15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

35. mál, Kreppulánasjóður

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég var einn af þeim þm., sem fóru fram á það við hæstv. stj., að hún setti bráðabirgðal. um þetta efni, og ætla ég því að segja nokkur orð. Í umr. hefir komið fram sú skoðun, að ekki hafi verið þörf á bráðabirgðal. þessum. Ég held, að það álit sé þannig til komið, að flytjendur þess hafi ekki kynnt sér nægilega, hvað hér er um að ræða, og e. t. v. ekki haft tækifæri til þess. Ég get upplýst það, að í því kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir, var það mjög ákveðin ósk bænda, að þessi breyt. yrði gerð. Og eitt af því, sem ég var beðinn um, þegar ég fór úr kjördæminu að afstöðnum kosningum, var að færa það í tal við stj. tilvonandi, hver sem hún yrði, hvort ekki væri hægt að fá þessu atriði breytt fljótt. Svo stóð á því, að ýmsir bændur úr Þingeyjarsýslum og víðar, sem samið höfðu um lán úr sjóðnum í marz og aprílmán., ráku sig á það, að stj. Kreppulánasjóðs leit svo á l. frá 1933, að samkv. þeim ættu árlegar afborganir af lánunum ekki að vera jafnar. Þessu höfðu bændur ekki búizt við. Og þarna er vitanlega um mikið hagsmunamál lántakenda að ræða, hvort afborgunum verður skipt jafnt niður á talsverðan árafjölda, eða hvort þeir þurfa að greiða langmesta upphæð strax. - Það hefir verið sagt hér í umr., að þessar ráðstafanir hefðu mátt bíða þingsins, og bráðabirgðal. væru því óþörf. Án þeirrar lagasetningar hefðu tvær leiðir legið fyrir. Önnur var sú, að bændur hefðu beðið með lántökur sínar í von um hagkvæmari lánsskilyrði, sem Alþ. mundi setja. Og þrátt fyrir ummæli hv. þm. V.-Húnv. er ég viss um, að það hefði orðið tilfinnanlegt fyrir marga bændur. Það mun rétt, að sumir lánbeiðendur vilji nú draga að taka lánið fram yfir 15. nóv., en ýmsar ástæður gátu þó legið til þess, að þeir vildu fá lánið strax. T. d. gátu þeir átt það á hættu, að gengið yrði að veðum fyrir veðskuldir, sem mjög gat orðið bagalegt. Hin leiðin var sú, sem nefnd hefir verið hér í umr., að lánin væru tekin til bráðabirgða, og gefin út skuldabréf fyrir þeim. Þetta hefði heldur ekki verið ákjósanleg leið. Hún hefði haft það í för með sér, að öllum lánum, sem tekin hefðu verið frá því í ágúst í sumar, hefði orðið að breyta í það horf, sem nýja fyrirkomulagið krafðist, í október-desembermán. Þetta hefði kostað stj. Kreppulánasjóðs mjög mikið verk og tilkostnað.

Ég held því, eins og ég áður hefi tekið fram, að áminningar til stj. fyrir að gefa út þessi bráðabirgðal., séu á því einu byggðar, að þeir, sem þær flytja, hafi ekki átt kost á því að kynna sér málið nægilega.