20.11.1934
Efri deild: 43. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Allshn. hefir ekki tekið sérstaka afstöðu til þessara brtt., en ég vildi þó fyrir mína eigin hönd lýsa nokkuð afstöðu minni til þeirra, áður en til atkvgr. kemur. Ég vil þá fyrst minnast á brtt. á þskj. 504, frá hv. á. landsk. - 1. brtt. fer fram á, að upphaf 2. málsgr. frv. sé breytt þannig, að á eftir orðunum „Nú leitar...“ komi „sjúk eða veikluð“. Mér virðist, að þar sem í gr. er áður talað um sjúkar konur, þá sé ekki ástæða til að setja það einnig þarna inn, nema með það fyrir augum, að aðrar konur en sjúkar eða veiklaðar eigi ekki að geta fengið þessar leiðbeiningar. Ég tel því réttara, eins og búið er að reyna áður, að reyna að fá 2. málsgr. fellda burt, því að afleiðingin af þessari breyt. er engin önnur en sú, að fyrirbyggt er, að heimilt sé að veita konum, sem ekki eru sjúkar, þessar leiðbeiningar. Ég vil vekja athygli hv. d. á því, að ég tel þessa brtt. ganga í sömu átt og hafa sömu þýðingu og brtt., sem áður er búið að fella, nfl. um að fella málsgr. alveg niður. Þar sem ég var á sínum tíma á móti þeirri brtt., þá er það auðvitað, að ég er þessari till. einnig andvígur. - Þá er brtt. við aðra gr. Hún felur í sér, eins og hv. dm. sjá, að tillit megi ekki taka til nokkurs annars en sjúkdóms eða lífshættu konunnar. Mér finnst, að það, sem hér á að fella burt - að ef gera má ráð fyrir, að konan verði iðulega barnshafandi, þá sé lækni heimilt, ef konan óskar þess, að gera á henni viðeigandi aðgerð til hindrunar því, að hún verði barnshafandi, - sé engin ástæða og raunar óeðlilegt að fella niður, vegna þess, að það verður alltaf að vera á valdi læknisins, eftir öllum anda frv., hvenær slíkar aðgerðir séu nauðsynlegar. Ég tel því til skemmda að samþ. þessa brtt. - Því kemur brtt. við 9. gr., sem ég skal ekki fara mörgum orðum um. Þó vil ég geta þess, að b-liður, sem er mjög vel meintur af flm. og ætlaður til þess að bættar verði heimilisástæðurnar, sem gætu verið þess valdandi, að frekari ástæður væri til fóstureyðingar en ella er að mínu áliti dálítið varhugaverður. Ef um hættu er að ræða, og það á alltaf að vera fyrir hendi hætta, ef hugsað er til slíkrar aðgerðar, og þar að auki erfiðar kringumstæður, sem þó má ekki taka til greina á þann hátt, að athuga fóstureyðingu með þeim forsendum, heldur á læknirinn að tilkynna fátækrastjórn ástæður heimilisins og hún síðan að greiða úr, þá verð ég að segja það, að vel getur farið svo, án þess að ég halli á fátækrastjórnirnar, að nokkur tími dragist þangað til úr sé bætt að fullu, og ég held, að þessum heimilum sé ekki gerður mikill greiði með þessu ákvæði. Fyrst er nú það, að læknirinn á í mörgum tilfellum heldur erfitt með að fullnægja þessu ákvæði, a. m. k. úti um land, og krefjast þess, að viðkomandi sveitarstjórn bæti úr heimilisástæðunum. Gæti vel farið svo, að konan liði stórlega fyrir þann drátt, sem sennilega yrði á þessu, og e. t. v. myndi það kosta hana lífið, ef um bráða hættu væri að ræða. Tel ég þessa till. til stórskemmda. Ég get ekki skilið þetta á annan hátt en að lækninum beri að forðast fóstureyðinguna, en eigi að tilkynna sveitarstj. að bæta úr heimilisástæðum konunnar, og megi læknirinn ekki framkvæma aðgerðina, sem honum annars með frv. er heimilað, fyrr en hann hefir reynt þetta En hvernig fer, ef ekki fæst úr bætt? Þetta leiðir til vandræða og læknum fyrirmunað að framkvæma aðgerðina, sem oltið getur á um líf konunnar. Einnig þessari brtt. verð ég að leggja á móti. - Þá er brtt. við 10. gr., um það, að á eftir þeim skilyrðum, sem þar eru talin upp og fyrir verða að liggja til þess að fóstureyðing megi fara fram, þá skuli einu skilyrði bætt við enn, sem sé umsögn lögskipaðrar ljósmóður. Ef menn nú bera þetta saman við frvgr., þá verður það ljóst, að um varhugavert atriði er að ræða. 2. liður 10. