16.11.1934
Efri deild: 40. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Guðrún Lárusdóttir:

Ég vil með örfáum orðum svara hv. 2. þm. S.-M. Ég sé ekki ástæðu til þess að halda langa ræðu, enda væri það þýðingarlaust. - Hv. þm. telur undirbúning frv. góðan, en mér finnst það ekki vera svo undirbúið sem æskilegt hefði verið.

Hv. þm. vili nú halda fast við niðurlagsákvæði 9. gr., og virðist honum hafa snúizt hugur um þetta atriði frá því ég fyrir nokkru átti tal við hann um þetta. Mér er það ljóst, að félagslegar ástæður koma ekki til greina sem aðalástæður, en ég vil ekki einu sinni, að þær séu hafðar sem aukaástæður. Ég tel, að með því sé læknunum lögð of mikil ábyrgð á herðar, leiddir í of mikinn vanda, og vil, að sjúkdómsástæður einar verði lagðar til grundvallar.

Hv. 2. þm. S.-M. var að tala um Mæðrastyrksnefndina. Mæðrastyrksnefndin er ekki félag. (IngP: Stendur ekki eitthvað af kvenþjóðinni bak við hana?). Hún er þannig til komin, að upphafsmaður hennar, Laufey Valdimarsdóttir, sem vildi hefja undirbúning að því, að mæður fengju styrki, kvaddi til fundar, þar sem kvenfélögin kusu aðila í nefndina. Ég hygg því, að nefndin liti ekki á sig sem félag.

Um kvenfélögin er það að segja, að þar eru skoðanirnar mjög skiptar, en trúlegt þykir mér, að ef til athugunar kæmi, yrðu fleiri konur með mér en móti í þessu máli.

Viðvíkjandi því, að ég skoði mig sem fulltrúa kvenna í þessu máli, þá geri ég það í þessu máli sem öðrum, því að ég lít á mig fyrst og fremst sem fulltrúa kvenna hér í þinginn í öllum málum, sem varða á sérstakan hátt málefni kvenna. Ég vil mótmæla því, sem fram hefir komið, að ég sé mótfallin því, að frv. nái fram að ganga. Ég hefi lýst yfir því, að ég er fylgjandi frv. í aðalatriðum, enda þótt ég beri fram brtt. við þau atriði þess, er mér þykja horfa til hins verra. Ég mun sýna þessa afstöðu mína við atkvgr.

Þá vil ég víkja að hæstv. atvmrh. Það er að vísu leiðinlegt að tala yfir tómum ráðherrastólum, þó maður verði oft að sætta sig við það í seinni tíð. - Hæstv. ráðh. byrjaði á því sama og hv. 2. þm. S.-M., að ég hefði mótmælt frv. Ég hefi áður vikið að því, hvað hæft er í þessu. Þá sagði hæstv. ráðh., að þetta frv. yki rétt konunnar, bætti aðstöðu hennar og gæfi henni rétt til þess að ákveða sjálf, hvort hún yrði móðir eða eigi. Ég held, að hún hafi nú ætíð átt þann rétt, svo að eigi þurfi að lögfesta hann. En kannske hefi ég misskilið hæstv. ráðh. og hann hefir átt við, að konan fengi rétt til þess að ákveða, hvort hún vildi láta sterilisera sig eða ekki. Ég held nú, að þetta sé frjálst núna, eða er það kannske bannað í lögum? Vildi ég spyrja hv. sessunaut minn, 1. þm. Skagf., hvort nokkur lagabókstafur sé til þessu viðvíkjandi. (MG: Það er bannað). Ég fæ þær upplýsingar hjá hv. 1. þm. Skagf., að þetta sé bannað með l. En það atriði ætti að ræðast á sérstökum vettvangi og gefa út um það sérstaka löggjöf.

