09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. sagði við þessa umr., að hækkun á tekju- og eignarskatti rýrði ekkert möguleikana til þess að leggja á útsvör. Ég vildi út af þessari staðhæfingu hans spyrja hann að því, hvort hann meini aðeins með þessum ummælum, að það sé jafnauðvelt eftir sem áður að jafna niður útsvörum. Ef hann meinar það, þá skal ég játa, að það er reikningslega rétt, en ef hann meinar, að hækkun skattanna hafi engin áhrif á innheimtu útsvaranna, þá er það alveg rangt.

Ég hefi gaman af að minna hann á það, að þegar skattalögin frá 1921 komu til framkvæmda, var það almennt álit bæði utan þings og innan, að skatturinn á lágum tekjum næði ekki nokkurri átt, hann væri allt of hár, og á þinginu 1923 var skattstiginn þess vegna lækkaður að verulegum mun. En nú lætur hæstv. ráðh. sér ekki nægja skattstigann frá 1921, heldur hækkar hann hann að verulegum mun. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. hefir aflað sér upplýsinga um það, hvernig gengur að innheimta skatta ríkisins, en ég þykist vita, að hann hafi orðið þess var, að það vilja verða vanhöld á útsvörunum, og ég hygg, ef hann leitar sér upplýsinga, að þá komist hann að því, að það eru einnig vanhöld á sköttum ríkissjóðs. En heldur þá hæstv. ráðh., að 100% hækkun á skattinum hafi engin áhrif á innheimtu skatta og útsvara? Auðvitað er slíkt ekki nema hrein vitleysa og barnaskapur, sem engum dettur í hug að halda fram nema honum. Slíkar fjarstæður stafa af hæfileikaskorti og reynslu- og þekkingarleysi þessa manns, sem alls ekki getur staðið í þeirri stöðu, sem hann hefir verið settur í.

Hæstv. ráðh. játaði, að niðurjöfnunarnefndir hefðu farið inn á þær brautir að leggja á óbeina skatta. Verið getur, að það sé réttmætt, en ég hélt, að það væri ekki stefna hæstv. ráðh., og að hann mundi ekki vilja stuðla að því, að það sé gert. Því hvað eru slíkir skattar, t.d. vörugjald, annað en tollur á almenning? Hann virtist telja tolla réttmæta tekjuöflunaraðferð í bæjarfélögum, en rangláta fyrir ríkið. Hann telur sanngjarnt í bæjarfélögum að leggja tolla á einstaklinga, sem ekki hafa tekjur, með því að leggja viðskiptagjald á verzlanir, og hverjir borga svo þetta gjald? Það eru þeir, sem kaupa vörurnar. Þetta hefir ekki verið gert í Rvík, en það hefir verið gert í einum eða fleiri bæjum, og einmitt þar sem skoðanabræður hæstv. ráðh. ráða lögum og lofum. Á Ísafirði hefir verið lagt á allt að 6% viðskiptagjald. Halda menn nú, að þetta sé gert að gamni sínu? Nei, það er ekki svo, það er gert af því að það hefir reynzt ómögulegt að innheimta beinu skattana, og af hverju? Af því að það er búið að spenna bogann of hátt. Hæstv. ráðh. fær að kenna á því, að boginn hefir verið spenntur of hátt. Tekjur þær, sem hann er hér með í frv., koma ekki inn. Það er ekkert nema hreinustu blekkingar við þjóðina að halda öðru fram. Ég tel auk þess vafasamt, að það sé heimilt að innheimta tekjur í bæjarsjóð eins og hæstv. ráðh. vill vera láta. Ég vil benda á það, að Vestmannaeyjar hafa þegar fengið séstaka heimild með lögum til þess að leggja á gjaldendurna þennan skatt, sem hæstv. ráðh. er svo hrifinn af. Það var eins og hæstv. ráðh. hefði einhvern pata af því, að það þyrfti að útvega Rvík annan skattstofn en útsvörin, því að hann fór að benda á fasteignaskatt í því sambandi. Hann hefir áður brýnt það fyrir mönnum, að það gildi einu, hvernig skatturinn sé tekinn, en ég held, að það sé að vísa í geitarhús að leita ullar, að benda á fasteignaskatt í þessu sambandi, þegar búið er að leggja á tekju- og eignarskatt, sem ekki innheimtist, þá gerir fasteignaskatturinn það ekki heldur.