11.10.1934
Neðri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

6. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Emil Jónsson:

Hæstv. ráðh. óskaði þess, að frv. þetta væri sent hv. fjhn. Það mun rétt, að þetta sé fyrst og fremst fjárhagsmál, en þar sem það snertir allmjög innlenda framleiðslu, datt mér í hug, að það ætti heima í iðnn.

Í grg. frv. stendur, að hér sé aðallega um ónauðsynlega framleiðslu að ræða. Um það vildi ég einnig fara nokkrum orðum. Hér er a. m. k. ein vörutegund, sem ekki verður nefnd, ónauðsynleg, og það er kaffibætir. Nú er það svo, að kaffibætistollurinn eða framleiðslugjald af íslenzkum kaffibæti er 26 au. á kg., en yrði þetta frv. samþ., hækkaði þetta gjald á miklum hluta framleiðslunnar upp í 80 au. á hvert kg., og er það ekki óveruleg álagning. Ef dregið er saman, hverju þetta viðbótargjald nemur á þennan hluta framleiðslunnar, verður það um 70-80 þús. kr., og er það mikil álagning, sem hlýtur að koma þannig fram, að varan verður seld hærra verði. Ég vil biðja hv. fjhn. að athuga það gaumgæfilega, hvort ekki væri hægt að flytja þessar 70 þús. kr. yfir á einhverja aðra framleiðsluvöru, sem þyldi betur skatta en þessi. Það er hreint ekki svo óverulegt gjald, að greiða 26 au. af hverju kg., hvað þá ef ætti nú að þrefalda það. Í grg. frv. stendur, að þessi undanþágu-heimild nái aðeins yfir þann hluta framleiðslunnar, sem samsvari árlega allri framleiðslu ársins 1926. En það mun nú vera helmingur allrar framleiðslunnar, sem samkv. þessari undanþágu hefir ekki þurft að borga nema 1/6 hluta aðflutningsgjaldsins. Það hefir verið talað um að lækka kaffitollinn, en verði nú kaffibætistollurinn hækkaður svo sem hér er farið fram á, er hætt við, að lítið verði úr lækkuninni.