07.12.1935
Efri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég fæ ekki skilið, að hverju leyti það getur valdið örðugleikum á framkvæmi skattal., þó að samþ. verði þessi framlenging mín á kærufrestinum um 2 vikur frá því, sem frv. gerir ráð fyrir. Að vísu seinkar þetta ákvæði öllum framkvæmdum þeirra um 2 vikur. En síðast í frv., 40. gr., er ákveðinn síðasti úrskurðarfrestur ríkisskattan., og hann er ekki lengdur með brtt. mínum; hún á að ljúka úrskurðum á kærum utan Rvíkur fyrir nóvemberlok. Það eina, sem breytist hér í Rvík samkv. till. mínum, er, að gert er ráð fyrir, að úrskurður skattan. um kærur verði felldur fyrir 30. júní, en samkv. frv. á það að vera fyrir 15. júní. Og úrskurðir yfirskattan. færast sömuleiðis aftur um 2 vikur. Ég þarf ekki að skýra þetta frekar, en get bara ekki skilið, hvaða erfiðleikum þetta þarf að valda á framkvæmd tekjuskattsl. almennt. En hvað hitt atriðið snertir, heimildina í 38. gr. frv. og tilskipuninni frá 1929, þá held ég, að það sé mjög vafasamt, að skattan. telji sér skylt að taka hana til greina. Þær geta a. m. k. alltaf borið því við, að umkvartanir kærenda séu ekki á þeim rökum byggðar, að það eigi við að nota heimildina. Enda er þetta m. ö. o. alveg á valdi skattan., hvort kærur verða teknar til greina; þær geta vísað þeim frá, þó það sé algerlega rangt. Og ég hefi enga tryggingu fyrir því, þó að hæstv. fjmrh. geti um þetta yfirlýsingu, að skattan. telji sér skylt að hlíta því.

Ég skal játa, að þessi heimild er til í 38. gr. frv., en hún er ákaflega veik. Ég fann ekki til skipunina í þeim árgangi stjtið., sem ég leitaði í, en hún mun vera frá 1929. Mér er vel kunnugt um það af reynslu, að skattan. hér í Rvík hafa litið svo á, að þeim bæri engin skylda til að fara eftir henni. Þetta hefir komið berlega í ljós, og gæti ég tilfært ýms dæmi þess, að skattan. hér í bænum hafa í ýmsum tilfellum ekki viljað sinna kærum, sem komið hafa að liðnum kærufresti, þó að sá dráttur hafi beinlínis stafað af fjarvistum manna. Það er einmitt af þessum orsökum, sem ég hefi álitið rétt, að þessi brtt. kæmi fram. Og ég játa það, að ég vil heldur láta drepa brtt., ef hv. þdm. sýnist svo, heldur en að byggja á ekki sterkari heimild en þeirri, sem felst í 38. gr. frv. og tilskipuninni.

Ég minntist á framkvæmd útsvarsl., og þó að þau séu ekki hér til umr., þá vildi ég geta þess, að það er jafnan síðasta úrræðið fyrir kærendum að skrifa til bæjarstj., ef kærurnar hafa borizt of seint til skattan. og hún ekkert viljað sinna þeim. Í sumum tilfellum hefir þetta borið nokkurn árangur, en í öðrum ekki. Enda eiga bæjarstj. ekki um þetta að fjalla, heldur skattan., og ég get ekki betur séð en að það sé útlátalaust fyrir þær að gera það.