25.10.1934
Efri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Guðrún Lárusdóttir:

Það er rétt, sem hæstv. atvmrh. segir um tilgang frv., að hann sé sá, að firra konur, sem stendur fyrirsjáanleg hætta af því að ganga með barn, frá því að verða barnshafandi og ala barn, og hinsvegar að marka læknunum bás um fóstureyðingar. Og er hvorttveggja til komið af gefnu tilefni. Ég hefi heldur ekki mælt á móti því að þetta væri tilgangur frv., og heldur ekkert um það sagt, að það mundi gera illt verra, enda þótt ég hafi látið í ljós efasemdir um, að frv. kæmi að tilætluðum og æskilegum notum.

Hæstv. ráðh. var að tala um það, að fóstureyðingar væru talsvert framkvæmdar, þegar um væri að ræða sjúkdómstilfelli og lífshættu hjá konum, enda þótt ekki stæði neitt beint um það í l. Í þessu sambandi þykir mér rétt, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það, sem ekki ómerkari maður en próf. Guðmundur Hannesson segir í bréfi því, sem hann skrifar landlækni f. h. Læknafélagsins. Hann segir svo: „- - Gamla reglan var sú, að gera aldrei abortus nema í samráði við reynda lækna, og gafst hún vel - “. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. leggur sama skilning í þessi orð og ég, að frá hans sjónarmiði hafi læknar haft nægjanlegt leyfi til þess að bjarga konum í neyð, ef svo bar undir, og af þeirri ástæðu hefði ekki þurft að breyta núgildandi l. Það virðist frjálslegt og fallegt í fljótu bragði séð, að kona skuli ráða því sjálf, hvort hún verður móðir eða ekki. En konur eru ekki einar um það að verða mæður. Það gæti því hugsazt, að hér væri lagt dálítið vopn í hendur mismunandi sinnuðum karlmönnum til þess að geta haft sína hentisemi og sagt við konur: Farið þið til læknanna, þar getið þið fengið allar leiðbeiningar og losazt við allar óþægilegar afleiðingar. - Öll mál hafa tvær hliðar, og ég vil einnig líta á þessa hlið. En það er spursmál, hvers konar frelsi hér er annarsvegar. Ég hefi nýlega lesið fyrirlestur norsks kvenlæknis um þessi mál, og hún kemst þar inn á að tala um þetta „frjálsræði“ kvenna um að velja og hafna í þessu tilliti, og kemst hún að þeirri niðurstöðu, að hér sé um að ræða fyrir margar konur að leggja sig í þá verstu fjötra, sem nokkru sinni hafi verið lagðir á kvenþjóðina. - Þessi kvenlæknir heitir Elsa Randulf. Ég vil aðeins benda á þetta, að hér getur verið hætta á ferðum. Hitt játa ég fúslega, að 11. gr. frv. er ágæt takmörkun á öllum þessum málum. Mér liggur við að segja, að sú gr. ein sé nægjanleg til að koma því til leiðar, sem hér er um að ræða, ásamt þeim ákvæðum, sem standa í núgildandi hegningarlögum vorum.

Það hefir verið talað um, að þessar ráðstafanir væru gerðar til þess að hjálpa upp á veiklaðar konur. En getur það nú ekki hugsazt, að sú hætta, sem kona leggur sig í með þeim aðgerðum, sem hér eiga að fara fram, sé litlu minni fyrir heilsu hennar en það, að ganga með barnið og ala það? Þetta er spurning, sem ekkert okkar getur svarað, en reynslan hefir þrásinnis svarað því og sýnt, að hjá veikluðum konum getur allt farið hið bezta og gengið vel, og getur því verið alvarlegt að ráðazt að slíkum konum og gera þeim þennan óskunda. Þeir, sem þekkja vel inn í þessa hluti og hafa verið viðstaddir slíkar aðgerðir, viðurkenna, að hér sé oft um alvarlegar afleiðingar að ræða.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. talaði um vanskapninga og vanburða börn, vildi ég aðeins segja það, að enginn getur sagt fyrirfram um óborið barn, hvort það verður vanskapningur eða ekki. Náttúran er stundum mislynd. Sólin kann að skína í dag, þó dimmt verði á morgun.

Ég vil endurtaka það, að þrátt fyrir þá ágalla, sem mér finnast vera á frv., þá vildi ég óska, að það dygði til þess að ráða bót á því ástandi, sem nú er.