05.12.1934
Efri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal reyna að vera ekki langorður. Ég vil segja nokkur orð um brtt. á þskj. 640 og taka það fram, að ég er mótfallinn till. frá minni hl. n., um að sveitar- og bæjarfél. fái hluta af tekju- og eignarskattinum. Það er búið að tala fyrir till. á þskj. 640 og fer ég ekki að rekja það aftur, en vil taka það fram, að ég felst á röksemdir hv. frsm. meiri hl. n. - Nokkrum orðum verð ég að víkja að andmælum hv. 1. þm. Reykv. í þessu máli, án þess þó að ræða við hann um þau grundvallaratriði, sem þessi 1. byggjast á. Það yrði of langt mál. Hv. þm. taldi rangt að lögleiða þennan skatt, af því að hann kæmi í veg fyrir auðsöfnun. Vera má, að það geti komið til greina í vissum tilfellum. En hvort þessi ástæða á að standa í vegi fyrir hækkun skattsins fer mjög eftir því ástandi, sem er í hverju þjóðfél., eins og hv. þm. kom inn á, þótt hann tæki það frá nokkuð öðru sjónarmiði en ég ætla að gera. Þegar tekið er tillit til þess, hvort þetta sjónarmið skuli valið, að tekju- og eignarskatturinn sé ekki hækkaður, þá ber að líta á það annarsvegar, hver þörf er fyrir aðgerðir af hálfu hins opinbera til þess að jafna kjör þegnanna í þjóðfél. Ef það er svo og svo mikill hluti þegnanna, sem býr við það lök kjör, að aðstoð hins opinbera þurfi að koma til, þá er ekki hægt að taka þessa mótbáru hv. 1. þm. Reykv. til greina, þ. e. a. s. að tekju- og eignarskattahækkun geti valdið því, að auðsöfnun minnki. Ef hinsvegar ekki er þörf fyrir það, að hið opinbera jafni kjörin, þá er réttara að fara varlegar í hækkun tekjuskattsins með það fyrir augum að örva menn til söfnunar sparifjár. Þar sem nú er mikil þörf fyrir aðstoð hins opinbera og ríkið þarf mikið fé, er fullkomin ástæða til þess að hækka tekjuskattinn, og eðlilegt, að sú tekjuöflunaraðferð sé viðhöfð, því að hún kemur réttlátlega niður, þótt hún undir vissum kringumstæðum geti dregið nokkuð úr myndun nýs starfsfjár eða „kapitals“ á vondu máli. Auk þess má taka tillit til þess, að háu tekjurnar eru ekki hjá þeim mönnum, sem framleiðsluvinnu stunda, því að hún hefir gengið svo illa undanfarin ár, að lítil líkindi eru til, að slíkur atvinnurekstur gjaldi þessarar hækkunar, heldur þeir, sem hafa fastar tekjur og reka verzlun og hafa hærri tekjur en almenningur í landinu. Ég fer ekki nánar út í það hér, en vildi einungis skjóta því fram. - Þá segir hv. þm., og þá hlið málsins snertir brtt. hans, að með þessum skatti séu þrengdir svo kostir sveitar- og bæjarfél., að rétt sé, að þau njóti nokkurs af skattinum. Um þetta atriði hefir verið ýtarlega rætt í hv. Nd., og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka þær umr. hér. Ég geri ráð fyrir, að flestir dm. hafi fylgzt með því, sem þar fór fram, og sé því þetta sjónarmið nokkuð kunnugt. Það er ekkert sérstakt með þennan tekju- og eignarskatt, að hann þrengi kosti sveitar- og bæjarfél. Þetta gera allir skattar og tollar, sem á eru lagðir, hvort sem þeir eru miðaðir við vörukaup eða tekjur manna og eignir. Fjármunir eru í öllum tilfellum dregnir úr sveitar- og bæjarsjóði í ríkissjóðinn, en það, sem hv. þm. mun eiga við, er það, að þetta skuli vera tekið með sömu aðferð og útsvör venjulega, þ. e. a. s. miðað einungis við tekjur og eignir. En ég vil benda á það, að á sama hátt og tekju- og eignarskatturinn er réttlátur gagnvart einstaklingunum, er hann einnig réttlátur gagnvart einstökum sveitar- og bæjarfél., því að eftir honum greiða þeir mest í ríkissjóð, sem mestar hafa tekjurnar og eignirnar til að leggja á. Ef hinsvegar tollum er beitt, þá er engin trygging fyrir því, að mest komi frá þeim, sem mesta og bezta hafa getuna til að borga. Það gæti farið svo, að ef um nauðsynjavörutolla væri að ræða, yrðu hinir illa stöddu að greiða fullt eins mikið eða meira en hinir vel stöddu. Kosturinn við þessa skattaðferð er sá, að hún kemur eins fram við einstök sveitar- og