09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Jóh. Stefánsson:

Mér þykir hlýða að fara örfáum orðum um þetta frv. Ég hefi átt sæti í þeirri n., sem um það hefir fjallað, af hálfu Alþýðuflokksins. Eins og komið hefir fram, er það eitt atriði í frv., sem veldur mestum ágreiningi, en það er skattstiginn sjálfur eða hækkun hans. Ég ætla því að fara nokkrum orðum um það atriði. Eins og hv. þdm. er mæta vel kunnugt, er skattstiginn allverulega hækkaður frá því, sem hann er eftir skattalögunum frá 1921 og jafnvel þó að talinn sé með sú viðbót við skattinn, sem gilt hefir hin síðari ár. Þessi hækkun skattstigans er því meginbreyt., sem frv. felur í sér, en þó má nefna annað, sem frá mínu sjónarmiði er einnig mjög mikilsverð breyt., og það er hækkun persónufrádráttarins. Til þessa hafa gilt þau ákvæði, að einstaklingur hefir 500 kr. skattfrjálsar af tekjum sínum, hjón 1000 kr. og fyrir hvert barn innan 14 ára aldurs hefir mátt draga 500 kr. frá tekjum foreldra eða þeirra, sem barnið framfæra. Með frv. er lagt til, að þessi persónufrádráttur hækki í Rvík fyrir hvern einstakling í 800 kr., en annarsstaðar á landinu í 600 kr. Fyrir hjón í Rvík verði hann 1500 kr., en annarsstaðar 1200 kr. Auk þess er persónufrádrátturinn fyrir börn, sem ekki er hækkaður, látinn ná til 16 ára aldurs í stað 14 ára. Þessi hækkun persónufrádráttarins gerir það að verkum, að hækkun skattstigans hefir mjög lítið að segja fyrir lægst launaða fólkið í landinu yfirleitt. M. a. s. þrátt fyrir hækkun skattstigans hafa þeir, sem lægra eru launaðir, minni skatt eftir frv. heldur en eftir núgildandi l. meðan tekjurnar eru undir vissu marki, þó komin sé inn í frv. 40% viðbótin, sem gilt hefir síðastliðin ár. Þannig hefir einhleypur maður með 3000 kr. nettótekjur lægri skatt en samkv. gildandi 1. Sömuleiðis hafa barnlaus hjón með 4500 kr. nettótekjur lægri tekjuskatt eftir frv. en áður hefir verið, einnig hjón með eitt barn og 5000 kr. nettótekjur, hjón með 2 börn og 5500 kr. nettótekjur, hjón með 3 börn og 6000 kr. nettótekjur, hjón með 4 börn og 6500 kr. nettótekjur og hjón með 5 börn og 7000 kr. nettótekjur. Þessi breyt. á skattalöggjöfinni hnígur mjög í þá átt, sem Alþýðuflokkurinn hefir viljað stefna að um öflun ríkisteknanna þannig, að hlutfallslega hærri skattur sé tekinn af háum tekjum og stighækkandi. Jafnframt er með hækkun persónufrádráttarins girt fyrir það, að ekki séu skertar með tekjuskatti nema sem minnst svo kallaðar þurftartekjur. Hinn lági persónufrádráttur hefir verið mesti gallinn á núgildandi skattalöggjöf. Hann hefir gert það að verkum, að verkafólk með lágar tekjur hefir orðið að borga af þeim skatta, þó tekjurnar hafi varla hrokkið, og jafnvel alls ekki, til nauðsynlegustu þarfa. Nú er með þessu frv. nokkuð bætt úr þessu jafnframt því, sem tekjur ríkissjóðs eru auknar. Frv. þetta stefnir í þá átt, sem Alþýðuflokkurinn hefir viljað fara í skattamálum, og er því ekki að undra, þó að Alþýðuflokkurinn fylgi frv. Hæstv. núv. atvmrh. flutti fyrir nokkrum árum frv., sem fór í svipaða átt og þetta, en það náði ekki fram að ganga. Þessar tvær breyt. frv. frá núgildandi skattalöggjöf eru því eins og ég hefi áður sagt samkv. stefnu Alþfl. Og þar sem frv. þetta miðar einnig að því, að hækka tekjur ríkissjóðs, en það telur Alþýðufl. nauðsynlegt, svo hægt verði að verja meiru fé úr ríkissjóði til verklegra framkvæmda og aukinna atvinnubóta bæði í kaupstöðum og kauptúnum, þá er Alþýðufl. einnig af þeim ástæðum frv. fylgjandi. Af því, sem ég nú hefi sagt, legg ég að sjálfsögðu eindregið gegn brtt. hv. 2. þm. N.-M., sem gerir ráð fyrir að færa persónufrádráttinn í sama horf og nú er og með því kippa fótum að miklu leyti undan því réttlæti, sem felst í frv.

