11.10.1934
Neðri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

6. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég mun ekki verða langorður um frv. þetta, því að efni þess liggur ljóst fyrir. Í l. frá 1927 var svo ákveðið, að iðnaðarfyrirtæki, sem stofnsett voru fyrir 1. jan. 1927 og ráku vörugerð, sem féll undir ákveðna liði þessara l., skyldu undanþegin talsverðum hluta framleiðslugjalds. Greinin, sem hér er farið fram á að breyta, hljóðaði um undanþágu mests hluta gjalds þess, sem fyrirtæki þessi hefðu annars orðið að greiða af framleiðslu sinni. Síðar var samskonar ákvæði lögfest um þau samkynja fyrirtæki, sem stofnuð voru eftir 1. jan. 1927, og er 2. gr. þessa frv. um það. Eins og hv. dm. mun vera kunnugt, er ríkissjóður nú mjög fjárþurfi, og leggur stj. til með frv. þessu, að undanþágur þær, sem hér hafa verið nefndar, verði afnumdar, þar sem vörutegundir þessar eru þess eðlis, að þær þola nokkra álagningu. Þetta kæmi aðallega niður á öli og kaffibæti. Með núv. fyrirkomulagi sleppa þessar vörutegundir óþarflega vel frá gjöldum, og er ekki ástæða til þess, ef miðað er við aðrar framleiðsluvörur. Að svo mæltu vil ég mælast til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn. að aflokinni þessari umr.