09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Það er 6. brtt. n., sem ég ætla að gera nokkra grein fyrir. - Það er öllum ljóst, að þegar tekju- og eignarskattur er hækkaður, þarf að gera ráðstafanir til þess, að nokkur jöfnuður verði milli ára í landi, þar sem svo mikill munur er á árferði eins og hér á Íslandi. Þessi krafa hefir að vísu oft komið fram áður. Það var borin fram till. um það fyrir eitthvað 9 árum að leggja til grundvallar skatta meðaltal tekna á undanförnum 3 árum.

N. leizt nú samt ekki á að viðhafa þessa reglu, m. a. af þeirri ástæðu, að ef meðaltal tekna 3ja ára er lagt til grundvallar, getur svo farið, að borga þurfi tekju- og eignarskattinn á tapári og það er mjög erfitt um innheimtu, þegar svo stendur á. Við tókum því það ráð að bera fram till. um það, að tap, sem verður á einu ári, megi koma til frádráttar á næsta ári, og svo koll af kolli þangað til það er að fullu borgað. Það er vitanlega grundvöllur tekju- og eignarskatts, að hann sé borgaður af tekjum og eignum. En þessu verður ekki náð hér á landi, nema heimilt sé að færa tap a. m. k. að einhverju leyti á milli ára til frádráttar á væntanlegum tekjum.

Hæstv. fjmrh. hefir lagt áherzlu á það, að almanaksárið sé grundvöllur tekju- og eignarskattslöggjafarinnar. Hann lagði á þetta fullsterka áherzlu: að vísu er það rétt, að hingað til hefir verið gengið út frá almanaksárinu um okkar tekju- og eignarskattsálagningu, en þar fyrir er þetta tímabil ekki grundvöllur 1. Grundvöllurinn er sá, sem ég sagði áðan, að skatturinn komi á raunverulegar tekjur, en ekki á töp. En hitt get ég fallizt á hjá hæstv. fjmrh., að um framkvæmd slíks tekjuskatts verður að leggja til grundvallar einhvern tíma. En sé svo, að eitt ár sé ekki öðru líkt, þá er árið ekki sú heppilegasta og einasta eining, sem kemur til greina. Þá verður maður að fallast á að taka einhverja lengri perióðu, sem gefur nokkurnveginn jöfnuð eins og afkoman er um lengra skeið hjá atvinnufyrirtæki. Ég get fallizt á, að það sé tæplega rétt eins og er í till. okkar að láta flutning tapa milli ára vera ótakmarkaðan, heldur sé rétt að ákveða eitthvert fast tímabil, sem vitanlega má aldrei vera styttra en 3 ár. Ég vil benda á það, að í sinni till. leggur hæstv. fjmrh. ekki almanaksárið til grundvallar, heldur vill hann heimila, að tekið sé tillit til 3ja ára.

Hv. þm. G.-K. og hæstv. ráðh. hafa báðir fundið það að þessari till. n., að hætt sé við, að hvötin til þess að leggja í varasjóð fari minnkandi, verði till. samþ. Ég vil þá fyrst benda á það, að varasjóður kemur ekki til greina nema í fáum af þeim tilfellum, sem hér er um að ræða, því að það er hvergi nærri allur atvinnurekstur í okkar landi rekinn af félögum, t. d. hlutafélögum. Þetta snertir því einungis nokkurn hluta af hinu stóra svæði atvinnurekstrarins, sem hér um ræðir. Mér skildist hæstv. ráðh. halda því fram, að ef félag legði í varasjóð, þyrfti það að greiða hálfan skatt, en ef það kysi að leggja ekki í varasjóð, þá myndu félagarnir, þegar að tapi kæmi, sleppa við allan skatt. Nú ber þess að gæta, að ef félag, sem hefir arð og á kost á að leggja í varasjóð, kýs að fara þá leið, að gera það ekki, heldur útdeila arðinum, þá kemur hann til skatts og er greiddur fullur skattur af honum, og ekki einungis það, heldur kemur hann líka til