Ég hefi eigi fárast yfir því, þótt fólk leitaði sér upplýsinga hjá læknum. Hinsvegar tel ég það varhugavert að demba yfir á læknana þeirri skyldu. er í frv. felst samkv. niðurlagi 9. gr., og sé þá hættu, sem því er samfara. Hæstv. ráðh. gerði ekkert úr hættunum, hvorki heilbrigðislegum né siðferðislegum, en sagði, að fávizkan um slík efni væri mjög hættuleg. Mér hefir ekki virzt skorta fræðsluna um þessa hluti. Fyrirlestrar hafa verið haldnir og bækur gefnar út, já, meira að segja í útvarpinu hafa verið haldnir fyrirlestrar um þessi mál. Og hver er útkoman? Kynsjúkdómar og fóstureyðingar hafa aukizt, svo að til vandræða horfir. Hæstv. ráðh. taldi það óþarfa að blanda karlmönnunum inn í þessi mál, en till. mín fer aðeins fram á, að læknar séu skyldir til að taka karlmanninn tali og vara hann við hættunni, þegar kona hans eða barnsmóðir á hlut að máli. Mér er það fullljóst, að það er nauðsynlegt, að læknirinn tali við konuna líka, en ég sé ekki, hvað því er til fyrirstöðu, að manninum séu einnig gefnar viðeigandi leiðbeiningar. Hæstv. ráðh. sagði í þessu sambandi, að það væru konurnar, sem ættu börn. Ég hefi nú heyrt þetta fyrr, en hitt hefi ég einnig heyrt, að þær ættu ekki börnin með sjálfum sér.

Hæstv. ráðh. taldi fóstureyðingar böl. Þess vegna ber ég fram þessa brtt. við þá gr. frv., er mér finnst gera brautina breiðasta. Ég átti fyrir skömmu tal um þetta við gamlan og reyndan lækni, sem fengizt hefir við lækningar í 30 ár. Hann taldi, að eigi mætti koma aðrar ástæður til greina en sjúkdómsástæður, því að ef hér væri fleiru blandað saman, þá væri læknirinn teygður út á þá braut, er eigi væri gott að segja um, hvert kynni að leiða.

Það má vel vera, að ég hafi komizt harkalega að orði, en þó mun ég ekki biðja forláts á því. Ég get ekki talað með neinni lotningu um þá ósvinnu, sem um er rætt og lýst í grg. þessa frv. Og ég verð að halda fast við þá skoðun mína, að ef það á að leyfast með þessum lögum, að tekið verði tillit til annars en sjúkdómsástæðna við fóstureyðing, þá tel ég, að með þeirri ákvörðun sé ráðizt gegn ófæddum börnum. Slík fyrirmæli geta jafnvel orðið misnotuð, svo að þau leiði til óeðlilegrar fækkunar á komandi kynslóðum.

Þess vegna lít ég svo á, að það sé mjög varhugavert að samþ. síðustu málsgr. 9. gr. frv., og að þessi lög nái þá fyrst sínum raunverulega tilgangi, ef þau geta að mestu leyti komið í veg fyrir, að þessar aðgerðir eigi sér stað, eða gerðar svo sjaldan sem mögulegt er.

