01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

6. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Hannes Jónsson:

Ég vildi taka undir það með hv. þm. Hafnf., að það væri æskilegt, að iðnn. fengi þetta frv. til athugunar, og einnig vildi ég beina því til hv. landbn., hvort hún vildi ekki athuga það líka með tilliti til frv. um breyt. á tolllögunum. Þessi 2 frv., sem fyrir þinginu liggja, eru shlj., og erfitt að greina þau hvert frá öðru. Ég álít, að það beri að líta á fleira í þessu efni en það, hvort skipta eigi tollunum hlutfallslega rétt niður á vörutegundir eftir því, hvort þær eru nauðsynlegar eða ónauðsynlegar, eða hvort verið sé að auka tekjur ríkissjóðs eða ekki. Það ber líka að taka tillit til framleiðslunnar í landinu, og ég hygg, að mjólkurframleiðslan geti haft mikið gagn af breyt. á þessari löggjöf, sérstaklega súkkulaðigerðin. Mér kæmi það ekki á óvart, þó hægt væri að umsetja svipað mjólkurmagn eins og Mjólkursamlag Borgfirðinga telur sig hafa til sölu, á innlendum markaði. Þar sem hér er um svo merkilegt mál að ræða, álít ég nauðsynlegt, að tollalöggjöfin sé sniðin með það fyrir augum að greiða fyrir því, að þessi iðnaður geti borið sig sem bezt og á þann hátt, að hann njóti sem mest innlendrar framleiðslu.

Ég vildi aðeins benda á þetta og taka undir það með hv. þm. Hafnf., að nauðsynlegt væri að vísa málinu til iðnn. og að hún athugaði það í sambandi við landbn.