19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Við hv. 2. landsk. flytjum brtt. við þetta frv. á þskj. 812. Ég sé, að nokkrir hv. þm. ætla að feta í okkar fótspor, en þó til þess að beina fénu í annan farveg en við leggjum til. Brtt. okkar á þskj. 812 gengur eins og brtt. á þskj. 893 í þá átt, að fresta framkvæmd þessara laga til ársloka 1935. En við höfð um áður í Sþ. reynt að færa til samræmis 2 liði í fjárl., en ekki fengið því framgengt. Og ennfremur vegna þess, að það lítur út fyrir, að eigi að láta daga uppi í þinginu frv., sem borið var fram í Ed. og fór í þá átt, að hækka styrkinn til jarðræktarframkvæmda, svo sem til votheys- og þurrheyshlöðubygginga, safngryfjugerðar, garðræktar og framræslu til ræktunar, samkv. reglum, er Búnaðarfélag Íslands setur, en landbúnaðarrh. staðfestir. Nú viljum við sameina þessa tvo liði þannig, að því, sem sparast við að fresta framkvæmd þessara l., verði varið til styrktar landbúnaðinum eftir till. okkar hv. 2. landsk.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að mönnum er ljóst, að bændur hafa fulla þörf á að fá aukinn styrk til þessara framkvæmda, sem ég nefndi. Og þegar hægt er að framkvæma þetta á þennan hátt, að framkvæma þessi l., sem mér virðist stjórnarflokkarnir vilja fallast á, þá virðist mér málið vera auðleyst, því að vitanlega er ætlazt til, að þegar þessi upphæð er sett í fjárl., þá verði hún borguð út, og því er hér ekki um nein ný útgjöld að ræða frá því, sem hæstv. fjmrh. hefir gert ráð fyrir í sínu fjárl.frv. Það er því ekki hægt að mæla á móti till. okkar, eins og oft hefir verið gert hér á þingi, þegar eitthvað hefir átt að gera til hagsbóta fyrir bændurna, á þeim grundvelli, að ekki sé til fé til þess. Hér hefir verið bent á fjárhæð, sem hæstv. fjmrh. hefir gert ráð fyrir, að yrði borguð úr ríkissjóði, en við viljum, að það sé greitt til þessarar bráðnauðsynlegu eflingar fyrir bændurna.

Þar sem mér sýnist, að svo sterkur vilji muni vera fyrir því, að þetta verði framkvæmt, þá virðist mér ekki þurfa frekari rökstuðning fyrir því. Ég held, að ekki þurfi heldur að ræða um það, hver nauðsyn er að styrkja þessar framkvæmdir sveitabænda og létta undir með þeim að koma á þessum framkvæmdum, sem aftur á móti munu skapa þeim betri aðstöðu til að koma búskap sínum í sæmilegt horf. Ekki síður er þetta nauðsynlegt fyrir það, að mér sýnist ekki blása sérlega byrlega fyrir því, að það frv., sem flutt var í Nd. um nokkra endurbót á lánskjörum á fasteignaveðslánum bænda, fái greiðan gang gegnum þingið. Ég hefi nýlega heyrt, að það muni verða lagðar fram talsvert róttækar brtt. við það í Ed., og því vafasamt, að það muni ná fram að ganga á þessu þingi. Þó hefir það verið viðurkennt af svo að segja öllum í Nd., að það væri nauðsynlegt, að þar væri eitthvað gert til umbóta, þó að ekki væri hægt að fallast á þær till., sem fólust í frv. og gengu lengra.

Af öllum þessum ástæðum vil ég vænta, að hæstv. ráðh. og hv. d. taki vel undir þessa brtt. og samþ. hana.