09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég þarf ekki að vera langorður. Um það hefir aðallega verið deilt í sambandi við þetta frv., hvort með því væri gengið á rétt bæjar- og sveitarfélaga til að afla tekna. Minni hl. heldur því fram, að frv. gangi of langt í þessu efni og hljóti að skerða um of álagningarmöguleika sveitar- og bæjarfélaga. Um þetta atriði hafa nú þegar komið fram svo greinileg rök bæði frá stj. og frá hv. þm. V.-Ísf., hv. þm. Hafnf. og hv. 2. þm. N.-M., að ég sé ekki ástæðu til að fara út í það frekar. Ég sé ekki heldur ástæðu til að fara út í önnur atriði, sem hér hafa verið þrautrædd, enda eru nú fæstir þeirra mættir, sem tekið hála þátt í þeim umr. En ég vildi með fáum orðum víkja að tveimur brtt., sem hér liggja fyrir. Önnur er á þskj. 386, frá hv. 7. landsk. Ég get sagt það strax, að ég mæli með því, að sú brtt. verði samþ., því að ég tel, að sú aðferð, sem þar greinir, um mat á búpeningi, sé hentugri en það, sem frv. gerir ráð fyrir um þetta atriði, enda er þessu hagað svo, þar sem bezt lag er á framtali. En um brtt. á þskj. 359 er það að segja, að ég legg á móti því, að hún verði samþ., og get ég að mestu vísað til þeirra raka, sem ég færði gegn brtt. hv. 2. þm. N.-M., sem gengur í svipaða átt, þ. e. a. s. að gera engan mun á persónufrádrætti í Rvík og annarsstaðar. Ég get bætt því við þau rök, sem þegar eru komin fram, að það gefur að skilja, að það er ávallt ódýrara að lifa á þeim stöðum, þar sem fjölbreytt matvælaframleiðsla fer fram. Þar sem svo hagar til, fást matvælin með lægra verði heldur en þar, sem greiða verður fyrir þau til viðbótar flutningskostnað, verzl.ágóða o. s. frv. Þessi mismunur á verði matvælanna kemur því greinilegar fram sem um stærri kaupstaði er að ræða, og er því full ástæða til að gera mun á Rvík og öðrum stöðum á landinu í þessu efni. Hér er minna um matarframleiðslu en annarsstaðar, og verða menn því að kaupa allar matvörur með álögðum kostnaði. Það liggur í augum uppi, að það hlýtur alltaf að verða dýrara að lifa í stórum kaupstað heldur en þar, sem menn geta framleitt matvæli handa sjálfum sér að meira eða minna leyti. Það er kunnugt, að landverð er hærra hér en annarsstaðar, sömuleiðis byggingakostnaður, og kemur það fram í hærri húsaleigu. Menn verða yfirleitt að kaupa bæði neyzluvörur og lífsþægindi hærra verði hér en annarsstaðar, og stuðlar þetta allt að því að gera mismuninn á framfærslukostnaðinum hér og annarsstaðar eðlilegan. Viðvíkjandi c-lið till. mætti segja, að nokkur sanngirni mælti með því að samþ. hann, en hann ræðir um persónufrádrátt fyrir ættingja og vandamenn. En í skattalögunum er litið svo á, að það, sem þannig er látið af hendi án þess að bein skylda komi til, verði að teljast gjafir, en gjafir koma ekki til frádráttar. Það er að vísu rétt hjá hv. þm. V.-Húnv., að þessi framlög eru sérstaks eðlis og geta létt gjöldum af hinu opinbera. En ef útfæra ætti frádrátt eftir þessu, mundi ekki nægja, að aðeins vandamenn kæmu þar til greina, heldur yrði það að ná til allra, sem heimilisfaðir hefir á framfæri sínu, hvort sem venzlamenn ættu í hlut eða vandalaust fólk. En það er sérstaklega eitt, sem mælir á móti þessari till., auk þess sem það fer í bága við almennar reglur skattlaganna, og það er það, að þar sem mannmargt er, eins og t. d. hér í Rvík, yrði erfitt og jafnvel ókleift að hafa eftirlit með framtölum manna í þessum atriðum. Það er kunnugt, að menn eru hneigðir til að telja fleiri á framfæri sínu en raunverulega er, og það getur jafnvel orðið tafsamt að skera úr, hvort börn eru rétt fram talin, hvað þá ef við bættust ættingjar og vandamenn, sem ganga þyrfti úr skugga um, hvort raunverulega væru á framfæri heimilisföður. Þetta yrði kannske ekki miklum erfiðleikum bundið í fámenni, en í stórum bæjum, og þá ekki sízt hér í Rvík, yrði það erfitt, ef ekki ókleift með öllu. Ég verð því að leggja til, að þessi till. verði ekki samþ., þó að hægt sé að færa fyrir henni ýms rök. Læt ég þetta svo nægja að sinni.