15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það eru hér brtt. á þskj. 432, sem við flytjum fjórir fjhnm. Þær eru ekki sérlegu áhrifamiklar fyrir fjárhag ríkissjóðs, en þær eru til þess fallnar að sætta menn betur við framkvæmd 1. í þeim atriðum, sem þær fjalla um. Það er kunnugt og almennt viðurkennt, hve mikið misrétti á sér stað í því, að kvæntur heimilisfaðir fær fullan frádrátt fyrir sig og konu sína, eða 1500 kr. eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., en ókvæntur heimilisfaðir með fjölskyldu fær aðeins frádrátt fyrir sjálfan sig. Slíkir menn þurfa þó að kaupa aðstoð til heimilishaldsins. Verður því heimiliskostnaður þeirra jafnvel meiri en hinna, en þrátt fyrir það fá þeir minni frádrátt. Þetta virðist vera augljóst ranglæti, og væntum við því þess, að deildin geti fallizt á, að kaup bústýru komi til frádráttar. Þetta verður svo lítið í heild, að það getur ekki haft nein veruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs af lögunum.

Næsta brtt. er við 34. gr. frv., og er farið fram á, að í þeim tilfellum, sem skattan. er heimilað að breyta framtölum, skuli breyt. tilkynnt framteljanda. Það kann að þykja óþarft að skýra frá slíku, ef framtalið er í ósamræmi við gildandi l. En þó að skattan. kunni að telja sig hafa óyggjandi upplýsingar um, að slík breyt. sé réttmæt, er seint hægt að fullyrða, að slíkar upplýsingar séu í raun og veru óyggjandi, og því teljum við rétt, að skattgreiðanda sé gert aðvart þegar breyt. fer fram. Nú hefir hæstv. fjmrh. borið fram brtt. við brtt. okkar, um að aðskilja þetta tvennt þannig, að skattan. sé heimilt að gera breyt., ef framtalið er í ósamræmi við gildandi l., en hinsvegar sé henni skylt að gera aðila aðvart um aðrar breyt., þó að telja megi, að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi. Ég hefi ekki borið mig saman við meðnm. mína um þessa brtt., en ég tel fært að ganga inn á hana með þeim skilningi, að ekki sé breytt án vitundar skattgreiðanda, nema það sé tvímælalaust og beinlínis tölulega sannað, að framtalið sé ekki í samræmi við gildandi fyrirmæli, en skattgreiðanda hinsvegar gert aðvart, þegar öðruvísi stendur á, þó að skattan. telji sig hafa óyggjandi upplýsingar um viðkomandi atriði.

Þriðji liður brtt. er við 45. gr., um að lækka dráttarvexti úr 1% í ½%. Það er að vísu rétt, sem sagt er í grg. frv., að þetta er nálægt því sem tíðkast í Rvík um innheimtu bæjargjalda. En ég og meðnm. mínir vorum sammála um, að þessir dráttarvextir væru ósanngjarnlega háir. Hinsvegar hefir innheimta þessa skatts svo, mikið aðhald í því, að því aðeins er heimilt að draga skattgjaldið frá í frumtali næsta árs, að það sé greitt fyrir áramót. Það er því áminning til allra, sem geta, að greiða fyrir áramót. Það lætur nærri, að ½% á mánuði eða 6% á ári svari til þeirra vaxta, sem ríkissjóður þyrfti að greiða, og gjaldendur myndu sama sem enga vexti spara með þeim drætti. Virðist því sanngjarnt, að dráttarvextirnir séu ákveðnir ½%.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. Málið hefir verið mikið rætt við 1. og 2. umr. og við sjálfstæðismenn lýstum þá greinilega okkar afstöðu og er eigi þörf á að endurtaka það. Undirtektir utan þingsins sýna, að okkar rök eru rétt, og Alþ. verður að sjálfsögðu að taka afleiðingunum af þessu frv., með því að sjá sveitar- og bæjarsjóðum fyrir öðrum tekjustofnum í stað þess, sem þeir nú eru sviptir. Viðvíkjandi till. Alþýðufl.manna á þskj. 426 um að heimila að leggja 50% ofan á þennan skatt í þeim bæjar- og sveitarfélögum, sem þess óska, er það að segja, að það er aðeins skrípaleikur, sem ekki kæmi að neinu gagni. Slík tvískipting útsvaranna væri bæjar- og sveitarfélögum engin hjálp. Mun ég hiklaust greiða atkv. móti þessari brtt., því að ég tel, að hún mundi frekar gera ógagn. Slík kákbreyting mundi einungis verka sem einhverskonar svefnþorn á Alþ. og tefja fyrir því, að bætt yrði úr þörf bæjar- og sveitarsjóða á þann hátt, sem að gagni kæmi.