10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

35. mál, Kreppulánasjóður

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég nenni varla að vera að karpa þetta við hv. 8. landsk. Ræða hans var ekki svo merkileg, en ég vil bara endurtaka það, sem ég sagði áðan, að það væru heil héruð, sem óskuðu eftir þessum breyt., eins og fleirum en mér er kunnugt um. Það er því leiðinlegt að þurfa að standa upp hvað eftir annað til þess að karpa um atriði, sem er jafnvitanlegt og þetta.

Viðvíkjandi hinn atriðinu, að það hefði mátt breyta þessu með reglugerð og haga lánunum þannig, að þau væri lántakendunum sæmilega viðunandi, þá er það rétt, að það mætti gera með því að leggja fram stórfé úr ríkissjóði, en það er ekki hægt að breyta reglugerðinni á þann hátt, að lánskjörin séu viðunandi, ef sjóðurinn á að standa undir sér sjálfur. Ég er ekki í neinum vafa um það, að sú leið, sem stj. nú hefir valið, er miklu heppilegri en sú leið, sem hv. þm. hefir hent á, ekki sízt eins og nú er komið fyrir ríkissjóði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að karpa um þetta mál meira.