skatts hjá einstaklingunum, sem hans njóta. Svo að ef síðar ætti að taka til þessa fjár til að mæta tapi, þá er skaði að gera það með fé, sem búið er að greiða fullan skatt af, og það raunverulega tvöfaldan skatt. Hefði nú aftur á móti verið lagt í varasjóð, hefði verið hægt að mæta tapinu með fé, sem á sínum tíma var ekki skattskylt nema að hálfu leyti. En það er rétt, og það skal ég viðurkenna, að ef búið er að útdeila arði og þarf að grípa til hans aftur frá einstaklingunum, þá losnar félagið við tekjuskatt, sem nemur tapinu á því ári, sem það fyrst varð. En við getum þó aldrei áætlað, að félagið sem félag græði á þessu öllu meira en helming af tekjuskattinum móts við það, ef félagið hefði lagt í varasjóð. Og við verðum að athuga það, að móti þessum helming, sem við skulum segja, að félagið græði reikningslega, komi sá skattur, sem hinir einstöku félagsmenn hafa greitt, þegar þeir tóku arðinn. Þetta vegur nokkuð á móti, þótt e. t. v. megi segja, að ekki sé að fullu vegið á móti með því, en þegar maður bætir ofan á öllum þeim óþægindum, sem af því stafa, að hafa greitt af höndum allan arðinn og standa síðan uppi með tap, er fullt mótvægi fengið. Við verðum að ganga út frá því, að félögin hafi sjálfra sín vegna hvöt til þess að safna í varasjóð, og sú hvöt verður alltaf aðalorsökin til myndunar varasjóða, þótt hitt geti gefið nokkra aukahvöt, að varasjóðsféð sé að hálfu leyti undanþegið skatti, þá verður slíkt aldrei neinn grundvöllur í því efni. En úr því að talað er um það, að bætt sé við því, að félögin spekuleri í því að leggja ekki í varasjóði, vil ég henda á eina hættu, sem er í gildandi löggjöf um þetta efni. En hún er sú, að greitt er í tekjuskatt meira en helmingur af því fé, sem er útdeilt úr varasjóði til hluthafa. Þetta ákvæði er að vísu sett til þess, að það fé, sem á annað borð er búið að greiða í varasjóð, fari ekki þaðan aftur nema til þess að mæta tapi. En þetta getur samt auðveldlega verkað þannig, ef menn eru alltaf að spekulera í einhverri smávægilegri tekjuskattsniðurfærslu, að síður sé greitt í varasjóð, því að féð væri þá orðið fast, og kostaði meira að ná því þaðan aftur en að útdeila því upphaflega sem arði. Ég hygg, að hvöt félaganna til varasjóðseignar til þess að geta mætt sínu tapi jafnóðum muni vera nægilega sterk til þess að vega upp á móti þeirri óskynsamlegu spekulation um lækkun tekjuskattsins, sem af þessum till. ætti að leiða. En reynslan kann þó e. t. v. að geta orðið sú, að þetta dragi eitthvað lítilsháttar úr varasjóðssöfnun, en komi til þess, má með ýmsum ráðum setja undir lekann. Sýndu félögin nú þetta fyrirhyggjuleysi, mætti t. d. leggja aukaskatt ofan á venjulegan skatt á alla úthlutun arðs, meðan varasjóðurinn er ekki búinn að ná ákveðnu marki. Með því mætti koma nokkuð í veg fyrir, að arði sé útdeilt áður en varasjóðurinn er það, sem teljast verður hæfilegt. Sama mætti einnig gera um hlutafélög, sem hafa haft möguleika til söfnunar í varasjóð, að láta þau ekki hafa rétt til að draga tap frá tekjum sínum seinasta ár nema að svo miklu leyti sem tapið er greitt úr varasjóði. Það eru ýmsar slíkar aðferðir til, sem ekki þurfa að verða sérlega flóknar í framkvæmd, en ég hygg þó, að fyrst sé rétt að láta sýna sig, hvernig þessi aðferð gefst, sem meiri hl. fjhn. hefir nú lagt til.