Ég tók það fram í ræðu minni í gær, við fyrri hluta þessarar umr., að þegar þungaðar konur ættu við bágar heimilisástæður að búa, þá gæti verið um margar leiðir að ræða til úrbótar aðrar en þá, að koma í veg fyrir barnafæðingar. Og ég hafði einmitt frekar búizt við því frá þessum hæstv. ráðh., sem er þekktur að því að vera mannúðlegur og góður drengur, að hann mundi leita annara ráða til aðstoðar fátækum ómagaheimilum, ekki sízt þar sem hann er líka jafnaðarmaður og mundi, geri ég ráð fyrir. samkv. sinni stefnuskrá láta ókjör hinna fátæku heimila til sín taka og bæta úr þeim á annan hátt en ætlazt er til eftir 9. gr. frv., og það vil ég segja, að ég hefði verið fús til að taka þátt í því með hæstv. ráðh. Mér finnst, að þessar fátæku barnamæður eigi svo mikið inni hjá þjóðfélaginu fyrir sitt strit við að fæða og ala upp börnin, að þær eigi skilið að fá opinbera aðstoð til þess að geta risið undir því, án þess að þær þurfi að misbjóða heilsu sinni og þreki. Ég vil ennfremur benda á eina ástæðu gegn þessu ákvæði í 9. gr. frv., þó að einhverjum kunni að þykja hún brosleg. Þegar það er komið inn í lögin, að taka beri tillit til þess, ef konan á við að búa mjög bágar heimilisástæður vegna ómegðar, mundi þá ekki hugsanlegt, að harðsvíraðar sveitarstjórnir notuðu sér þessar heimilisástæður til að ýta undir það, að þær aðgerðir verði látnar fara fram á fátækum barnamæðrum, sem frv. veitir heimild til? Vil ég þó engan veginn væna neinar sérstakar sveitarstjórnir um þetta að óreyndu. Hæstv. ráðh. talaði fallega máli hinna veikluðu og þreyttu mæðra, þegar hann var að mæla fyrir því, að óhjákvæmilegt væri að heimila fóstureyðingar vegna bágra heimilisástæðna. Þetta er flutt undir því yfirskini að veita þreyttum mæðrum heilsuvernd. En hvað segja skýrslurnar um þessi mál? Þær skýrslur, sem ég hefi rekizt á og hefi hér í höndum, þar á meðal t. d. skýrslur frá Osló í Noregi, sýna það, að af þeim mörgu konum, sem leita þar til lækna í þeim tilgangi að losna við fóstur, eru engar þreyttar barnamæður, það eru allt konur á bezta aldri í góðum kringumstæðum. Enda geri ég ekki ráð fyrir, að það verði fyrst og fremst fátæka fólkið, sem hefir ráð á fé til þessa. Hæstv. atvmrh. sagði hér í ræðu sinni í gær eina átakanlega sögu, eflir ljósmóður hér í bænum, um konu, sem sökum veiklunar missti tveggja mánaða gamalt barn sitt. En hann sagði ekki alla söguna; sögulokin komu ekki. Ef hann hefði skýrt frá þeim, þá hefði sagan stutt minn málstað. Ég kann þessa sögu og skal segja hana til enda. Þessi veiklaða kona hafði 29% blóð, en ekki 20%, eins og hæstv. ráðh. sagði. Segjum, að hún hefði haft 20% blóð, og svo verið lögð undir skurð til að eyða fóstrinu. Hvernig hefði það tekizt? Ég hygg, að hvorki ég eða hæstv. ráðh. né aðrir hér viðstaddir séu færir að dæma um það, hvort þessi koma hefði þolað betur, uppskurðinn eða eðlilega barnsfæðingu við góða aðhlynningu. Ég varpa þessari spurningu fram, ekki til þess til henni verði svarað, því það er enginn fær um, heldur aðeins til íhugunar fyrir hv. þdm. Þessi kona, sem sagan getur um, ól barnið, en fékk svo blóðaukandi meðul og kom til góðrar heilsu aftur eftir barnsburðinn. Tveimur árum síðar ól hún annað barn og hafði þá nægilega mikið blóð. Barnið var hraust og móðirin líka, svo að sagan endaði vel. Þessi saga styður rækilega mitt mál, að það sé ekki alltaf ráðlegast að þjóta til og framkvæma þær aðgerðir, sem frv. heimilar, þó að heilsufar móðurinnar þá stundina væri erfitt og aðrar ástæður slæmar. Það eru til fleiri sögur svipaðar þessari, og get ég sagt aðra, sem styður mitt mál. Tvær vanfærar konur voru á sama heimili, báðar fátækar barnamæður. Báðar voru þær þjakaðar af of mikilli áreynslu. Önnur þeirra vildi óvæg losna við fóstrið, en hin konan dró úr því á allan hátt og reyndi að telja henni hughvarf. En þrátt fyrir það fékk hún vilja sínum fullnægt, og eftir þá aðgerð á sjúkrahúsi kom hún heim aftur liðið lík. - Hin konan ól litla barnið sitt, það dafnaði vel og varð sólargeisli á fátæklega heimilinu hennar. Ég vil láta þess getið, að því fer mjög fjarri, að fátæku konurnar séu að jafnaði lakari mæður en hinar, - þvert á móti. Hæstv. ráðh. þótti ég ekki tala af næmum skilningi eða samúð með bágstöddum konum um aðgerðir lækna í þessum efnum, en ég held, að það skipti ekki miklu máli, hvort kona, sem tvísýnt þykir að þoli barnsburð, deyr á skurðarborðinu hjá lækninum eða á heimili sínu vegna afleiðinga viðgerðarinnar. Ég get ekki verið að fetta fingur út í það, þó að hæstv. ráðh. víki tvisvar að því í ræðu sinni, að ég talaði með svo miklum helgisvip um þessi efni. Mér hefir helzt dottið í hug út af þessu, að hæstv. ráðh. mundi vera skyggn, þar sem hann þykist sjá helgisvipi hér í þd. í sambandi við þessar misfellur í þjóðfélaginu, sem hér eru til umræðu. Annars veit ég ekki, hvað svona setningar eiga að þýða í umr. um alvarlega hluti, því það er ekki hægt að brosa að þeim.

