05.12.1934
Efri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að á því gæti verið munur, hvernig hár tekju- og eignarskattur verkaði. En hann vildi ekki ganga inn á mitt sjónarmið, að tekju- og eignarskattur ætti betur við í þjóðfél., þar sem mikil auðsöfnun er þegar komin, þar sem þjóðirnar eru mikið hættar að berjast í framkvæmdum, landið er ræktað (Fjmrh.: Þetta kemur líka til greina.) og þjóðirnar farnar að lifa af eignum sínum, eins og Englendingar á bankastarfsemi og verzlun og hreint og beint á eignum sínum, þar sem þeir eiga þúsundir milljóna útistandandi hjá öðrum þjóðum. Þetta er stóri munurinn. Hjá slíkum þjóðum á tekju- og eignarskatturinn að vera hæstur, en lægstur hjá þeim, sem litla hafa auðsöfnun, en mikla möguleika, lítt unnar auðsuppsprettur og þurfa að hafa mikið í veltunni. Þar sem kjarkur, framtak og áhugi verður að vera mikill og getur borgað sig, þar á auðvitað að leggja sem minnst bönd á, sérstaklega ekki með háum tekju- og eignarskatti. Hitt viðurkenni ég svo, hans sjónarmið, að hæstan beri að hafa skattinn þar sem munur þegnanna í þjóðfél. er mjög mikill hvað auðlegð snertir, og nota þarf mikið fjármagn til þess að dreifa meðal þegnanna. En ég held nú, að það henti ekki fyrir okkur þetta sjónarmið. Þrátt fyrir misskipting „auðs“ hér, þá hygg ég nú, að í fæstum löndum sé jafnlítill munur á tekjum manna og eignum og hér, sérstaklega lítill munur á tekjum manna. Ég skal viðurkenna, að það er til einstaka maður, sem hefir nokkuð háar tekjur. Og þar sem atvinnuleysið gerir vart við sig eru hjá sumum litlar tekjur, en allur þorrinn hefir mjög svipaðar tekjur, t. d. verkamenn og embættismenn. Verkamaður, sem hefir vinnu allt árið, hefir mjög svipaðar tekjur og skólakennari með góð laun. Ég hefi talað við verkamann, sem aldrei hefir misst dag úr, og hann hefir byrjunarlaun prófessora með dýrtíðaruppbót. Ég veit ekki, hvar getur verið minni ástæða til þess að gera sérstakar ráðstafanir til þess að jafna auðnum. Prófessorarnir eru búnir að búa sig með ærnum kostnaði undir starfið í 12-13 ár, og e. t. v. eru það aðeins 2-3 menn, sem valdir eru úr fjölmennri embættisstétt til þess að gegna þessum störfum. Svo er launamunurinn ekki meiri en það, að þeir hafa laun eins og ófaglærðir verkamenn, sem alltaf hafa atvinnu. Hér er því ekki um neina augljósa misskipting auðsins að ræða. Nú viðurkennir hæstv. ráðh. það, og það er rétt, að menn, sem hafa fastar tekjur frá 4-10 þús. kr., það er enginn embættismaður, sem kemst þar nálægt, að l. bitni sérstaklega á þeim, og þá verkamönnunum, sem allaf hafa fasta atvinnu, og góðum handverksmönnum, sem geta komizt þetta hátt í tekjum. (Fjmrh.: Þetta snertir engan verkamann). Það er ekki rétt. (Fjmrh.: Gæti komið til mála með einhleypa verkamenn). Hækkunin er mikil á þeim tekjum, sem verkamenn geta haft, ef þeir missa aldrei dag úr. Þetta, sem ráðh. sagði, að framleiðslan væri í því ástandi, að hækkunin kæmi lítið sem ekkert við hana sýnir bezt, hvílík fjarstæða það er, að hægt sé að taka stöðugt meiri og meiri tekjur í ríkissjóð með tekju- og eignarskatti.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri sama, hvernig tekjurnar væru teknar. En það er ekki tilfellið. Mér dettur í hug gamla spakmælið, er hljóðar þannig, að menn skuli plokka gæsina svo, að hún skræki sem minnst. Það má fá menn til þess að borga stórar upphæðir með ljúfu geði, smám saman og með ýmsu móti, sem menn mundu hljóða undan, ef þeir ættu að borga það út í einu. Sem dæmi upp á það, hvað slík atriði hafa mikið að segja, skal ég benda á það, að með því að flýta klukkunni má reka hvaða slæping sem er fyrr í rúmið og úr því aftur. Hvers vegna má ekki eins gefa opinberar fyrirskipanir um fótaferð og háttatíma og að flýta klukkunni? Svona er það líka með skattaálögurnar. það verður að fara að mönnum eins og þeir eru. Og það er staðreynd, að mönnum finnst sem þessar álögur komi léttara við sig, ef þeir fá að greiða þær í mörgu lagi. Þar að auki hefir tekju- og eignarskattur þann galla, að álögurnar koma ekki réttlátt niður, því að alltaf er meira og minna athugavert við framtöl manna. Um það, hvernig skatturinn skuli reiknaður, má setja hvað nákvæmar reglur sem menn vilja, það næst bara aldrei fullkomið réttlæti með þessu móti. Svo er þessi skattur reiknaður í krónum, en þær hafa mismunandi gildi eftir því, hvar á landinu er. Ég skal taka sem dæmi, að verkamaður, sem hefir vinnu árið um kring, verður að borga jafnmikið í tekjuskatt eins og borgað er úr tveimur til þremur hreppum, þar sem vitað er, að margir búa við sæmilega afkomu. Og enginn getur haldið því fram með nokkurri sanngirni, að gjaldamöguleikar allra íbúa þessara hreppa séu jafnir gjaldamöguleikum þessa eina manns. (Fjmrh.: Þeir lifa verra lífi). Nei, þeir lifa ekki verra lífi, þessi aðferð er bara ekki rétt. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að samanburður sá, sem oft er verið að gera í blöðum á afkomu manna í sveitum og kaupstöðum, er af þessum ástæðum rangur. Hæstv. ráðh. taldi þessum skatti það til gildis, að með honum væri mest tekið af þeim sveitar- og bæjarfél., sem mest hefðu undir höndum. Ég er ekki svo viss um, að þetta sé kostur. Að sumu leyti er það óheppilegt, að leggja mjög þungar byrðar á þau bæjarfélög, sem mest hafa undir höndum, þau standa þá venjulega líka í ýmsum þeim stórræðum, sem verða til auðsöfnunar. Þó að standi 20 millj. í eignum í einum stað, en 5 millj. í öðrum, þá er ekki þar með sagt, að réttlátt sé að leggja fjórum sinnum meira á þann fyrrnefnda. Þetta fé getur staðið í þörfum fyrirtækjum og verið erfitt að losa það þaðan til að greiða slíka skatta. Ég skal svo ekki lengja umr. um þetta mál meira en orðið er. En ég vil undirstrika það, að með þessari hækkun tekju- og eignarskattsins er verið að gera sveitar- og bæjarfél. stórum erfiðara fyrir með að ná inn tekjum sínum. Og áskoranir bæjarfél. til Alþ. um leyfi til að taka tekjur sínar á annan hátt stafa vitanlega af því, að þau sjá fram á erfiðleika með að ná tekjum sínum á venjulegan hátt. - Umr. um starfsmannahlutdeildina tel ég mig geta sleppt að þessu sinni, þar sem ég geri ráð fyrir að bera fram brtt. um það efni, og gefst þá tækifæri til þess að ræða betur það atriði.