15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Thor Thors:

Hæstv. fjmrh. vék að brtt. þeirri, sem ég ber fram á þskj. 44l og vildi telja hana óþarfa með öllu, vegna þess að það sem hún fer fram á, fælist tvímælalaust í gildandi lögum. Ég verð að segja, að samkv. orðalagi frv. er þetta a. m. k. mjög vafasamt, því að slík launauppbót, sem hér er talað um, getur varla talizt til almenns rekstrarkostnaðar samkv. almennri málvenju. Og þegar litið er á síðasta lið 10. gr. frv. finnst mér það ennþá vafasamara, hvort hægt sé að heimfæra slíka launauppbót undir l. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Tekjur þær, sem koma til greina við ákvörðun skattsins, eru skattskyldar, án tillits til þess, hvernig þeim er varið, hvort heldur gjaldandi hefir þær sér eða skylduliði sínu til framfæris, nytsemdar eða munaðar, til hjúahalds, nema til atvinnurekstrar sé eða heimilisstjórnar (kaup ráðskonu), til þess að færa út bú sitt eða atvinnuveg, til umbóta á eignum sínum eða til þess að afla sér fjár, til gjafa eða hvers annars sem er“.

Það er a. m. k. vafasamt, hvort þær launauppbætur, sem talað er um í brtt., má ekki frekar telja til gjafa heldur en rekstrarkostnaðar, þar sem þær eru framyfir alla gildandi kauptaxta og umfram alla venju. Og þó þetta sé óljóst í l., og vafasamt, hvort ekki er nauðsynlegt að kveða skýrara á um þetta, þá verður ennþá ljósara, að ástæða er til að bera fram þessa brtt. þegar athugað er, hvernig þeir, sem tekjuskattslögin eiga að framkvæma, hafa tekið í þetta mál undanfarið. Mér er það dálítið kunnugt af eigin reynslu, og ég vil þá benda á það, að árið 1930 komu menn frá skattstofunni hér í Rvík til þess að endurskoða bækur og skattaframtal þess félags, sem ég vinn við. Þeir gerðu sérstaklega og nær eingöngu þá aths. við framtalið, að með tekjum fél. hefðu ekki verið taldir ýmsir liðir, sem gengu í þessa átt, sem sé til launauppbóta og þóknana til einstakra starfsmanna og verkamanna fyrirtækisins. Við kærðum yfir þessu framferði þeirra manna, sem skattstofan sendi, en annar þeirra hygg ég, að hafi verið núv. skattstjóri. Þáv. skattstjóri vildi ekki taka kæru okkar til greina, nema að litlu leyti. Hann svaraði með bréfi dags. 15. maí 1930, þar sem hann lætur þess getið, að fjórir liðir í umkvörtunum okkar verði ekki teknir til greina, en allir þeir liðir vörðuðu launauppbætur fyrirtækisins. Sá skattstjóri, sem þannig skrifaði okkur, heitir Eysteinn Jónsson, og er nú hæstv. fjmrh. vona ég, að þetta sannfæri hæstv. fjmrh. um, að það er ekki að tilefnislausu, að ég álít nauðsynlegt að kveða skýrara á um þetta í löggjöfinni.

En við létum okkur ekki nægja þetta svar, heldur fórum með málið til yfirskattan., og hún féllst loks á, að slíkar launauppbætur og þóknanir skyldu dregnar frá, þegar tekjur eru gefnar upp.

Ég þykist nú hafa gert grein fyrir, að ástæða hafi verið til að bera þessa brtt. fram. Og úr því að hæstv. fjmrh. vill nú taka svona höfðinglega í þetta mál og ekki binda þetta við 10%, þá sé ég enga ástæðu til að vera að verja ríkissjóð og get fallizt á að fella þessa takmörkun niður. Mun ég bera fram skrifl. brtt. um það efni, úr því þessar uppbætur eiga nú þessum vinsældum að fagna hjá hæstv. fjmrh. Ég var þarna aðeins að hugsa um það, að ef ekkert takmark væri, gæti orðið um verulegan tekjumissi fyrir ríkissjóð að ræða, en eins og nú standa sakir er það miklu fremur skylda hæstv. fjmrh. að gæta ríkissjóðs; ég skal láta mér vel lynda að draga hér taum verkamanna, sem þessa gætu notið.

Ég vænti, að hv. dm. sé nú ljóst af orðum mínum, að það er full ástæða til þess, að þetta sé sérstaklega ákveðið í 1., þar sem komið hefir upp deila um það milli atvinnurekenda og skattaframkvæmdavaldsins, hvort þetta skuli vera heimilt.

Um hinar aðrar brtt. mínar, á þskj. 438, um nokkra hækkun á persónufrádrætti í kauptúnum landsins, er það að segja, að mér virtist hæstv. fjmrh. viðurkenna að það væri erfitt að draga markalinn í þessu efni, þegar á annað borð væri farið að leyfa kauptúnum hækkaðan persónufrádrátt. Verður því að taka tillit til allra kauptúna í landinu, enda er það víst, að það er mun dýrara að lifa í kauptúnum yfirleitt heldur en í sveitum.