15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

35. mál, Kreppulánasjóður

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég hefi svarað þeirri aðfinnslu nægilega við fyrri umr. þessa máls, að óþarft hafi verið að gefa út bráðabirgðal. um þetta efni, en vil samt ekki láta þeirri firru ósvarað nú, af því að hún er sögð út í bláinn og meira til þess að fá tækifæri til að tala hér á Alþ. heldur en að menn séu hér að tala um það, sem þeir vita um. Það lágu fyrir beiðnir hjá sjóðnum frá heilum héruðum um að lánskjörunum yrði breytt. Svo átti að segja við bændur, sem voru að biðja um þessi lán: Þið getið beðið þangað til Alþ. er búið að samþ. l., ykkur liggur ekkert á, eða þá: Farið og gangið að þessum kjörum, þó að óaðgengileg séu og fyrirsjáanlegt sé, að þið getið ekki staðið í skilum fyrstu árin.

Það var því hin fullkomnasta nauðsyn fyrir bráðabirgðal., þ. e. a. s. brýn nauðsyn til þess að breyta þessu ákvæði l., og þess vegna er það ákaflega einkennilegt, þegar þessi l. hafa verið sett af stj., sem vitanlega var kunnugust þeirri knýjandi nauðsyn, sem var á þessum l., að heyra þá skoðun aftur og aftur, og það frá fulltrúum sveitanna, eð ekki hafi verið full nauðsyn fyrir hendi fyrir þeim.