25.10.1934
Efri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Guðrún Lárusdóttir:

Ég hafði búizt við því, að hæstv. atvmrh. myndi fylgja frv. þessu úr garði hér í deildinni, og hefði ég þá geymt aths. mínar við frv. þangað til hann hefði lokið máli sínu. En ég sé hæstv. ráðh. ekki hér í d., og af því hér er um alvarlegt og þýðingarmikið mál að ræða, mun ég ekki láta það fara framhjá mér að þessu sinni án þess að fara um það nokkrum orðum. Satt að segja furðar mig stórlega á því, hve litlar umr. urðu um þetta alvörumál í hv. Nd.

Þótt ég játi það, að úr því, sem komið er í þeim efnum, sem frv. fjallar um. er frv. þetta virðingarverð tilraun til þess að laga verstu gallana, þá verð ég hins vegar að segja það hreinlega, að ég varð steinhissa, þegar ég las frv., og þó einkum grg. þess og aths. þær, sem fylgja því.

Að vísu hefir heyrzt ávæningur af því öðru hverju, að siðferðisástandið vor á meðal væri ekki sem bezt, en að við værum komin svona langt út á hina glerhálu braut fóstureyðinganna, því hefði hvorki ég né margir aðrir trúað, ef ekki lægi hér fyrir opinber skýrsla, sem sannar þetta.

Fyrir tiltölulega fáum árum hefði verið alveg óhugsandi, að slíkt mál sem þetta lægi fyrir Alþingi. Þá var það almennt álitinn tvímælalaus glæpur að fremja fóstureyðingu. Og það eru ekki mjög mörg ár síðan seinasti kvenfanginn sætti fangelsi fyrir slíkan verknað eða honum skyldan. Það vakti þá almenna hryllingu og viðbjóð að hugsa til þess, að ung stúlka skyldi fyrirfara barninu sínu í fæðingunni, - en var nú allur munur á þeim verknaði og því, sem nú er að gerast vor á meðal samkv. frásögn landlæknis í skýrslunum, sem við höfum öll lesið?

Eitt af því fyrsta, sem mér datt í hug, þegar ég las þessar skýrslur, var það, hvort þetta plagg hefði í rauninni fremur átt erindi til lögreglu þjóðarinnar en lögréttu hennar. Og furðulegt þykir mér það, að sá óþrifnaður, sem þar er skýrt frá, skuli hafa fengið að þrífast undir handarjaðri heilbrigðisstjórnar og landlæknis, eins og raun ber vitni um.

Það er öllum kunnugt, að til skamms tíma hefir læknum. a. m. k. erlendis, verið hegnt stranglega fyrir fóstureyðingar. Því hefir það vafalaust komið mörgum á óvart, þegar fram kemur, að til séu læknar á Íslandi og sjúkrahús, sem reka í allstórum stíl þá iðju, sem vor eigin lög skipa á bekk með glæpaverkum. En nú er þetta skjalfest hér af sjálfum landlækninum í aths. við frv. þetta.

Þessar aths. bera það með sér, að einhverjir læknar hafa, að því er virðist óátalið, eytt fóstrum í tugatali, og við það orðið sekir við hegningarlög vor, sem eru í fullu lagagildi enn í dag. Þetta virðist óafsakanlegt, og illa hægt fyrir hlutaðeigendur að skjóta sér undir þá afsökun, að lögin séu orðin úrelt og ósamrýmanleg hugsun og lífi nútíðarmanna, og því síður að afsaka sig með ásókn af hendi kvenna í þessum efnum, en um slíkt eru konur sakaðar allfreklega í aths. frv., svo sem menn geta lesið á 5. bls. skjals þessa, og á ég satt að segja bágt með að trúa því, sem þar segir, þótt ég skuli ekkert um það fullyrða, hverju villimennskan í hugsun og háttum getur til vegar komið.

