erindi nema í Rvík, því að aðrir kaupstaðir geta ekki borið slík bákn sem þessar skrifstofur. Frv. væri því alveg út í bláinn ef þessar pólítísku ástæður lægju ekki fyrir. Þess vegna er þakkarvert, að hv. frsm. meiri hl. skuli hafa gefið þessa játningu.