18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

34. mál, bráðabirgðaútflutningsskýrslur

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég verð að játa, að hér er ekki um stórvægilega löggjöf að ræða, sem ég álíti, að geti valdið nokkrum skaða, þótt til framkvæmda komi. En það er meira heldur en hægt hefir verið að segja um ýms af þeim frv., sem hæstv. stj. hefir lagt fyrir Alþ. í seinni tíð, því að flest hafa þau verið fjölda manna til stórbölvunar. Ég vil taka fram, að ég er þó mótfallinn því, að ýms fyrirmæli frv. verði samþ., því að ég hygg algerðan óþarfa og jafnvel beinlínis skaða að lögfesta sum þeirra, enda þótt þau skipti að vísu ekki miklu máli.

Ég er samþ. höfuðtilgangi þessa frv., sem fjallar um það, að Fiskifélag Íslands skuli safna skýrslum um útflutning á allskonar sjávarafurðum. Ég er vitanlega samþ. mörgum af þeim fyrirmælum, sem í frv. standa viðvíkjandi þessari skýrslusöfnun. En ég kann aðeins illa við, að slík fyrirmæli séu samþ. án þess að þeir aðilar, sem hér eiga sérstaklega hlut að máli, útvegsmennirnir, fái tækifæri til þess að láta í ljós skoðun sína um þetta atriði. Þetta sagði ég að gefnu tilefni við hv. form. sjútvn. í gær, og þá fannst mér hann þessu samþykkur. Þess vegna kemur það mér á óvart, að þetta mál skuli vera tekið fyrir, því að ég fyrir mitt leyti gæti vel fellt mig við, að þessu máli verði tryggður fljótur framgangur, jafnvel á þessu þingi, sem gera má ráð fyrir, að endi næstu daga, ef útvegsmönnum — ég á aðallega við stærri útgerðarmenn, því að þetta mál skiptir þá mestu — gefst kostur á að segja sitt álit í þessum efnum. Ég get ekki séð, að nein hætta sé á ferðum, þótt þetta frv. bíði vetrarþings, því að þetta mál er ekkert deilumál. Ég vil því mælast til þess, að þetta mál verði tekið út af dagskrá og útgerðarmönnum verði gefinn kostur á því að láta í ljós álit sitt í þessu efni með þeim ummælum, að ef þeir verði búnir að skila umsögninni fyrir fimmtudag, þá skuli hún verða tekin til greina, en annars verði málið afgr. hér á Alþ., og mun ég þá ekki gera tilraun til þess að hefta framgang málsins með óþarfa málalengingum.