15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Thor Thors:

Ég hefi leyft mér að bera fram 2 brtt. við þetta frv. Þær eru á þskj. 438 og 441. Brtt. á þskj. 438 er brtt. við brtt hv. þm. Hafnf. á þskj. 421. Hann gerir það að till. sinni, að persónufrádrátturinn sé hækkaður fyrir menn, sem búa í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa yfir 1000 íbúa.

Ég vil gera þá breyt., að þessi frádráttur komi til góðs þeim mönnum, sem búa í kaupstöðum landsins, hvar sem er, eftir því sem hagstofan hefir skilgreint orðið „kauptún“. Hún miðar kauptúnin við 300 íbúa og eftir því skiptingu manna í sveitamenn og kaupstaðabúa. Fyrst verið er að hækka persónufrádráttinn á annað borð hjá þeim, sem í kauptúnum búa, sem ég tel alveg rétt, þá tel ég sjálfsagt, að sú hækkun sé látin ná til allra þeirra, sem í kauptúnum búa. Framfærslukostnaðurinn í kauptúnum er talsvert hærri en í sveitum. Þess vegna er rétt að hafa persónufrádráttinn hærri þar. Þó að það megi segja, að dýrara sé að lifa í Hafnarfirði en mörgum smærri kauptúnum, þá verða samt engin glögg mörk fundin til þess að miða við, þegar á annað borð er farið inn á þá braut, að leyfa kauptúnum að hækka persónufrádráttinn. Samkv. till. hv. þm. Hafnf. eru það aðeins kauptúnin Akranes og Keflavík, sem nú falla undir þetta ákvæði. Það er þó, t. d. ekki ódýrara að lifa á Sauðárkróki, en þar eru um 800 íbúar. Samkv. skýrslu frá 1930 voru 779 íbúar á Sauðárkróki það ár, á Eskifirði 738 og á Húsavík 871. Fyrst á annað borð er viðurkennt, að dýrara sé að lifa í kauptúnum en í sveitum, þá er að sjálfsögðu réttlátt að leyfa þessa hækkun persónufrádráttar í öllum kauptúnum landsins.

Mér finnst, að allir þeir, sem álíta hér of langt gengið af hálfu ríkisvaldsins á skattabrautinni, geti verið minni brtt. samþ., því að hún heimilar a. m. k. nokkurum hluta landsbúa að bera hönd fyrir höfuð sér gagnvart þessari skattaáþján.

Hvað brtt. minni á þskj. 441 viðvíkur, þá miðar hún að því að hvetja atvinnurekendur og aðra stjórnendur fyrirtækja til þess að leggja inn á þá braut, að veita verkamönnum sínum og starfsmönnum fyrirfram ákveðna launauppbót eða ágóðahlutdeild. Hér er átt við skipulag, sem reynt hefir verið víða erlendis með góðum árangri og kallað er á enskri tungu „profit sharing“. Þetta skipulag hefir verið reynt í Englandi, Frakklandi og Þýzkalandi og nær til fjölda verkamanna í ýmsum iðngreinum. Árið 1927 náði þetta skipulag til 208000 verkamanna í Englandi. Það hefir reynzt vel. Það tengir saman hagsmuni vinnuveitenda og verkamanna og tryggir betri samvinnu milli þeirra en ella. Ég tel hér tvímælalaust vera merkilegan félagsskap á ferðinni, sem er atvinnulífi þjóðanna til bóta. Ég vil þess vegna, að það komi fram í löggjöf þjóðarinnar, að það þyki ástæða til þess að það sé a. m. k. ekki spornað við því, að slíkur félagsskapur sé tekinn upp, einnig með vorri þjóð. Þetta hefir ekki verið reynt hér enn. En ég hygg, að þess verði ekki langt að bíða, að gerðar verði tilraunir í þessa átt. Þegar það hefir verið gert og nokkur reynsla. hefir skapazt í þessu efni, er kominn tími til þess að skipa þessum málum í kerfi, skipa þessum félagsskap og þeim atvinnufyrirtækjum, sem á honum grundvallast með löggjöf, á ákveðinn stað í félagsmálum þjóðarinnar.

Ég ber fram þessa brtt. af því að ég vil, að löggjafinn hvetji menn til að leggja inn á þessa braut og af því að ég veit, að slík þóknun er nú ekki skattfrjáls, heldur er hún talin vera hagnaður fyrirtækisins, sem slíka uppbót veitir. En það tel ég rangt. Þessi brtt. ákveður, að þessi launauppbót þurfi að vera fyrirfram ákveðin. Það er gert til þess, að verkamenn megi vita, hverju þeir eiga von á, ef vel gengur, og ætti það að verða til þess að vekja áhuga þeirra fyrir fyrirtækjum þeim, sem þeir vinna við. Þeir vita, á hverju þeir eiga von, ef atvinnuvegurinn gengur sæmilega. Það er þeim og hvöt til þess að stuðla að því eftir bezta mætti, að fyrirtæki það, sem þeir vinna við, gangi sem bezt.

Það er ætlazt til, að launauppbótin nái til starfsmanna og verkamanna. Það er ekki beinlínis tekið fram, að þetta nái til sjómanna, en svo á að sjálfsögðu að vera. Í þessu tilfelli teljast þeir til verkamanna almennt, og hefir því eigi þótt ástæða til að nefna þá sérstaklega. Það er tekið fram, að einu gildi, hvort uppbót þessi sé greidd í peningum eða hlutabréfum. Þessi aðferð tíðkast erlendis, og er verkamönnum í sjálfsvald sett, hvort þeir kjósa fremur.

Með því skipulagi, sem hér er ymprað á, yrði atvinnufyrirtækjunum tryggð betri vinnubrögð, og jafnframt myndi verða betra samstarf milli verkamanna og vinnuveitenda innan einstakra atvinnufyrirtækja.

Ég vil nú leyfa mér að vænta þess, að háttv. dm. samþ. þessa brtt., því að hún er til bóta, þar sem hún miðar til þess að hvetja atvinnurekendur til þess að leggja inn á nýja braut á sviði félagsmálanna, sem getur orðið heillavænleg atvinnulífi þjóðarinnar í heild, ef þetta skipulag kynni síðar að verða almennt tekið upp.