Hér blasir við oss hin hræðilegasta alvara, sem sérhverjum sómakærum manni hrýs hugur við, og vér göngum þess ekki dulin, að verði áframhaldið eftir því, sem hér er skýrt frá, þá siglir íslenska þjóðin hraðbyri til tortímingar. Vafalaust hefir þetta líka verið skoðun þeirra, sem frv. hafa samið, og vissulega vil ég taka undir þá ósk landlæknisins, að frv. megi nægja til þess að ráða bætur á ástandinu, nægja til þess að koma í veg fyrir, að þjóð vor strandi á hinu hættulega blindskeri fóstureyðinganna. En mér þykir ráðið, sem bent er á í frv., ekki allskostar viturlegt, a. m. k. ekki ef við viljum halda áfram að vera þjóð og halda áfram að byggja landið. Ráðið er sem sé sem öruggastar varnir gegn barngetnaði yfirleitt. En það kalla ég tvíeggjað sverð, skoðað frá þjóðfélagsins sjónarmiði, og svo hefir það reynzt öðrum þjóðum fjölmennari en oss.

Eða hvernig var það með Frakka hérna á árunum, þegar svo var komið, að konur vildu ekki lengur vera mæður? Sú hætta vofði þá yfir þessari glæsilegu menningarþjóð, að hún týndi tölunni og týndi þá vitanlega einnig getu sinni og glæsimennsku. Menn muna það kannske, að þá var það tekið til bragðs af ríkinu að verðlauna barneignir. Mér er ekki alls kostar kunnugt um, hvernig þau verðlaun gáfust, en hitt er auðskilið að valdamenn og forráðamenn þjóðarinnar hafa séð, í hvaða óefni stefndi, og á þennan hátt gert tilraun til að koma í veg fyrir hnignun þjóðarinnar.

Allar þjóðir telja sér mannfækkun hið mesta tjón og líta á hana sem afturfararmerki, eins og hún auðvitað er. Hið ákjósanlegasta í hverju þjóðfélagi er auðvitað margt fólk, heilbrigt fólk og vel uppalið fólk. En við hverju er að búast, fari menn almennt að nota sem öruggastar varnir gegn barngetnaði?

Við Íslendingar erum fámenn þjóð, sem byggir víðáttumikið land, sem rúmar og framfleytir miklu fleira fólki en nú býr á því. Við höfum því enga ástæðu til að stuðla að fólksfækkun. Við megum ekki við henni. Ég veit, að stöku rödd hefir í þessu sambandi bent á það atvinnuleysi, sem nú leikur þjóðina allhart, til réttlætingar mannfækkun. Um þessa skoðun hefir kunnur þýzkur jafnaðarmannaforingi kveðið svo að orði, að fæðingatakmarkanir vinni þjóðunum stórtjón, með því að þær eyði krafti þeirra og ýti undir innflutning útlendinga.

Þá má benda á aðra hlið þessa máls, sem ekki er síður alvarleg. Hvarvetna þar, sem fæðingatakmarkanir hafa orðið algengar, hefir fylgt þeim aukin lausung og óskírlífi, og kynsjúkdómshættan þannig aukizt stórum, auk alls annars ófagnaðar, sem slíkur lifnaður hefir í för með sér. Líka má benda á það, að alltaf vofir sú hætta yfir, að læknisaðgerðir af þessu tægi geti orsakað vansköpuð börn og veikluð.

