15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla að byrja með því að svara hv. þm. Snæf. út af brtt. hans á þskj. 441.

Eins og menn muna, þá tók ég fram, að hún væri óþörf, þar sem framkvæmd skattalöggjafarinnar hefir hnigið í þá átt, að launauppbót hefir verið talin frádráttarbær. Hv. þm. Snæf. segir, að það sé mjög vafasamt, að launauppbót sé frádráttarbær samkv. frv. eins og það er nú. En ég álít, að þetta sé ekki vafasamt, því að skýlaus ákvæði eru um það í frv., að öll gjöld vegna launagreiðslu séu frádráttarbær. Þá er ekki hægt að undanskilja neinn hluta launanna, jafnvel þó að sá hluti sé ákveðinn eftir að starfstímabilinu, sem launin eru greidd fyrir, er lokið. Það er sá einn munur á fyrirfram umsömdum launum og launauppbót, að uppbótin er ákveðin í lok starfstímabilsins, en hin launin fyrirfram. Það er því ekki nokkur vafi á því, að uppbótin er rekstrarkostnaður atvinnurekenda, þó að hann sé greiddur til starfsmanna sem t. d. 200-300 kr. launauppbót í lok starfstímabils.

Þá vildi hv. þm. Snæf. halda því fram, að ástæðan fyrir því, að hann kom fram með þessa brtt. hér, væri sú, að ég hafi árið 1930, þegar ég var skattstjóri, kveðið upp úrskurð, sem sýndi, að ég hafi þá álitið, að launauppbótin ætti ekki að vera frádráttarbær. Þetta mun til komið hjá hv. þm. þannig, að ég sendi endurskoðendur skattstofunnar til Kveldúlfs til þess að athuga bókhald fél. í sambandi við skattaframtalið. Þessir endurskoðendur gerðu þá aths. við þá liði, sem þeim þótti vafi leika á um, hvort væru frádráttarbærir, og einn af þessum liðum var launauppbót og gjafir. Nú höfðu endurskoðendur fært þetta til viðbótar tekjum og þannig meinað félaginu að draga þessa liði frá tekjunum. Þannig fór þetta til fyrsta útreiknings á skatti. Þegar hinsvegar Kveldúlfur kvartaði yfir þessu, þá tók ég það strax til greina og lét það koma til frádráttar, sem var hrein launauppbót. En þeir liðir, sem þá stóðu eftir, voru liðir, sem alveg voru á takmörkunum með að vera gjafir. Það voru ýmsar þóknanir til manna, sem voru alveg á takmörkunum með að vera frádráttarbærar. Ef hv. þm. hefði sagt nákvæmlega rétt frá þessu atriði, þá hefði það sýnt og sannað, að á meðan ég var skattstjóri, hefi ég alltaf úrskurðað, að hreina launauppbót sé sjálfsagt að telja til frádráttar. Ég veit, að þeim, sem hafa talið fram hér í Rvík, eru kunnug þessi atriði, og þeir vita vel, að launauppbót er alltaf úrskurðuð til frádráttar eins og aðallaunin sjálf. Hitt hefir af skattayfirvöldum verið deilt um, hvort risna sé frádráttarbær. Og vegna þess að nokkur hluti af þessum liðum var risna (TT: Þar var engin risna). Það var mikill vafi á því, hvort ætti að telja sumt í þessum liðum launauppbót eða risnu, og því var vísað frá að telja það frádráttarbært. Það, sem ég nú hefi tekið fram, er sönnun þess, hver afstaða mín var til launauppbótar, þvert öfugt við það, sem hv. þm. vill vera láta. Þess vegna álít ég ástæðulaust að setja efni þessarar till. inn í l. Hinsvegar er leiðinlegt að fella hana, og væri því eðlilegast, að hún væri tekin aftur.

Mér finnst ekki ástæða til þess að meina atvinnurekanda að telja til frádráttar á tekjum það af verkalaunum, sem hann greiðir og gengur til kaupa á hlut í atvinnufyrirtæki atvinnurekandans, sem ekki nemur meiru en 10% af árlegu kaupgjaldi hvers einstaks verkamanns.

Þá vil ég svara nokkrum orðum ræðu hv. þm. G.-K. Þessi hv. þm. var óvanalega prúður við 2. umr. þessa máls, svo að alla undraði. Það var því eðlilegt, að hann gusaði nokkuð úr sér við þessa umr., eftir því sem hans er vani.