Fjhn. getur ekki fallizt á till. hæstv. ráðh. um þetta sama efni. Það er bæði það, að hæstv. ráðh. leggur til, að ekki gangi nema helmingur af tekjum á móti tapi, sem áður hefir orðið. Þetta er vitanlega ókostur vegna þess, að það er annaðhvort rétt eða rangt að taka tillit til tapsins. Ef það er rétt að leyfa einstaklingum og félögum að draga frá tekjum sínum tap, allt að 3ja ára gamalt, þá á að leyfa þann rétt allan, en ekki hálfan. Og auk þess er ekkert lifandi samband á milli teknanna og tapsins, a. m. k. ekki í öllum tilfellum, og því myndi það svo verða, að ef einungis helmingur teknanna mætti ganga móti tapi fyrri ára, myndi í framkvæmdinni skapast mjög mikið misrétti. Ef menn vilja byggja á þeim grundvelli, sem fjhn. hefir gert, að tekjuskatturinn eigi að koma af tekjum, þá er rétt að fara alla leiðina eins og við höfum gert, þótt það mæli að vísu margt með því að tiltaka ákveðið tímabil, t. d. 3-4 ár, og það myndi ég fús að ganga inn á, þótt ég viti þar ekki um afstöðu allra fjhn.-manna. En þessi till. n. er mikilsverð í sambandi við þá hækkun, sem nú verður gerð á tekju- og eignarskattinum, og þá hækkun, sem orðið hefir á útsvörunum víðast hvar á síðasta áratug, því að þessi till. um að leyfa millifærslu taps á milli ára gerir allan atvinnurekstur í landinu öruggan a. m. k. gagnvart tekju- og eignarskattinum, og það öryggi er atvinnufyrirtækjunum mjög mikilsvert. Þessi till. fjhn. myndi auk þess sem hún eykur raunverulegt öryggi þeirra, sem leggja vilja út í atvinnurekstur, auka öryggi á þann hátt, að ekki væri hægt að telja mönnum trú um, að tekjuskatturinn og útsvörin séu orðin hærri en nokkur von sé um, að tekjurnar geti orðið. Það hefir verið algengt í þessu sambandi, hækkun tekju- og eignarskattsins, að vilja telja mönnum trú um, að nú sé skatturinn kominn upp fyrir tekjurnar. Þegar um það er að ræða, hvað skatturinn sé þungbær, þá er hægt að miða við þrennt: Skattskyldar tekjur, og það er hið venjulega, í skýrslum, umr. og löggjöf, hreinar tekjur, þ. e. a. s. tekjur, að frádregnum sköttum og útsvari, en það er hvorugt þetta, sem almenningur hefir í huga, þegar verið er að reikna út tekjuskattinn, heldur hið 3ja: Hvað menn hafi í tekjur, án þess að dregið sé frá útsvar eða skattur. Það er þetta, sem gerir mestan rugling á hugsun manna um það, hvað tekjuskatturinn sé þungbær, því að menn draga venjulega ekkert frá, ekki tekju- eða eignarskatt, útsvar eða persónufrádrátt, og halda, að skatturinn sé af brúttótekjum, þó að þær skrár og skýrslur, sem mönnum eru sýndar, séu miðaðar við nettótekjur, þar sem allt þetta er dregið frá. Ég vil taka undir það dæmi, sem hv. 1. landsk. kom með hér áðan, þar sem hann sýndi glögglega fram á það, að tekjuskattur og útsvar af 100 þús. kr. sem e. t. v. mun verða 72%, verður það ekki til lengdar. heldur jafnast þetta svo milli ára, að ef við tökum 3-4 árabil verður það miklu, miklu meira en 28%, sem einstaklingarnir hafa af sínum brúttótekjum. Dæmin, sem tekin eru, gefa venjulega skakkar hugmyndir til hins verra. En einmitt í þessu sambandi, þegar verið er að ræða um réttinn til þess að mega draga tapið frá, þá vil ég taka dæmi af þessu sama og áður. Ef einstaklingur græðir eitt ár 100 þús. kr., en tapar svo næsta ár, en græðir enn á ný 3ja árið 100 þús. kr., þá er honum samkv. gildandi l. ekki einungis óheimilt að draga