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Áður en fóstureyðing má fara fram, verður að liggja fyrir skrifleg, rökstudd greinargerð tveggja lækna um nauðsyn aðgerðarinnar, og sé annar þeirra yfirlæknir sjúkrahússins, þar sem aðgerðin er fyrirhuguð, en hinn að jafnaði sá læknir, sem ráðlagt hefir konunni að leita sjúkrahússins í þessum erindum“ o. s. frv. Eins og af þessu sést, að aðgerðin er óheimil nema fyrir liggi skrifleg, rökstudd greinargerð tveggja lækna, og ef þessu er nú bætt við, þá kemur þriðja skilyrðið, og ef það er ekki uppfyllt, telst aðgerðin óheimil. Ég held, að þótt það sé að sjálfsögðu rétt, sem hv. 5. landsk. heldur fram, að ljósmæðurnar séu að mörgu leyti leiðbeinendur þessara kvenna, og um það sé ekki nema gott eitt að segja, þá verði samt að viðurkenna það, að hér er um atriði að ræða, sem ekki má undir nokkrum kringumstæðum krefjast af ljósmæðrum, að þær séu færar að dæma um. Það er alveg óviðeigandi að krefjast þess, að ljósmæður, sem ekki hafa fengið neina sérmenntun í þessari grein, og ekki fengið nema fremur stuttan undirbúning undir sitt starf, skuli kveða upp rökstuddan úrskurð aðgerð þessari viðvíkjandi. Og þegar svo álit ljósmæðranna verður að skilyrði fyrir framkvæmd aðgerðarinnar, þá verður þetta að telja mjög til hins lakara. - Ég læt svo þessi orð nægja. Ég vildi a. m. k. fyrir mína hönd láta þessar aths. falla áður en brtt. koma til atkv., en ég hygg þó, að allshnm. muni vera mér í höfuðatriðum sammála um þessar till. - Þá liggja fyrir 2 aðrar brtt., önnur frá hv. 5. landsk. en hin frá hv. 2. þm. Rang., við 3. gr. Það er brtt. við breyt., sem kom inn í frv. við 2. umr., og sýnir hún, að það hefir ekki verið að ástæðulausu, að ég sagði um þá brtt., að hún væri heldur til hins lakara, þar sem nú sjálfur höfundur brtt. ber fram leiðréttingu eða umbætur á henni. Þessar brtt. báðar tvær eru smávægilegar og skipta litlu máli, en ég felli mig þó betur við till. hv. 2. þm. Rang. Orðið er áreiðanlega íslenzkt, og get ég ekki annað séð en það eigi þarna við. Um brtt. hv. 5. landsk. má segja það, að orðið er íslenzkt, en dálítið vafamál, hvort það, að vera „valdur að“, er ekki of víðtækt til að geta átt hér við, þar sem ræðir um fæðingu barns. Má spyrja, hvort það getur ekki átt við þann eða þau, sem upphaflega hafa orðið völd að því, að um fæðingu getur verið að ræða. Ég tel því að öllu athuguðu, að brtt. hv. 2. þm. Rang. sé betri, en hvorugt skiptir miklu máli. Ég vil benda hv. 5. landsk. á að taka sína brtt. aftur, og láta brtt. hv. 2. þm. Rang. nægja, því að hún er a. m. k. ekki lakari, hvernig sem á málið er litið.

Þá hafa komið hér fram skrifl. brtt., sem ég hefi ekki haft tíma til að athuga nákvæmlega. En í fljótu bragði fannst mér a. m. k. ekki skemmd að þeirri fyrri, og má vel vera, að hún sé til bóta, en það er slæmt í jafnstóru máli og þessu, að þurfa að greiða atkv. um brtt., sem maður hefir ekki haft tíma til að athuga nánar. - Um síðari till., eins og hún virtist mér, er hún var lesin upp, þá held ég, að ég geti ekki fallizt á hana. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess, eftir þeim undirbúningi, sem þetta mál hefir fengið, að láta l. fela í sér ákvæði um það, að þau skuli endurskoðuð á næsta þingi. Ef ágallar koma í ljós, sem að sjálfsögðu má búast við um þessa löggjöf sem hverja aðra, þá er rétt, að tíminn og reynslan leiði þá í ljós, og mér þykir sannast að segja tíminn of stuttur til reynslu á þessum l., ef hann á einungis að vera eitt einasta ár.

Ég skal svo láta við þetta sitja, sem ég þegar hefi sagt, og væri gott, ef frekari tími ynnist til að athuga skrifl. brtt.