24.10.1934
Efri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Magnús Jónsson:

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. n. sagði síðast, að fyrirvari minn gilti ef til vill einnig um þá breyt., að fellt er úr l. að fresta framkvæmd jarðræktarl. að því er verkfærakaupasjóð snertir, skal ég segja það, að ég hefi ekki gert um það brtt. að bæta þeim kafla inn í frv., svo að fyrirvari minn gildir að sjálfsögðu ekki hvað þetta snertir. Annars verð ég að segja það, að úr því að ríkissjóður verður að seilast svona langt inn á ýmsar þær fjárveitingar, sem hann annars hefir ákveðið með l., þá sé ég ekki neina beina ástæðu til þess að fara að taka þennan lið einan undan, aðra en þess, venjulegu agitationsástæðu þeirra flokka, sem biðla sérstaklega til bænda. En annars mun ég ekki gera ágreining um það, þó að farið verði að framkvæma aftur þennan part l.

Ágreiningur minn er aftur á móti um það, að ég hefi ekki viljað taka þennan nýja lið upp í frv., en hann er um það, að hætta að taka 20% af þeim tekjum, sem bifreiðaskattur gefur hvert ár, til malbikunar á þjóðvegum. Ástæður mínar fyrir því, að ég er á móti þessu, eru þær, að þetta ákvæði bifreiðaskattsl. var beinlínis sett inn í l. upphaflega sem einskonar samningur milli þm. Óánægjan, sem spratt út af því, að leggja þannig viðhald veganna algerlega á bifreiðarnar, var milduð nokkuð með því að segja sem svo, að bezt væri þá að verja allverulegum hluta skattsins til þess að gera vegina betri fyrir bifreiðarnar. Ég býst við, að allir bifreiðaeigendur og bifreiðastjórar muni segja sem svo, að það margborgi sig peningalega að greiða þennan skatt allan, ef með honum væri hægt að gera vegina góða fyrir bifreiðar, því að góðir vegir varðveita bifreiðarnar frá sliti og spara eldsneyti. Og þess vegna varð það að samkomulagi að taka allverulegan hluta af þessum skatti til þess að gera vegina bifreiðafæra. Þó að upphæðirnar hafi að vísu ekki verið stórar, þá hafa samt þó nokkuð margir vegakaflar verið endurbættir einmitt fyrir þetta fé. T. d. má nefna veginn milli Hafnarfjarðar og Rvíkur, sem er án alls samanburðar mest notaður vegur landsins, því að það mun óhætt að segja, að á þessum stutta vegarkafla líði ekki svo nokkur stund, hvorki að degi eða nóttu til, að þar séu ekki alltaf fleiri eða færri bifreiðar á ferðinni. Þar af leiðandi er erfitt að halda veginum við, og er í rauninni alveg sjálfsagt að byrja sem fyrst á að malbika þennan veg eða aðra vegi, sem mikil umferð er um. Og vegna þess, að þetta ákvæði er komið inn í 1. beinlínis eins og samningur við þá, sem annars voru talsvert andvígir þessum l., þá álít ég það í alla staði óviðkunnanlegt og óviðurkvæmilegt að taka þetta ákvæði nú út úr lögunum.

Annars dettur mér ekki í hug, að þessi till. mín verði samþ., þó að ég nú hafi verið að bera hana fram, því að skynsemin á þessu þingi er nokkuð einhliða, ef farið er eftir því, hvað samþ. er. Stj. hefir látið í ljós sinn vilja um þetta með því að laga fjárl. eftir því, og ég þykist vita, að það sé ekki vert að eyða löngum tíma til þess að ræða um þetta. Hæstv. fjmrh. hefir einnig lýst því yfir, að till. meiri hl. n. væru ekki annað en framhald af störfum stj. við gerð fjárl. Ég þykist þess vegna vita það, þar sem þetta virðist allt vera rækilega grunnmúrað, þannig að meiri hl. fjvn. er í samræmi við stj., og svo leggur meiri hl. þessarar n., sem hér um ræðir, það aftur til, að breyt. verði gerðar til samræmis því, sem meiri hl. fjvn. hefir lagt til, að þá muni ekki blása byrlega fyrir brtt. minni, en hinsvegar vildi ég þó láta þessi ummæli fylgja henni, til þess að sýna fram á það, að það eru í raun og veru sviknir samningar með því að fella niður þennan lið l.