tapið frá, heldur missir hann á þessu eina tapári réttinn til þess að mega draga skatta og útsvar frá tekjum næsta árs. Það getur ekki gengið til lengdar, að menn megi ekki draga frá tap, og miklu síður getur það gengið, að erfið ár, sem kunna að koma inn á milli, svipti menn réttinum til frádráttar sköttum og útsvari. Þessi rök renna undir það, að till. fjhn. um færslu taps milli ára verði samþ. Að öðru leyti skal ég ekki fara mörgum orðum um þetta mál. Eins og nál. sýnir, þá fylgi ég þessu frv. og tel það nauðsyn eins og fjárhag ríkisins er nú komið, að afla tekna sem þessu nemur og meira til, og þar sem nauðsyn er á tekjuöflun verður ekki öllu réttlátari leið fundin en tekju- og eignarskattshækkun. En hækkunin er ekki helmingshækkun frá því, sem nú er, heldur yfirleitt 10-60% á einstaklingum og frá 20-50% á meðalfjölskyldu. Til þess að afla þessara tekna, sem enginn getur borið á móti, að séu nauðsynlegar, væri e. t. v. hægt að fara tollaleiðina, en væri hún farin, hvernig myndi það verka á einstaklinga og bæjarfélög? Við þá athugun eigum við að leggja til grundvallar fjölskyldu, en ekki einstaklinga, eins og við tekjuskattinn. Tollaleiðin er nú þannig, að ef lagt er á nauðsynjar, sem talið er að allir þurfi að neyta, þá verður skatturinn því þyngri á fjölskyldunni því erfiðar, sem hún á uppdráttar. Einstaklingurinn sleppur e. t. v. með eina tolleiningu eða svo, en sá, sem á fyrir 5 manns að sjá, verður að greiða 6 tolleiningar. Þetta er á vissan hátt prógressivt eins og tekjuskatturinn, en á þann hátt, að því minni möguleikar til að standa undir byrðinni, því þyngri verður hún. Ég vil heldur, að farin sé sú leiðin, að byrðin þyngist því meir sem þrótturinn eykst til þess að standa undir henni. Og það er kosturinn við tekju- og eignarskattinn, og þess vegna fylgdi meiri hl. fjhn. frv. því, sem hér er til umr.

Ég skal minnast þess líka, að það hefir verið sagt hér, að tekjuskatturinn væri einskonar sérskattur á kaupstaðina, einkum Rvík. Ég vil hér sem fyrr leggja til grundvallar, að skatturinn á að hvíla á heimilunum, og engar sérreglur gilda í þessu sambandi fyrir Rvík eða aðra kaupstaði. Þvert á móti eru sömu reglurnar alstaðar gildandi, að öðru leyti en því, að Rvíkingum er heimilaður nokkru meiri frádráttur en öðrum, þótt það sé naumast nógu mikið. Svo að því leyti sem sérreglur gilda, eru þær ekki Rvík til tjóns. Sannleikurinn er sá, að það dugar ekki að miða við Rvík og segja, að hún greiði svo og svo miklu hærri skatt en Hafnarfjörður og því sé um sérskatt að ræða. Ef við hugsum um tölur, myndi Rvík greiða meira en Hafnarfjörður vegna mannmergðar, og Rvík kemur auðvitað til með að greiða mestan tekjuskatt, af því að hér eru flestir efna- og tekjumenn. Fram hjá þessu verður aldrei komizt þegar um tekju- og eignarskatt er að ræða. Ég get trúað því, að þessi skatthækkun komi þyngra niður á ýmsum öðrum kaupstöðum en Rvík, og þyngst niður á einstöku sveitarfélögum, sem illa eru stödd. En í þessu efni er skylt að líta á það, að það er ekki Rvík, sem stendur hér með sama krafti undir 100-faldri fjárhæð við það, sem Hafnarfjörður og aðrir kaupstaðir þurfa að standa undir.

Það féll hér setning áðan hjá hv. 3. þm. Reykv. svo hljóðandi: Skattar eiga að koma hlutfallslega niður eftir getu. Það er enginn skattur, sem fullnægir þessu eins vel og tekju- og eignarskatturinn.