05.12.1934
Efri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Fjhn. hefir athugað þetta frv. eftir föngum, og er eins og sjá má á nál. meiri hl. n. klofin um málið. Minni hl., hv. 1. þm. Reykv., er andvígur frv., en meiri hl. vill samþ. það með nokkrum smábreyt.

Ég ætla ekki við þessa umr. að tala um stefnu þá í skattamálum, sem í frv. felst, en vík aðeins að þeim atriðum frv., sem brtt. eru gerðar við.

Ég hefi svo oft áður fengið tækifæri til að ræða um stefnur í skattamálum, að ég get látið það vera í þetta sinn, enda telst það ekki við eiga samkv. þingsköpum, að ræða málin almennt við 2. umr. Aðalbreyt., sem n. vill gera á frv., er fólgin í 1. brtt. hennar á þskj. 640, við 10. gr. b., um útistandandi skuldir skattþegna, sem vitanlegt þykir, að séu tapaðar. N. fannst það nokkuð fortakslaust orðað í frv.gr., að heimtaðar skyldu sannanir fyrir því, að skuld sé töpuð. Ef skattan. framfylgdi þessu bókstaflega, þá gæti orðið erfitt fyrir framteljanda að sanna það fyrir n., nema dómur hafi þegar verið um garð genginn yfir þeim manni, sem skuldin stóð hjá eða gjaldþrotaskipti farið fram. N. leggur því til, að orðalagið á þessum lið gr. verði nokkru mildara. Og ætla ég raunar, að það hafi nú verið tilgangurinn hjá þeim, sem samdi frv., að framkvæmdin verði í samræmi við það, sem n. leggur til. Skattan. eru yfirleitt svo fróðar um þessa hluti og kunnugar efnahag skattþegna í sínu umdæmi, að þær vita um skuldatöp þeirra, þó að ekki sé hægt að færa fram fullnægjandi sannanir fyrir því í hverju einstöku tilfelli, ef þess væri stranglega krafizt og hart eftir því gengið; slíkar sannanir er tæplega hægt að leggja fram nema samkv. dómi. N. telur það nægilega fast að orði kveðið í l. um tapaða skuld, ef vitanlegt þykir, að dómi skattan. að hún sé töpuð.

Þá er ennfremur lítilsháttar brtt. við 11. gr., um skattgreiðslu hjóna, sem eru samvistum, en annað þeirra hefir séreign eða sératvinnu. Í 10. gr. er gert ráð fyrir, að bóndi hafi endurkröfurétt á skatti hjá konu sinni, sem lagður hefir verið á séreign hennar, en 2. brtt. okkar lýtur að því, að þessi réttur verði gagnkvæmur, þannig að konan geti einnig krafizt endurgreiðslu á skatti af séreign bónda síns, ef aðalskattur hjónanna hefir verið lagður á hana. Þetta leiðir til fyllra samræmis á ákvæðum gr. Brtt. n. við 12. gr. er borin fram samkv. bendingu frá yfirskattan. til fjmrh. Þótti það of óákveðið orðalag, að leyfa skattþegni að draga frá fyrir vandamönnum sínum, systkinum og ættingjum, enda gæti þá orðið vandasamt og erfitt að skilgreina, hverjir væru á framfæri hans. En ef í staðinn fyrir þessa upptalningu er notað orðið skylduómagar, eins og n. leggur til, þá er það skilgreint í l., hvað meint er með því. Þessi breyt. er gerð samkv. bendingu frá yfirskattan. í Rvík.

Þá kem ég að brtt. n. við 19. gr. frv., þar sem lagt er til, að breytt verði orðalagi á þeim lið, í samræmi við 1. brtt. n., og nokkuð linað á orðunum, um framtal á útistandandi skuldum. N. ætlast ekki til, að þær verði taldar með nafnverði, ef vitanlegt sé, að þær séu minna virði eða tapaðar með öllu. En samkv. frv. er ætlazt til, að færðar séu sönnur á þetta.

Brtt. við 21. gr. er aðeins leiðrétting. Í 2. málsgr. stendur, að „upphæð sú, sem skattur er talinn af, skal ávallt deilanleg með 100“. N. leggur til, að í staðinn fyrir „upphæð“ komi krónutala sú o. s. frv.

6. brtt. n. við 33. gr. er ekkert annað en leiðrétting, að í stað „gjaldþegn“ komi: gjaldþegns.

Þá er það 7. brtt., við 35. gr. Hún er borin fram af ríkisskattan. og flutt hér samkv. ósk hæstv. fjmrh., þess efnis, að aftan við gr. bætist: „Yfirskattanefndir geta og, eftir tillögum undirskattanefnda, leyft persónufrádrátt allt að 500 krónur fyrir ættingja eða vandamenn, sem vitað er um, að skattþegn hefir á framfæri sínu“.