bæjarfélög og gagnvart einstaklingunum. Þar sem fjármunir eru mestir fyrir fæst mestur skattur. Þegar litið er á málið í heild, verður því ekki annað séð en þetta komi mjög réttlátlega niður. Það má ekki einungis tala hér um einstök bæjarfél., það verður að tala bæði um sveitar- og bæjarfél. í heild. - Hv. frsm. minni hl. benti á það, að samkv. till. sinni um að 1/3 hluti þessa skatts renni til sveitar- og bæjarfél., myndi ríkissjóður fá litlu minni skatt en hann hefir fengið undanfarin ár, þótt innheimt hafi verið með 40% álagi. Ríkissjóður myndi fá um 200 þús. kr. minni skatt með þessu móti en verið hefir undanfarið. En um þá reglu, að taka af tekju- og eignarskattinum til handa sveitar- og bæjarfél., þá getur það vel komið til mála að einhverju leyti. En eins og skatturinn er samkv. þessu frv., er hann ekki það hár, að þetta sé eðlilegt. En ég myndi geta fylgt því, að 50% yrði bætt ofan á þennan skatt, og sú hækkun látin ganga til sveitar- og bæjarfél. En af þessum skatti, sem frv. gerir ráð fyrir, get ég ekki fallizt á, að nokkuð sé látið renna til sveitar- og bæjarfél. Hv. þm. talaði um það, að æskilegt væri, að þeim fyrirtækjum, sem tækju upp starfsmannahlutdeild, yrði sköpuð sérstaða hvað snertir tekju- og eignarskatt. Mér var ekki alveg ljóst, hvað fyrir hv. þm. vakti. Þótt eitthvert fyrirtæki ráði menn t. d. upp á hlutdeild í nettóarði, þá gerir það ekki þess aðstöðu verri gagnvart skattalöggjöfinni en þótt greitt væri kaup á venjulegan hátt, því að þetta kemur til frádráttar á sama hátt og starfsmannakaup, svo að til skatts kæmi einungis það, sem eftir væri, þegar ágóðahluti hefði verið greiddur. En ef það hefir vakað fyrir hv. þm., að þessi fyrirtæki ættu að vera rétthærri vegna þess að þau létu menn hafa þessi hlunnindi, þá getur það auðvitað verið til athugunar. En ég vil benda hv. þm. á það, að þau fél., sem gera mest að þessari starfsmannahlutdeild, eru einmitt samvinnufél., sem skipta ágóðanum eftir gerð viðskipti, eða ef um útgerð er að ræða, skipta þá ágóðanum miðað við framlagða vinnu. Þar er þessi aðferð útfærð til hlítar. En mér er það ekki kunnugt, að hv. 1. þm. Reykv. eða hans flokksbræður hafi verið því sérlega fylgjandi hingað til, að láta samvinnufélögin hafa sérstök fríðindi. En það er náttúrlega gott, að hann viðurkennir, að þeim beri nokkur sérstaða, því að ef fyrirtæki á að fá hlunnindi fyrir að hafa nokkra starfsmannahlutdeild, þá ætti ekki að veita þeim minni fríðindi, sem beita þessari aðferð til fulls. Þetta er sjálfsagt að athuga, hvaða sérstaða félögunum ber í skattalöggjöfinni. Ég mun ekkert láta uppi um mína aðstöðu að svo stöddu, en ég vil einungis benda á það, að þau einu hlunnindi, sem samvinnufél. hafa eftir tekju- og eignarskattslöggjöfinni, ef frv. þetta verður samþ. óbreytt, að þau greiða fastákveðinn hundraðshluta af hreinum tekjum sínum, án tillits til þess, hvort hann er mikill eða lítill. Ég er ekki viss um, að þegar allt kemur til alls séu þetta hlunnindi fyrir samvinnufél., því að smákaupfél., sem hafa lítinn arð, greiða miklu hærri skatt en þau myndu gera, ef hin almennu ákvæði giltu einnig um þau. Eftir gildandi l. þurfa kaupfél. að hafa l0-11 þús. kr. hreinar tekjur til þess að þau greiði ekki hærri skatt en kaupmenn myndu gera. Aftur á móti kemur fram hagnaður þegar hærra kemur, en ég efast mikið um, að skatturinn yrði hærri, þótt fél. féllu undir almennar reglur. En hinsvegar mun þetta hafa verið hugsað sem hlunnindi, og er það náttúrlega fyrir stærri fél., sem hafa töluverðan ágóða, en fyrir hin smærri er það ekki. En ég er sem sagt reiðubúinn að tala um það við hv. þm., hvað skuli gert fyrir þau fél., sem hafa starfsmannahlutdeild. Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, en gat ekki stillt mig um að minna hv. þm. á aðstöðu hans og flokksmanna hans til þessara mála áður. En það er gleðilegt, að þetta skuli nú vera komið í annað horf.