10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

35. mál, Kreppulánasjóður

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég veit, að hæstv. forsrh. hefir mikla þekkingu á landbúnaðarmálum eftir allt sitt ferðalag í Strandasýslu í vor, en mér er ekki kunnugt um, að hann hafi betri aðstöðu til þess að setja sig inn í þau mál heldur en hver annar. Ég verð vitanlega að þola það, að hann beri mér á brýn þekkingarleysi á þessum málum, en ég hefi ástæðu til að ætla, að bankastj. þeirrar lánstofnunar, sem fer með þessi mál, hafi engu síður skilning á þessum kjörum bænda en hæstv. forsrh. Og eins og ég tók fram áðan, hefir einn bankastj. búnaðarbankans skýrt mér frá því, að aðeins örfáir lántakendur hafi óskað frekar eftir þessari breyt., en ekki hafi verið nein ástæða til, þess vegna, að gefa út bráðabirgðal. Ég tók það líka fram áðan, að það væri að mínu áliti því minni ástæða til að gefa út bráðabirgðal., þar sem þessi leið var opin fyrir löggjafann 1933. Og einmitt það, að löggjafinn velur þessa leið, á að vera hömlur á þann ráðh., sem tekið hefir við eftir að það þing hætti störfum, að gefa út bráðabirgðal., sem ganga í bág við þau l., sem það hafði gefið út.

En það felst engin mótsögn í þeim ummælum mínum, að ég teldi það nokkurt vafamál, hvort ekki hefði mátt breyta þessu með reglugerð. Og ég held, að það sé misskilningur hjá hæstv. forsrh., ef hann heldur því fram, að hvergi sé ákveðið í l. um greiðslumáta lántakanda. Ég skal útskýra það, hvað ég á við með því, að þessu hefði mátt hreyta með reglugerð. Í 2. gr. l. nr. 78 1933 er ákveðið um gerð þeirra bréfa, sem Kreppulánasjóður gefur út; vextir af þeim skulu vera 41/2% á ári, og skulu þau innleysast á 40 árum.

Svo stendur í síðustu málsgr.: Færi svo, að reiðufé Kreppulánasjóðs reyndist eigi nægjanlegt til að greiða skuldbindingar hans, skal ríkissjóður leggja fram það, sem á vantar, og skulu þá þau framlög síðar endurgreiðast af eignum sjóðsins, ef þær hrökkva til“.

Þessi síðasta málsgr. veitir stj. heimild í því einstaka tilfelli til þess að greiða úr ríkissjóði fé, ef reiðufé Kreppulánasjóðs er ekki fyrir hendi. Í 19. gr. er aftur rætt um bréf, sem lántakendur gefa út. Þar er talað um, að lánstíminn megi ekki vera lengri en 42 ár og að vextir skuli vera 4%. Svo stendur í þessari gr.: „- Afborgunarskilmálum skal eftir því, sem unnt er, haga svo, að Kreppulánasjóður geti staðið straum af innlausn skuldabréfa sinna samkv. 2. gr.“.

Í 19. gr. er ætlazt til, að afborganir nægi til þess að standa straum af innlausn skuldabréfa, „ef unnt er“, en í 2. gr. er gefin heimild til þess fyrir ríkissjóð, ef það er ekki unnt að leggja fram það fé, sem á vantar. M. ö. o., ef sjóðstj. hefir álitið það heppilegt að leyfa lántakanda að greiða sína skuld á 40 árum með jöfnum greiðslum, þá hefir að vísu vantað nokkuð til þess, að Kreppulánasjóður gæti staðið straum af þeim bréfum, sem hann hefir látið af hendi. En þá er heimild fyrir ríkissjóð að borga mismuninn. Þess vegna álít ég vafamál, hvort ekki hefði mátt breyta þessu með einfaldri reglugerð. Og vitanlega var síðasta Alþ. það jafnljóst og núv. Alþ. og þessari stj., sem nú situr, að veðdeildarlán eru þannig, að menn borga veðdeildarskuldir með jöfnum árlegum greiðslum, svo það sannar ekki nauðsynina fyrir því að breyta þessu í sama horf. -

Hæstv. ráðh. sagði, að hér skildi milli okkar, hann bæri hagsmuni lántakenda fyrir brjósti, en ég ekki. Að mínu áliti er það allt annað, sem skilur á milli okkar. Það eru aðrir hagsmunir, sem hæstv. ráðh. ber fyrir brjósti en hagsmunir lántakendanna. Í Tímanum hefir nýlega verið talað um þessa brýnu nauðsyn á að breyta þessum lánskjörum, til þess að gefa tilefni til að ráðast á þá stj., sem fer með þessi mál, sem er í andstöðu við hæstv. stj. Hæstv. ráðh. tekur löggjafarvaldið í sínar hendur til þess að fullnægja löngun þeirra, sem að útgáfu Tímans standa, til þess að ráðast á þá menn, sem með þessi mál fara, en það eru ekki hagsmunir bænda, sem hann er að hugsa um, því enginn trúir því, að bankastj. búnaðarbankans hafi ekki bæði vit, þekkingu og vilja til þess að gæta hagsmuna bænda eins og sá maður, sem nú situr hér í ráðherrastóli.