Ég veit það fullkomlega og engu síður en hæstv. ráðh., að hér er um stórfelldar misfellur í þjóðfélaginu að ræða, sem frv. er ætlað að ráða bót á. Ég vil tala við hann um möguleikana til þess, af því ég veit, að honum er áhugamál að færa þessar misfellur til betri vegar.

Hæstv. ráðh. fannst það barnalegt af mér og næstum skoplegt, að gera ráð fyrir, að sakleysi ungra stúlkna hér á landi yrði meiri hætta búin eftir að þetta frv. væri orðið að lögum. Það kann að vera svo, að það þyki barnalegt af mér að gera ráð fyrir, að lögin geti fremur orðið þeim að fótakefli í því efni. Um það ræði ég ekki frekar nú, en ég álít það skyldu mína að vara við þessu.

Það er náttúrlega fallega sagt af hæstv. ráðh., að konur eigi að ráða því sjálfar, hvort þær vilja verða mæður: en það sjálfræði verður bara oft og tíðum lítils virði.

Þá minntist hæstv. ráðh. á hinn skæða óvin mannkynsins, áfengið, og játaði, að það mundi valda miklu, ef til vill mestu, um að auka á siðspillinguna. Enda skiptir þá vitanlega mestu máli, að fullkomnar varúðarreglur séu viðhafðar. En það vitum við öll fullkomlega, að fólk, sem er drukkið, er ekki líklegast til að taka slíkum leiðbeiningum. Svo að hæstv. ráðh. hefði getað sparað sér þann kafla ræðu sinnar.

Þá vék hæstv. ráðh. að undirbúningi frv. og sagði, eins og hv. frsm. n., að ég hefði talið það illa undirbúið. Ég átti aðallega við það, að málefnið sjálft væri ekki orðið nægilega rætt eða kunnugt almenningi hér á landi. Og ég gat um í því sambandi, að samskonar mál hefði verið rætt og gerðar um það ályktanir á opinberum umræðufundi í Noregi. Hæstv. ráðh. talaði um, að borgarafundir væru ekki líklegir til þess að vinna að undirbúningi lagafrumvarpa. Það veit ég vel, að borgarafundir semja ekki frumvörp. En það er altítt að boða til borgarafunda, þegar þýðingarmikil mál eru á dagskrá, mál, sem varða almenning yfirleitt, og þetta er eðlilegt. Á þann hátt er venjulega hafinn undirbúningur mála, enda sé ég ekkert á móti því, að borgarafundir sendi Alþingi ályktanir um þetta mál, eins og t. d. um bindindismálið. Fólkið vill hugleiða málin og ræða þau frjálslega og láta skoðanir sínar í ljós þannig að þingmenn kynnist þeim og taki þær til athugunar. Sá fundur, sem ég gat um, að hefði verið haldinn um þetta mál í Noregi, var reyndar ekki venjulegur borgarafundur, heldur var það kallað Landsstævne, landsfundur, þar sem mættir voru kjörnir fulltrúar frá ýmsum félögum. Fundurinn skoraði á þjóð og þing að vera vel á verði gegn fóstureyðingum.

Ég var áður búin að svara hv. frsm., 2. þm. S.-M. Hann talaði mjög vel fyrir minni ljósmæðranna, eins og þær eiga skilið, og er gott, að sú ræða birtist þeim í þingtíðindunum. Ljósmæðurnar hafa jafnan verið leiðbeinendur og ráðgjafar íslenzkum mæðrum í þessum efnum, og unnið dyggilega hin vandasömu störf sín, oft við lítil þægindi. Og það er sannfæring mín, að okkar lærði landlæknir hefði haft gott af að leita upplýsinga hjá þeim, þegar hann var að undirbúa þetta frv. Þó að ég bendi á þetta, tel ég, að ekkert sé á hann hallað með því.

Ég hefi þá lýst minni afstöðu til þessa frv. Það er misskilningur, að ég vilji fella frv., því að út af fyrir sig er nauðsynlegt að setja lög um þetta efni, og reglur þær, sem settar eru í 11. gr. um fóstureyðingar, eru góðar. En ég er því mótfallin, að þessar aðgerðir séu leyfðar, nema í þeim tilfellum, þar sem líf og heilsa konunnar er í veði. Mun ég greiða atkv. samkv. þessu.