Á síðari árum hefir rignt yfir þjóðina allskonar óhollu lesmáli um kynferðismálin. Allskonar óþverri af þessu tægi hefir borizt inn á heimilin og inn í huga unglinganna, óhreinkað hugsunarhátt þeirra og valdið sýkingu í sálarlífinu. Í ræðu og riti hefir þessari kynferðismálaspeki verið haldið að þjóðinni og verið hrópuð út um landið í blöðum, bókum og útvarpi. Í viðbót við þennan „fróðleik“ á nú unga fólkið að fá í veganesti leiðbeiningar þær um varnir gegn barngetnaði, sem frv. gerir ráð fyrir, að læknum sé skylt að láta í té. Að vísu er gert ráð fyrir í frv., að konur einar fái þessar leiðbeiningar, en ólíklegt þykir mér, að fleiri fari ekki á stúfana, enda er þeim læknum, sem fram að þessu hafa brotið landslög með fóstureyðingum og haldizt það uppi óátalið, illa trúandi til að einskorða sig við ákvæði frv. um þessi efni. Það er því ekkert líklegra en að samþykkt frv., eins og það er nú, myndi leiða til þess, að lauslætið fengi byr undir báða vængi ásamt allri þeirri sýkingu og spillingu, sem af því leiðir. Hér er því veruleg hætta á ferðum, sem öllum er skylt að gjalda varhuga við. En það er langur vegur frá því, að frv. girði fyrir þessar hættur, eins og menn sjá, þegar þeir lesa það vandlega, og þarf ekki langt að fara, því að 2. málsgr. í 1. gr. ber það fullkomlega með sér.

Hvílík hætta er hér á ferðum af völdum fóstureyðinga, sést bezt af skýrslum þeim, sem fylgja grg. frv. Þar er hættan talin orðin svo mikil, að oss er helzt jafnað til Rússa í þessum efnum, og verð ég að segja, að slíkt tel ég vafasaman heiður fyrir íslenzku þjóðina.

Það er líklega ofætlun fyrir leikfólk að dæma um gildi frv. frá heilbrigðislegu sjónarmiði, en heldur sýnast mér sum ákvæði þess varhugaverð í því tilliti, t. d. þar sem gert er ráð fyrir í frv. að losa heilbrigða konu við fóstur sitt af því, að hún hefir einu sinni fætt vanskapnað. Ég hefi átt tal um þetta við ljósmæður, sem bezt ættu að vita um þessi efni, og segja þær mér, að enginn algild regla sé fyrir því, að slíkt endurtaki sig.

Ég verð að telja það undarlegt, að frv. skuli ekki hafa verið borið undir félag ljósmæðra eða félag hjúkrunarkvenna áður en það var borið fram á þingi. Það hefði a. m. k. ekki átt að spilla því. Mér er að vísu kunnugt um, að það var sent Bandalagi kvenna til umsagnar, en þó eigi fyrr en það var fullsamið og prentað. Svo finnst mér undarlegt, að þetta frv., sem fjallar eingöngu um konur, skuli ekki hafa fengið að komast í hendur neinna kvenna til þess að lagfæra það eftir því sem þær álitu þörf á. Sömuleiðis virðist það einkennilegt, að í frv., sem talar um tvo óaðskiljanlega aðila, skuli aðeins annar þeirra vera nefndur á nafn. - Menn munu hafa mismunandi skoðanir um það, hverja leið skuli fara í þessu máli, en það hygg ég, að flestir muni vilja láta leysa það á heppilegan og samvizkusamlegan hátt, því við getum varla sett okkur fyrir sjónir, hvílíkt alvörumál hér er á ferðinni.

Ég vil því tjá þeim mönnum þakkir mínar, sem vilja koma með lagfæringar á þessum málum, og vona ég, að hv. Ed. beri gæfu til þess að leiða þetta mál til lykta á heppilegan hátt.

Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. verði látið fara til n., og þá sennilega til allshn. eins og í Nd. Vil ég mælast til þess við þá n., að hún leiti umsagnar og ráða Ljósmæðrafélags Íslands og beri sig saman við þær konur, ljósmæðurnar, sem hafa góða aðstöðu til þess að geta gefið góðar og skynsamlegar leiðbeiningar í þessum efnum. - Að svo stöddu læt ég útrætt um þetta mál, en ég hefi hugsað mér að bera fram nokkrar brtt. við frv.