15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Vegna þeirra aths., sem komið hafa fram viðvíkjandi brtt. minni, vil ég benda á það, að hv. þm. G.-K. talaði um, að sjálfsagt sé að samþ. brtt. á þskj. 432, 2 lið, þar sem lagt er til, að skylt sé að gera framteljanda aðvart um breyt., sem skattan. gerir á framtali hans. En sá hv. þm. hélt því fram, að ekki beri að samþ. brtt. hæstv. fjmrh., sem gerir ráð fyrir, að skattan. geri framteljanda ekki aðvart um þessar breyt., þegar það liggur alveg augljóst fyrir, að um skekkju í framtali sé að ræða.

Ég skal taka dæmi, og ég bið svo hv. þm. G.K., sem ég geri ráð fyrir, að þekki dæmið, að svara því, hvort þörf sé að tilkynna hlutaðeiganda breyt. í slíku tilfelli. Nú gleymir einhver að telja fasteign, sem hann á, fram til eignar, t. d. eina jörð af 18. Er þá ekki nóg að bæta þessari eign við á framtalsskýrslu hans, ef nægar upplýsingar eru fyrir hendi um rétt hans til eignarinnar?

Hv. þm. G.-K. sagði, að hann mundi verða með brtt. frá hv. þm. Snæf. á þskj. 438 og brtt. hv. þm. Hafnf. á þskj. 421, og svo bætti hann við, að þetta mundi hann gera eingöngu vegna þess, að skattar væru nú of háir, og þetta væri því til þess að lækka skattabyrðina. Ég vil biðja þennan hv. þm. að útskýra fyrir okkur það réttlæti, sem í því er fólgið, að taka fyrir helming þjóðarinnar og létta sköttum af þeim skattþegnum, án þess að létta skattabyrðar hins helmings þjóðarinnar. En þetta er það, sem hv. þm. vill gera. Þetta er hans réttlæti og jöfnuður.

Ef skattstiginn er nú of hár, þá á hann að lækka, og skyldi ég þá glaður vera með þeim breyt., þegar búið væri að sannfæra mig um það, að hann væri of hár. En það er ekkert vit í því að létta sköttum af nokkrum hluta þjóðarinnar með því að hækka persónufrádrátt hjá þeim hlutanum, en láta þennan frádrátt standa óbreyttan hjá hinum hluta þjóðarinnar.

Hæstv. fjmrh. talaði um það, að þar sem menn kostuðu misjafnlega miklu til sinna lífsþæginda, þá væri sjálfsagt að hafa persónufrádráttinn misjafnan eftir því. En það verður að bera saman samkynja lífsþarfir, annars verður samanburðurinn ekki réttur. Þetta er ekki gert. Vill ekki hæstv. ráðh. skýra mér frá því, hvar annarsstaðar á landinu hann getur fundið sambærilegar þarfir við þær, sem menn hafa hér í Rvík. Hvar á landinu eru þær? Hvar? Hvar annarsstaðar á landinu eru mörg þau lífsþægindi, sem hið opinbera skapar okkur hér í Rvík? Hér stígum við út úr dyrunum á asfalteraða götuna, hér stígum við upp í strætisvagninn þegar við viljum, hér fáum við póstinn borinn heim til okkar oft á dag o. s. frv. þess vegna er ekki hægt að finna neitt réttlæti í því að hafa frádráttinn misjafnan á þessum grundvelli. Það á að bera saman samkynja þarfir.

Hæstv. fjmrh. talaði um, að hinar algengu lífsnauðsynjar manna væru dýrari hér í Rvík en annarsstaðar á landinu. Það er nú svona upp og ofan. Hvort kosta t. d. kol meira hér á hafnarbakkanum eða þegar búið er að flytja þau 180 km. upp í sveit? Hvort kostar hveiti eða haframjöl meira hér á hafnarbakkanum eða þegar búið er að flytja það héðan út um landið? Hvort kostar meira, að baka brauð við kolin hér eða þegar búið er að kosta til flutnings á þeim út um landið? Það kann nú e. t. v. einhver að segja, að í sveitum sé hægt að nota til bökunar mó. En einn hv. fyrrv. fulltrúi Sjálfstfl., formaður hans, Jón Þorláksson, hefir sýnt, að mór getur orðið nokkuð dýr. Og fyrst honum auðnaðist ekki að geta látið vinna hann ódýrara en kol, þá býst ég ekki við, að hv. sjálfstæðisþm. treysti bændum almennt til þess.

Hinsvegar er það satt, að einstakar lífsnauðsynjar eru dýrari hér í Rvík heldur en annarsstaðar á landinu. En það, að sumt er dýrara hér en annarsstaðar á landinu og sumt aftur ódýrara, það étur hvað annað upp, þegar um nauðþurftir er að ræða.

En hér í Rvík eru vitanlega til þarfir, sem ekki eru til annarsstaðar á landinu, sem menn hafa búið til og sem villa mönnum sýn, og þeirra vegna vilja menn hafa persónufrádrátt meiri hér en annarsstaðar á landinu. Þegar það er athugað, hvaða tekjur fólk hefir úti um land. hver treystir sér þá til að fullnægja þar þeim kröfum, sem hér í Rvík eru gerðar til lífsins? Og hvað kostar að fullnægja þeim kröfum hér, sem fólk úti um land yfirleitt gerir nú til lífsins?

Miðað við það, að lífsþarfirnar eru nú að verðlagi komnar niður í 234, en voru 446 árið 1925, þá er hér um verulega hækkun á frádrætti að ræða. Og ég á bágt með að trúa því, að þeir 15 þm., sem voru með því á þinginu 1925, þegar skattalöggjöfinni var síðast breytt, að hafa frádráttinn jafnan alstaðar á landinu, hafi nú fundið nokkra gilda ástæðu fyrir því, að rétt sé að lögfesta nú að hafa hann ójafnan, - ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að hv. þm. sýni það ranglæti og fari að láta sín ákvæðin gilda í hvoru, kaupstöðum og sveitum, og þar með ívilna þeim mönnum, sem í kaupstað búa, í skatti.