25.10.1934
Efri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég mun ekki lengja umr. mikið við þessa umr., enda heyrði ég ekki nema lítið af ræðu hv. 5. landsk. Ég var því miður bundinn annarsstaðar. Mér skildist á því, sem ég heyrði í ræðu hv. þm., að að vísu væri ástandið í þessum efnum hér ekki svo gott sem skyldi, en hann vildi draga í efa, að frv., þó að l. yrði, fengi nokkru til bóta áorkað í þessum efnum, mundi jafnvel auka á vandræðin. Ég skal ekki fullyrða, að þetta hafi verið alveg rétt eftir tekið hjá mér, því ég heyrði ekki nema svo lítið af ræðu hv. þm., en mér skildist þetta þó. Hafi ég skilið hv. þm. rétt, þá hygg ég, að það sé misskilningur hjá honum að óttast slíkar afleiðingar af samþykkt þessa frv. Það er tvímælalaust rétt, og ber grg. frv. það með sér, að fóstureyðingar eru orðnar mjög tíðar hér á landi, og verður það að teljast alvarlegt, sérstaklega fyrir þær sakir, að engar fullnægjandi skýrslur liggja fyrir um það, af hvaða ástæðum það er gert, og hlýtur það að verða til þess, að allskonar grunsemdir vakna um ástæður, sem enginn maður getur talið rétt að taka tillit til. Þegar þess er gætt, að eins og nú er gengið frá löggjöfinni, þá verður að líta á fóstureyðingar sem glæp, sem varðar við 8 ára fangelsi bæði fyrir konu og þann lækni, sem það framkvæmir. Nú mun það vera álit flestra lækna og margra annara, að þrátt fyrir þessi ströngu ákvæði sé rétt og sjálfsagt í vissum tilfellum að eyða fóstri úr konum. Í skjóli þessarar almennu skoðunar og einhverra hæpinna lögskýringa, að hér sé um nauðvörn konunnar að ræða, hafa fóstureyðingar einmitt talsvert verið framkvæmdar. En þar sem löggjöfin er eins og hún er og á valdi læknanna að gera út um slíka hluti, þá er ákaflega hætt við því, að þessar fóstureyðingar séu ekki einasta framkvæmdar þegar svo stendur á sem í frv. er talað um, heldur oft og einatt þar sem það virðist ástæðulaust, og er full ástæða til að ætla, að svo sé, eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja.

Í þessu frv. eru eins og menn sjá 4 nýmæli. Í fyrsta lagi það, að ef kona er sjúk á þann hátt, að læknir telur henni hættu stafa af því að verða barnshafandi, þá er honum skylt að gera henni aðvart og kenna henni ráð til að forðast það. Ég geri ekki ráð fyrir, að neinn geti verið á móti þessu. Það virðist vera sjálfsagt, þegar svo stendur á um eina konu, að henni séu kennd ráð til að verjast því að verða barnshafandi. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að ef kona, þó ósjúk sé, leitar læknis og óskar eftir því að fá leiðbeiningar gegn því að verða barnshafandi, þá sé lækni skylt að láta þær leiðbeiningar í té. Er þar gengið út frá því, sem mér finnst eðlilegt og sjálfsagt, að hver kona ráði því sjálf, hvort hún vill verða barnshafandi eða ekki.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því, að ef heilsufari konunnar er þannig hagað, að bersýnileg sjúkdómshætta stafar af því fyrir hana að verða barnshafandi og ekki þykir öruggt að treysta, að henni notist af venjulegum leiðbeiningum í þessum efnum, þá er lækni heimilt að gera á henni aðgerðir, sem fyrirbyggja það, að hún geti orðið barnshafandi.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því, að ef kona er með barni og læknir telur henni geta stafað hætta af því að ganga með barn og ala það, þá sé heimilt að eyða fóstrinu. Ég geri ráð fyrir, að um þetta atriði kunni að greina á um skoðanir manna. En þetta er ekkert annað en það, sem gert hefir verið og gert er dagsdaglega. Munurinn er einungis sá, að nú er þetta gert móti 1., en með frv. er það lögleitt. En einmitt fyrir það, að í einstökum tilfellum er þetta leyft, er léttara að koma ábyrgð á hendur þeim mönnum, sem að þarflausu hjálpa til þessa verða, án þess að ástæða sé fyrir hendi. Það er erfitt að beita hegningarlögunnm nema því aðeins, að skýr ákvæði séu um það, hvenær heimilt sé að gera þetta og hvenær ekki. Þetta er einmitt meginatriði frv., sem hér er til umr. Ég get ekki verið sammála hv. þm. um það, að þetta sé líklegt til þess að auka á vandræðin í þessum efnum; ég tel þvert á móti mjög líklegt, að frv., ef að 1. verður, verði til þess að bæta ástandið frá því, sem nú er.

Hv. þm. minntist á þá heimild til að eyða fóstri, ef gera mætti ráð fyrir vanburða barni eða vanskapningi. Um þetta segir í 10. gr. frv.: „Nú hefir kona orðið barnshafandi, og vantar meira en 12 vikur á fullan meðgöngutíma, og er ástæða til að ætla, af því að konan hefir áður alið vanskapað barn eða haldið meðfæddum sjúkdómi, eða af öðrum rökum, að um kynfylgju sé að ræða, er komið geti fram á burði þeim, er konan gengur með, og er lækni þá heimilt að eyða fóstrinu“, þ. e. a. s. ef læknum kemur saman um, að allar líkur bendi til, að barnið verði þannig á sig komið, að það sé verr fætt en ekki fætt. Ég held ekki, að ástæða sé til að halda, að slík heimild, sem þarna er veitt, verði misnotuð. Ég held ekki, að læknar hafi neina hvöt til þess að eyða fóstri, nema líkurnar fyrir því, að það verði vanskapningur eða vanburða, séu svo sterkar, að það stappi nærri fullri vissu.

Ég geri ráð fyrir, að sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, hafi ekkert á móti því að eiga tal við hjúkrunarkonur og ljósmæður um þetta mál. Það er rétt, að frv. mun ekki hafa verið sent til þeirra fyrr en svo seint, en það er samið af landlækni og í samráði við Læknafélagið.