01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

6. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hefi litlu að svara því, sem fram hefir komið síðan ég talaði síðast.

Það virðist koma fram hjá fleiri hv. þm. það sama og hjá hv. minni hl. fjhn., að boginn sé spenntur of hátt með þeirri álagningu á ölið, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég reyndi áðan að bera fram þær skýringar, sem ég taldi nauðsynlegar í því sambandi, og vil ég leyfa mér að endurtaka nokkuð af þeim til áréttingar. Ég er ekki eins hræddur um, að boginn sé spenntur of hátt í þessu efni, vegna þess, að hér er aðeins að ræða um 5 aura hækkun á flösku. Og ef framleiðendurnir álitu, að sú hækkun mundi leiða til mikillar rýrnunar á sölu ölsins, þá er smásöluálagningin svo mikil, að þeim væri í lófa lagið að ná tollhækkuninni með því að lækka hana. Auk þess má benda á það sama og hv. 2. þm. Skagf., að þetta eru fyrirtæki með mjög arðvænlegum rekstri og gætu þau því tekið a. m. k. brot af tollhækkuninni á sig. En ég álít, að þau þurfi þess ekki, heldur geti látið hana koma fram í örlítilli verðhækkun og minnkaðri smásöluálagningu. Með þeirri álagningu, sem við höfum á vörum, sem ekki eru ónauðsynlegar, finnst mér ekkert athugavert, þó öl sé tollað með 20%.

Hv. þm. Hafnf. minntist á að komið gæti til mála að leggja mismunandi toll á innlenda framleiðslu, eftir því hvað framleiðsla hvers fyrirtækis væri mikil. Þetta er nú alveg nýtt fyrir mér, og ætla ég ekki að lýsa neinni skoðun á því að svo stöddu. En þetta er atriði, sem kemur til athugunar, þegar þessum málum verður skipað í heild. Þar sem iðnaðurinn í landinu er að taka miklum breyt. og framleiðsla margra vörutegunda, sem áður voru fluttar utanlands frá, er nú að færast inn í landið, þá þarf að taka þessi mál öll til rækilegrar athugunar og skipa þeim til frambúðar á þann hátt, sem heppilegast þykir. Það er rétt, að það skortir mikið á, að tollaálagningu sé hagað á heppilegan hátt fyrir iðnaðinn. Hitt er ég ekki hv. þm. Hafnf. sammála um, að allir framleiðslutollar séu neyðarskattur. Þeir eru það ekki, ef um óþarfan varning er að ræða. Hitt er neyðarúrræði, að þurfa að skattleggja framleiðslu nauðsynjavöru. Hinsvegar verður að gæta þess við álagningu framleiðslutolla, þó á ónauðsynlegum varningi sé, að þeir spilli ekki fyrir innlendri framleiðslu í samkeppni við erlenda vöru. Það verður að gæta hlutfallsins á milli framleiðslugjalda og tolla á útlendum vörum.

Ég er þakklátur hv. þm. fyrir bendingu hans um sódavatnið. Með sérstöku tilliti til þeirrar notkunar, sem hann benti á, finnst mér óeðlilegt að hafa það undanskilið gjaldinu.

Ég er fyrir mitt leyti hlynntur því, að málinu sé ekki hraðað meira en svo, að hv. iðnn. gefist kostur á að segja um það álit sitt, eftir því sem hún óskar. Gæti ég t. d. hugsað mér að láta líða það langt milli 2. og 3. umr., að henni gæfist kostur á að athuga málið eftir vild fyrir 3. umr.

Við höfum verið að athuga í fjmrn. nú undanfarið um eftirlit með tollagreiðslum af innlendri framleiðslu. Höfum við komizt að þeirri niðurstöðu nú síðustu daga, að skortur sé á nægilega sterkum ákvæðum í lögum, til þess að hægt sé að hafa þetta eftirlit fullnægjandi. Hefi ég afhent fjhn. till. frá ráðuneytinu um það efni. Bæði með tilliti til þess og tilmæla hv. iðnn. tel ég rétt að láta líða dálítið milli umr. um þetta mál.