19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jakob Möller [óyfirl.]:

Mér er nær að halda, að þetta ákvæði um að geyma þennan hluta bifreiðaskattsins hafi verið gert í samráði við vegamálastjóra, einmitt með tilliti til þess, að við það standi í framkvæmdinni, en með því er gengið á móti þeirri kröfu, að þeir, sem leggja fram bifreiðaskattinn, fái að njóta hans að einhverju leyti, og þessi till., sem hér liggur fyrir, þó að hún sé miðuð aðeins við eitt ár, gengur á móti þeim tilgangi, sem sé að það er hindrað, að mögulegt verði að gera varanlegar götur innan þorpanna, en það tel ég ekki rétt. Annað mál er með vegi að þorpunum; það er óskylt mál og ómögulegt að réttlæta það á neinn hátt, að taka það fé, sem af eðlilegum ástæðum á að renna til vegagerða innan þorpanna, til þess að standast kostnað af vegagerð utan þeirra. Það er yfirleitt svo, að með þessari skiptingu á bifreiðaskattinum er það viðurkennt, að þorpin eigi að hafa rétt til að ráðstafa hluta af þessum skatti til eigin þarfa. En þar sem þau ummæli eru látin fylgja þessu nú, að þetta eigi aðeins að gilda í eitt ár, þá vil ég vísa til þess, að þessi l. um frestun á framkvæmd nokkurra l. hafa verið sett um eitt og eitt ár í einu og svo framlengd þing eftir þing. Eins verður gert um aðra liði, sem teknir verða inn í frv., að þeir verða framlengdir þing eftir þing, svo að þetta fé verður alveg af kaupstöðunum tekið, sem þeim hefir verið úthlutað til þeirra sérstöku þarfa. Það er það, sem um er að ræða, að svipta kaupstaðina þessari hlutdeild í skattinum, sem þeim er ætlað til sinna sérstöku þarfa, og að verja því til almennra vegagerðaþarfa ríkisins.

Ég tek undir það, sem hv. 6. landsk. sagði viðvíkjandi brtt. á þskj. 812, að mér finnst það engri átt ná að samþ. hana. Það er rétt, sem hann tók þar fram, að þar er farið fram á að verja þessu fé í svo geróskyldum tilgangi, að það kemur ekki til greina.