15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Emil Jónsson:

Ég á 2 brtt. á þskj. 421, sem að vísu eru ekki á dagskrá, en ég vona, að þær verði teknar með. Aðalbreyt., sem farið er fram á í fyrri brtt., er sú, að við 10. gr., þar sem talað er um frádrátt af tekjum, skuli bætt við iðgjöldum til stéttarfélaga. Áður mátti draga frá iðgjöld til atvinnuleysissjóða, en mér finnst sanngjarnt, að tekin séu einnig með iðgjöld til stéttarfélaga, t. d. verkamanna eða hverra annara, sem í stéttarfél. eru.

Í sumum stéttarfél. hér í Rvík eru þessi gjöld mikil upphæð, um l00 kr. á ári. Þau eru um leið tryggingargjöld fyrir þá, sem í fél. eru, sem félagsmenn hljóta hjálp fyrir, ef þeir þurfa þess með. Þess vegna álít ég rétt, að þessi iðgjöld séu einnig dregin frá.

Það er einnig önnur smábreyt. við þennan lið, sem fer fram á það, að iðgjöldin megi vera allt að 4% af hreinum tekjum aðila, í stað 2%, sem til frádráttar koma.

Það virðist vera sanngjarnt, að menn, sem falla undir þennan lið, fái að draga frá a. m. k. hlutfallslega við það, sem þeir fá að draga frá, sem eru í næsta lið fyrir ofan, þar sem þeir, er vátryggja sig, fá að draga frá 500 kr. á ári.

Ef venjulegur iðnaðar- eða verkamaður, sem hefir 3-4 þús. kr. á ári, ætti ekki að fá að draga frá nema 2%, þá næmi frádrátturinn ekki nema 60-80 kr.

Ef maður, sem hefir 3500 kr. um árið, fær að draga frá 4%, nemur frádrátturinn um 140 kr., og það er það minnsta, sem hægt er að sætta sig við.

Þá kem ég að 2. brtt. við 12. gr. l. Eins og ég tók fram við 2. umr., er rétt að gera greinarmun á því, hvar skattaframtalið fer fram, hvort það er hér í Rvík, í sveitum landsins eða í stærri kauptúnum og kaupstöðum. Það er vitanlega mikill munur á framfærslukostnaði á þessum þremur stöðum.

Ég hefði viljað hækka persónufrádráttinn nokkuð meir, en það gerði ég ekki, í trausti þess, að þessi hækkun yrði þá samþ., að minnsta kosti. Mér er það fullkomlega ljóst, að þessi persónufrádráttur þyrfti að vera hærri, en vegna þess, að ríkissjóður þarf að fá sitt, svo að tekjur hans minnki ekki, er ekki farið hærra með þennan frádrátt. Breyt. er aðeins fólgin í hækkun persónufrádráttar í kaupstöðum og kauptúnum upp í 700 kr. Til þess að kauptún, sem eru jafnstór og minnstu kaupstaðirnir, séu ekki beitt órétti, þannig að þau fengju ekki sama persónufrádrátt og jafnstórir kaupstaðir, þá er þetta ákvæði einnig látið ná til þeirra kauptúna, sem hafa yfir 1000 íbúa.

Hv. þm. Snæf. hefir borið fram brtt. á þskj. 438 við þessa brtt. mína. Þar er farið fram á, að þessi hærri persónufrádráttur sé látinn ná til kauptúna, sem hafa 300 íbúa. Ég fyrir mitt leyti er á móti þessu, sökum þess að ég tel það ekki réttlátt. Það er viðurkennt, að framfærslukostnaður í kauptúnum, sem hafa 3-600 íbúa, er miklu minni, heldur en í kauptúnum, sem hafa 1000 íbúa eða meira. Ef tilgangur þessarar brtt. á að nást, má því ekki ganga svo langt í þessu efni, að miðað sé við framfærslukostnað, sem er eins lágur og í sveitunum.

Í samræmi við það, sem nú er nefnt, kem ég fram með till. um hækkun persónufrádráttar fyrir hjón, að 1200 kr. skuli hækkaður upp í 1400 kr. Þetta er vitanlega sjálfsagt. Það er óþarfi að fara frekar út í það.

Hv. 2. þm. N.-M. virðist ekkert hafa lært og engu gleymt síðan við 2. umr. málsins. Hann er ennþá með brtt. um það, að persónufrádrátturinn sé hafður jafn um land allt. Ég tel óþarfa að fara aftur út í þetta atriði. Ég hefi áður sýnt fram á hinn mismunandi framfærslukostnað.

Ég hefi ennfremur borið fram brtt. á þskj. 426 með hv. 6. landsk. og hv. þm. Ísaf. Hún fer fram á það, að bæjar- og sveitarsjóðum sé skapaður möguleiki til tekjuöflunar með því að leggja nokkur prósent á tekju- og eignarskattinn.

Hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram í ræðu sinni, að þetta væri aðeins skrípaleikur, en engin hjálp handa bæjunum. Mér kemur þessi skoðun hv. þm. á óvart, því að við 2. umr. málsins sagðist hann vera þessu fylgjandi, og þá hélt hann því fram, að þetta miðaði í rétta átt. Hann bar líka sem minni hl. fjhn. fram till., sem hneig í sömu átt, enda þótt hún væri að vísu frábrugðin í sumum atriðum. Þar er farið fram á, að helmingurinn af tekju- og eignarskatti renni til bæjar- og sveitarsjóða. Ef hann telur það skrípaleik, að farið sé fram á, að 1/3 af tekju- og eignarskatti renni í bæjar- og sveitarsjóði, þá er það skrípaleikur hjá honum sjálfum að fara fram á það, að ½ renni í þessa sjóði. Þetta er rökrétt ályktað. Það er nú þannig komið, að Vestmannaeyjar hafa fengið leyfi til þess að innheimta vörugjald, og Akureyri hefir komið með svipaða kröfu. Í dag hefir verið útbýtt frv. um heimild fyrir Siglufjörð að gera hið sama. Þetta sýnir, að kaupstaðirnir þurfa nýjan skattstofn. Þessir kaupstaðir hafa valið þá leið, að jafna þessu með einskonar nefskatti á bæjarbúa. Við flm. þessarar till. vildum heldur jafna gjaldinu eftir sömu reglum og eignarskatturinn er ákveðinn, og álít ég það rétta leið.

Ég gat þess við 2. umr., að till. í svipuðu formi hefði komið fram fyrst á þinginu 1930 frá minni hl. milliþn. í skattamálum.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta, en ég vil taka það fram, að ég tel réttara að fara inn á þessa braut beinna skatta fyrir kaupstaðina heldur en að taka nefskatt, sem er jafnhár, hvort sem um ríka eða fátæka bæi er að ræða. Það má vera, að hv. 3. þm. Reykv. sjái skrípaleik í þessu, en í mínum augum er það allt annað.