Hann las nú upp úr Tímanum úr greinum, sem ég hafði skrifað í ritdeilu út af skattafrv. því, sem hér er til umr. Hann kvartaði einnig yfir því, að ég hefði borið honum það á brýn í þeim deilum, að hann hefði farið með blekkingar. Svo las hann upp ávítur til blaðsins Framsóknar út af því, hvernig það hefði tekið á málinu. Það er ekki í fyrsta skipti, sem þessi hv. þm. tekur upp skjöldinn fyrir bændastétt landsins og það, sem bændum við kemur. T. d. var þessi hv. þm. fyrir nokkrum dögum, að ég hygg í sambandi við áburðareinkasölu, að hjálpa hv. þm. V.-Húnv. Það virðist vera eitthvert náið samband bæði á milli þm. bændaflokksins og blaðs bændaflokksins annarsvegar og þessa hv. þm. hinsvegar, því að ef hnýtt er í þm. eða blað þess flokks, þá rýkur þessi hv. þm. strax upp til andsvara. Þetta er ekkert undarlegt frá sjónarmiði þeirra, sem þekkt hafa til stjórnmálanna hér á síðasta ári.

Hv. þm. G.-K. sagði, að ég hefði borið það fram sem rök fyrir því, að hann hefði farið með blekkingar, að hann hefði miðað samanburð á skattagreiðslum nú og áður við samanburð á þessu frv. við skattalögin frá 1921. Það er rétt, að ég miðaði við þetta.

Annað atriði hjá hv. þm. var, að hann var að streitast við að komast hjá því að miða skattaupphæð við hreinar tekjur, og var hann því að bögglast við að reikna út, hvað skattálagning af þessum eða hinum tekjum ætti að vera, og að þessu var hann aðeins til þess að hafa lægri tekjuupphæð til þess að tala og rita um og til þess að menn skildu blekkjast til að halda, að hluti af því, sem taldar væru hreinar tekjur hans, væri laun manna, sem hann hefði að réttu átt að fá að telja til frádráttar. Þessi hv. þm. sá það, að ef miðað væri við hreinar tekjur í þessu efni, þá sýndi sig það, sem hv. þm. vildi ekki, að kæmi í ljós, að skattbreyt. samkv. þessu frv. verða þannig, að skattur er lækkaður á öllum lágtekjumönnum, en ekki hækkaður, eins og hann þó hélt fram.

Ég hélt, að þetta atriði hefði verið útrætt okkar á milli hér við fyrri umr. þessa máls og í blaðadeilum. En það lítur nú út fyrir, að hv. þm. sé ekki ánægður með sinn hlut, fyrst hann fer nú að tönnlast á þessu hér. Tek ég þetta sem yfirlýsingu frá honum um, að hans hlutur hafi verið þannig, að það hafi þurft að rétta hann við. Hann reynir að rétta hlut sinn með því að gera fyrirspurn um, hvort ég hafi í fjárlagafrv. reiknað með þessari 40% skattaviðbót. Það veit hv. þm. vel, að ég gerði ekki, af þeirri ástæðu, að þegar fjárlagafrv. var lagt fram, þá var ekki búið að samþ. 40% álagið. Og rökstuðningur minn um það, að hv. þm. hafi ekki farið með rétt mál, heldur blekkingar, var sá, að hans flokkur var með því, ásamt þeim flokki, sem hann stóð í sambandi við, að samþ. þennan skattstiga á þingi 1933. Ennfremur virðist svo sem þessi hv. þm. og hans flokkur hafi gengið frá fjárlagafrv. fyrir árið 1934 með tilliti til þess, að 40% álagið héldist áfram. M. ö. o.: þetta 40% álag átti að gilda fyrir árið 1934, þó að það væri ekki formlega samþ. þegar fjárlagafrv. var lagt fram. Þetta var hið raunverulega ástand um skattaálagningu 1933 og 1934 og því hin eina rétta leið til þess að hjálpa mönnum til að átta sig á breyt., að miða breyt. við þetta viðurkennda ástand. Enda hefir það komið í ljós á þingi, að þegar rætt hefir verið um þetta 40% álag, þá hefir Sjálfstfl. ekki treyst sér, þrátt fyrir bezta vilja, til þess að ganga á móti álaginu, vegna þess að sá flokkur við samþ. fjárlfrv. fyrir árið 1934 gekk út frá því, að þetta álag væri látið haldast fyrir það ár.

Þegar hv. þm. skrifaði síðustu grein sína um þetta mál, þá er búið að samþ. þetta álag, sem hér er um að ræða; eða þó a. m. k. þegar hann var síðast að ræða um málið í þessari hv. d. Þetta var því fast og vitað ástand.

Annars er það ekki stórfellt atriði, hvort miða beri við þetta eða hitt í þessu sambandi, því að það átti fyllilega rétt á sér að miða við hvorttveggja, sem til greina kom.

Ég vil nú ekki eyða tíma hv. d. með því að skattyrðast við hv. þm. G.-K. um þetta atriði. Ég ætla, að það liggi svo ljóst fyrir, að hver heilvita maður, sem vill kynna sér það, geti um það dæmt.