Minni hl. fjhn. hefir aðallega fundið það að frv., að það takmarki getu bæjar- og sveitarfélaga til þess að jafna niður þeim gjöldum, sem nauðsynleg eru til þess að standast sinn rekstrarkostnað. Ég ætla, að hæstv. fjmrh. hafi gert grein fyrir því, að sú viðbára hefir ekki við mikil rök að styðjast, og hið sama er sýnt með nál. hv. meiri hl. fjhn. á þskj. 258, því það er mjög vel hægt að nota sama skattstiga við álagningu útsvara í Rvík og notaður hefir verið, þó að frv. þetta verði samþ., því að hvorki sá skattstigi né frv. leggja neitt ýkja þungar kvaðir á hinar hærri tekjur í Rvík.

Það er eitt, sem ég vil minnast á, sem menn ekki athuga rétt og draga því af röng dæmi um hættu, sem stafi af háum sköttum og útsvörum, er leiði til þess, að menn hætti að vilja safna fé, en það eru ákvæði skattalaganna um rétt til þess að draga frá skattskyldum tekjum, áður en þær eru skattaðar, tekjuskatt og útsvar frá næsta ári á undan. Ef við tökum dæmi eftir töflunni, sem er fskj. með þskj. 258, um 100 þús. kr. hreinar tekjur, þá geri ég ráð fyrir, að mönnum ógni í fyrstu, hve há hundraðstala skattar og útsvar er til samans af þessari upphæð, en ef við nú útfærum þetta dæmi og gerum ráð fyrir fyrirtæki, sem hefir 100 þús. kr. í hreinar tekjur, eftir að frv. þetta er orðið að l., og sami útsvarsstigi, sem nú gildir hér í Rvík. er viðhafður, þá verður útkoman sú, að á fyrsta árinu þarf af þessum tekjum að greiða til bæjar 72415 kr. og verða þá eftir af hreinum ágóða 27585 kr. Þó að mörgum kunni nú kannske að finnast þetta lítill afgangur, þá held ég, að flestir verði nú að sætta sig við minna. En nú skulum við halda dæminu áfram. Við skulum nú segja, að þetta sé gott og „stabilt“ fyrirtæki og að það græði nú á næsta ári aðrar 100 þús. kr. Hver verður útkoman þá? Þá verður byrjað á því að draga frá þessum 100 þús. upphæð, sem nemur skatti og útsvari síðasta árs, eða 72415 kr. og þá verða ekki skatt og útsvarsskyldar nema 27585 kr., og verða útsvar og skattur af þessum 100 þús. kr. um 10 þús. kr., og verður það ekki talið svo hátt, að það ætti að fæla einstaklinga frá því að safna háum tekjum, því eitthvað ætti að vera hægt að leggja til hliðar af þessum 90 þús. kr. (ÓTh: En hvernig fer svo þriðja árið?). Ef fyrirtækið hefir enn l00 þús. kr. hreinar tekjur þriðja árið, þá verður auðvitað fyrst byrjað á því að draga frá þeim þessar 10 þús. kr. og síðan lagður skattur á 90 þús. kr., og verður hann auðvitað næstum því eins hár og hann var fyrsta árið, en fjórða árið verður hann svo aftur lægri. Þannig verður ef tekið er meðaltal af tveimur eða fjórum árum, skatturinn engan veginn eins geigvænlegur og hv. andstæðingar frv. vilja vera láta. Ákvæðið um að draga skatt og útsvar síðasta árs frá hreinum tekjum áður en þær eru skattlagðar er sá öryggisventill, sem kemur í veg fyrir það, að skatturinn verði nokkurntíma óeðlilega hár, svo að gjaldþegn, sem hefir háar tekjur, hefir alltaf mikinn afgang fram yfir það, sem hann þarf sér til lífsviðurværis, sem hann getur notað í sinn atvinnurekstur eða lagt til hliðar. Þessu má ekki gleyma, þegar talað er um skattana, en því er oft gleymt, og þá þykir það geigvænlegt, að skattur og útsvar af 100 þús. kr. skuli vera 72 þús. kr., en það er ekki svo frá ári til árs, vegna frádráttarins.

Ég tel svo ekki ástæðu til að segja meira um frv. Ég vil endurtaka það, að ég tel hækkun skattstigans og hækkun persónufrádráttarins miða til aukins réttlætis í skattamálum.