07.12.1935
Efri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Þó að þessar brtt., sem hér liggja fyrir, séu fyrir nokkru fram komnar, þá hefir fjhn. ekki fengið tækifæri til að bera sig saman um þær. En mér hefir þó skilizt, að meðnm. mínir í meiri hl. muni ekki geta fallizt á þær. Ég skal fúslega játa, að ég er efnislega samþ. því, að kærufrestur þyrfti að vera lengri en ákveðið er í frv., en ég er hræddur um, að það valdi meiri erfiðleikum á framkvæmd l. og innheimtu á skattinum. En það er að nokkru úr þessu bætt með fyrirmælum í tilskipun frá 12. apríl 1929, sem gefin var út af þáv. fjmrh., og að ég ætla fyrir tilstilli hv. flm. þessara brtt., út af samskonar tilefni og hann hefir nú lýst. Þar er það tekið fram, að kærur þeirra skattgreiðenda, sem geta gert það sennilegt, að þeir hafi verið fjarverandi, þegar kærufrestur var útrunninn og því ekki getað athugað álagningu skattan., megi yfirskattan. taka til greina. Ég skal lesa upp úr tilskipuninni það, sem hér á við, með leyfi hæstv. forseta: „Þó er yfirskattanefnd heimilt að taka til greina kærur, er síðar koma fram, ef kærandi gerir sennilegt, að hann hafi vegna fjarveru eða annara forfalla eigi getað kært áður en kærufrestur var úti“.

Þetta á hreint og beint við um sjómenn, bæði þá, sem eru fjarverandi í verstöðvum eða á skipum, sem koma sjaldan í höfn, og um farmenn og aðra, er hafa svipuð forföll. Og ég ætla, eftir því sem þáv. skattstjóri og núv. fjmrh. segir, að þetta hafi að jafnaði verið tekið til greina. Ennfremur vil ég benda á, að í 38. gr. frv. er nákvæmlega hið sama tekið fram og það, sem ég las upp úr tilskipuninni. Hér ber því allt að sama brunni, og skilst mér að frv. heimili þetta fyllilega. Auk þess finnst mér, að ef eingöngu ætti að ganga út frá þeim hálfsmánaðarkærufresti, sem ákveðinn er í frv., þá geti einnig svo farið, að sá kærufrestur, sem til tekinn er í brtt. - 4 vikur - reynist ekki heldur nógu langur, ef eingöngu á að byggja á honum. Ég ætla því, að undantekningarákvæði tilskipunarinnar og 38. gr. frv. verði happasælast fyrir skattkærendur. Ég vonast til, að hæstv. fjmrh., sem nú er staddur hér í þd., gefi yfirlýsingu um, að l. verði framkvæmd á þann hátt, að tekið verði fullkomið tillit til sjómanna og annara, sem tímunum saman eru fjarverandi frá heimilum sínum og hafa því ekki tök á að kæra skattinn áður en kærufrestur er útrunninn. Um útsvarskærur er það að segja, að menn geta sent þær til bæjarstj., og ég býst við, að hv. 4. þm. Reykv. viti það, að þær eru í flestum tilfellum teknar til meðferðar og athugunar. Ég vildi því mælast til þess, að hv. 4. þm. Reykv. tæki aftur þessar brtt. sínar og léti sér nægja það, ef hæstv. fjmrh. gefur yfirlýsingu um, að framkvæmd þessara atriða skuli byggð á fyrirmælum tilskipunarinnar frá 1929, sem hv. flm. átti sjálfur þátt í, og 38. gr. frv.