01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

6. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Hv. frsm. minni hl. sagði, að brtt. um hækkunina á kaffibætinum riði í bága við straum tímans, og vildi því ekki fylgja henni, því að hún drægi úr innlendri framleiðslu. En það er nú svo með þessa innlendu framleiðslu á kaffibætinum, að hún getur tæplega talizt nema að litlu leyti innlend, tæplega meira en brennt og malað kaffi getur talizt innlend framleiðsla. Kaffibætirinn er aðeins hrærður hér saman úr erlendum efnum. Annars verður því ekki neitað, að ríkissjóður hefir tapað stórfé á þessari innlendu framleiðslu, því að hún hefir gefið tugum þúsunda minna í ríkissjóðinn en ef varan hefði verið flutt inn tilbúin, því að hinsvegar hefir samsetningur hennar hér veitt örfáum mönnum atvinnu.

Það má vitanlega alltaf um það deila, hvernig tollarnir verki. En það er álit mitt, að skatthækkun sú, sem lögð var á ölið á síðastl. ári, hafi frekar dregið úr neyzlu þess. Minnkun á framleiðslu þess 1932 byggist aftur á móti á sameiningu tveggja verksmiðja, svo slíkt er ekki leggjandi til grundvallar. Annars er það svo, að þetta lélega öl hefir ekki ótakmarkað burðarmagn til tollaálagningar frekar en aðrar vörur, og mitt álit er það, að nú þegar sé fullskipað á það burðarmagn, sem það hefir.

Um það má deila, hvort hækka eigi innflutningsgjaldið á þessum vörutegundum eða fella niður undanþáguna. Mér er greint, að lögfræðingar stjórnarráðsins telji þessa aðferð örugga og forsvaranlega, og það er ljóst, að þessi iðnrekstur nýtur fullnægjandi verndar í innflutningshöftunum, og í sumum tilfellum óþarflega mikillar verndar, því að hann hefir jafnvel gefið einstaklingunum óþarflega mikinn gróða.

Þessi mál öll ætti að taka til rækilegrar athugunar fyrir næsta þing, m. a. til að komast að niðurstöðu um, hvort ekki væri rétt að hækka innflutningsgjaldið, þar sem þarf, af erlendum samkeppnisvörum, og ef fært þykir, lækka innflutningsgjaldið af þeim hrávörum, sem nota verður til þess að halda sem mestri vinnu í landinu.