3. brtt. n. er ofurlítil leiðrétting á upphafi 37. gr. En þar stendur: „Ef einhver er óánægður með ákvörðun skattanefndar um tekjur hans og eign, skal hann bera upp kæru“, o. s. frv. Samkv. þessu orðalagi ætti hver skattþegn, sem er óánægður, að vera lagalega skyldur til að kæra. En vitanlega eru margir óánægðir með ákvörðun skattan., án þess að þeir kæri út af því. N. leggur því til, að upphaf gr. orðist svo: „Nú telur einhver skatt sinn eigi rétt ákveðinn af skattanefnd, og getur hann þá sent skriflega kæru sína yfir því til formanns skattanefndar eða skattstjóra“, o. s. frv.

Þetta er aðeins lagfæring á orðalagi en ekki efnisbreyt. frá því, sem meint er í frvgr. Síðasta brtt. n. er við 49. gr., þess efnis, að í staðinn fyrir „5 ár“ komi 3 ár. En gr. fjallar um það, að ef skattþegn vantar á skrá og hefir sloppið við skattgreiðslu, þá má gera honum skatt eftir á, þó aldrei lengra en 5 ár aftur í tímann, en n. telur nægilegt að reikna með þremur árum. Það er mjög óvenjulegt hér á landi, að skattþegnum sé skotið undir þessa lagaheimild. það gæti verið hugsanlegt um einstaka lausamenn í sveitum, að þeir slyppu máske undan skatti í nokkur ár. En það er ekki ómaksins vert fyrir ríkisstj. að vera að elta þá með slíkum skattaálögum 5 ár aftur í tímann. N. leggur til, að það verði aðeins 3 ár.

Þá hefi ég lokið við að minnast á það, sem n. gerir brtt. um. En ég vildi að eins drepa á eitt framkvæmdaratriði tekju- og eignarskattsl. um skyldu lánsstofnana og sjóða til þess að gefa skattanefndum upp inneignir manna. Reglan hefir verið sú, að þegar spurzt hefir verið fyrir um einstaka menn, þá hafa lánsstofnanir svarað því, og gefið upp innstæður þeirra. En ég tel það heldur óheppilegt, að þetta sé gefið upp fyrirfram, áður en skattaframtöl einstaklinga eru gerð. Ef gefnar væru út fyrirfram til skattan. slíkar skrár um innstæður einstaklinga í bönkum, þá mundi það trufla skattaframtöl manna, þannig að þeir yrðu tregari til að telja fram. Enda yrði þessi skýrslugerð ódæmamikið verk fyrir sumar lánsstofnanir, t. d. Landsbankann. En ég hefi skilið það svo, að framkvæmdinni muni verða hagað í þessu efni, líkt og áður hefir tíðkazt, að innlánsstofnanir gefi upp, hvaða innieignir viðkomandi á þar, þegar spurt er um einstaka menn eða stofnanir. En hitt teldi ég of langt gengið, enda mun ekki vera til þess ætlazt, að ég hygg, þó að þetta atriði sé orðað dálítið öðruvísi en áður hefir verið í þessum l.

Að öðru leyti eru mörg atriði fyllra orðuð og ljósari í þessu frv. heldur en áður var í l., og geri ég ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. eigi frumkvæði að því, þar sem hann er svo kunnugur framkvæmd þessara l. frá sínu fyrra starfi. Ég get ekki betur séð en að þær breyt. séu allar til bóta. Að vísu er um talsvert mikla hækkun að ræða á tekjuskattinum samkv. þessu frv.

En meiri hl. fjhn. hlýtur að játa það, að tekjuþörf ríkisstj. er mikil, og ekki um annað að gera en reyna að fullnægja henni, og hann fær ekki annað séð en að þetta sé einmitt heppileg leið til þess.

Hv. minni hl. n. hefir skilað áliti sínu á þskj. 666 og flytur þar eina brtt. við frv., samhlj. þeirri, er kom fram í Nd. frá sjálfstæðismönnum. Mér er óhætt að lýsa yfir því nú þegar, f. h. meiri hl. n., að hann getur ekki fallizt á þessa brtt., þó ég hinsvegar verði að játa, að það hefði verið gott innlegg fyrir bæjarfél., að fá til sinna þarfa þriðjunginn af tekju- og eignarskattinum. En ég er því mótfallinn, af því að ríkisstj. má ekki við að missa það.

Ég hefi í sambandi við annað mál hér í d. borið fram till. um að veita bæjar- og sveitarfél. heimild til að auka tekjur sínar um 25% af einkasöluágóða bifreiða og mótorvéla, og kemur það að notum, ef það frv., sem afgr. hefir verið héðan úr d., verður að l.

Ég get sparað mér frekari umr. um þetta mál og þarf ekki að taka til máls aftur, þó að hv. l. þm. Reykv. geri grein fyrir afstöðu sinni; ég býst við, að hún verði svipuð og hjá flokksbræðrum hans í Nd.