04.12.1934
Efri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það er mjög þægilegt fyrir mig að fá þessa ræðu hv. þm. S.-Þ. því við erum hér sammála meir en oftast áður. (JBald: Báðir moralskir). Ég er þó ekki samþ. fyrri brtt. hv. þm., um að löggilda lækna til eins árs. Er það líkast því, að hér væri um iðnað að ræða, sem veita ætti til sérleyfi. (JJ: Það er það líka). Það varpar allt öðru ljósi yfir málið, og ég held, að það sé ekki heppilegt. Ég er samála hv. þm. S.-Þ. og hv. 5. landsk. um, að það séu ekki mannfélagsástæður, sem hér eiga að ráða. Það er ekki sama viðhorf nú og þegar kristnin var lögtekin og menn komu ekki auga á, hvernig hægt væri að ala upp öll þau börn, sem fæddust.

Það, sem ég einkum vildi segja, er, að ég álít, að málið sé allt of lítið rætt til þess að samþ. það nú, en að það hafi verið rétt af landlækni að gangast fyrir löggjöf í þessa átt, byggðri á þeirri þekkingu, sem læknastéttin hefir á þessum málum. Ég er sammála hv. þm. S.-Þ. um, að lögin verði að byggjast á hugsunarhætti fólksins. Það þýðir ekki að setja lög, ef fólkið segir: Ég vil þetta ekki. Hvort þau bæta meira eða skaða, fer eftir því, hvort þau eru sett á réttum tíma - hvort þau eru í samræmi við hugsunarhátt fólksins. Það er engin smáræðis bylting orðin í þessum efnum síðan þau þóttu einhver hin geigvænlegustu og að kona bar út barn fyrir að eignast það utan hjónabands, af ótta við almenningsálitið, - og til þess að tala og hugsa eins og nú er gert.

Það er orðið langt síðan ein barneign gat eyðilagt stærsta heimili og voldugustu fjölskyldu landsins. Og þó barnið væri ekki fætt í meinum, en aðeins utan hjónabands, gat almenningsálitið lagt þetta volduga heimili í rústir. Sýnir þetta, hvað hugsunarháttur fólksins er mikið vald í þessum efnum, og að nauðsynlegt er, að löggjöfin sé í samræmi við hann. Ég get hugsað, að Íslendingar séu ekki eftirbátar annara að taka upp nýjungar - það má kalla það nýungagirni eða hæfileika til að laga sig eftir öðrum. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti, flýgur gegnum Nd. án umr. eða brtt. Það er eins og víman hafi fyrst runnið af mönnum, þegar það kemur hingað til Ed., og er það hv. 5. landsk., sem á þakkir fyrir að hafa vakið umr. og gagnrýni á frv. Og fyrir hispursleysi hv. þm., sem innleiddi málið á pólitískum fundi, urðu umr. um það án alls hégóma, og var álitið, að málið mundi vinna við umr. Hv. þm. S.-Þ. vildi vinna að því, að löggjöf verði sett, og vildi láta ákveða nú að undirbúa hana og leggja fyrir Alþ. 1936. Ég er þessu samþykkur, svo langt sem það nær. En því má þetta þá ekki bíða? Því þarf að vera að setja þessi káklög nú? Mörg frv., sem borin hafa verið fram á þingi, hafa ekki verið samþ. fyrr en á því næsta. Það er því eðlilegt um jafn stórt mál og þetta, sem ekki er heldur kunnara almenningi, að það sé nú borið fram og rætt af þeim, sem áhuga hafa fyrir því, og svo látið hvíla sig milli þinga. Ég hefi hugsað mér að bera fram rökst. dagskrá, til þess að gefa hv. þm. kost á að fresta málinu þar til Alþ. kemur saman næst. Það skiptir ekki máli, hvort þessi lög eru sett árinu fyrr eða síðar. Þetta játaði hv. þm. S.-Þ., enda mun það sannast, að ef lögunum verður nú komið á og farið að framkvæma þau, þá verður ekki létt að afnema þau aftur. Er því réttara að hugsa áður en talað er, og lofa fólkinu að átta sig á málinu áður en ráðizt er til framkvæmda. Mun því rétt að fresta málinu og lofa því að fá nýjan undirbúning, og mun það vinna við það. Ef menn kæra sig ekki um að ræða málið, getur næsta Alþ. alveg óhikað samþ. það. Ég hefi því hugsað mér að bera fram og afhenda forseta svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

„Deildin lítur svo á, að nauðsynlegt sé til góðs árangurs af löggjöf eins og þessari, að þjóðinni gefist kostur á að ræða málið og láta í ljós skoðanir sínar á því, áður en lög eru um þau sett, og að eftir slíkar umræður séu meiri líkur til þess, að löggjöfin verði í samræmi við hugsunarhátt almennings.

Deildin telur því ekki rétt að samþ. frv. þetta á fyrsta þingi, sem fær málið til meðferðar, en væntir þess, að frumvarp um þetta efni verði lagt fyrir næsta þing og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég ætla svo ekki að tefja störf hv. d. með því að tala meira um þetta mál, Þó mætti margt um það segja, ef svona lög eru sett án þess að eiga stoð í hugsunarhætti fólksins, en í meðvitund þess er fóstureyðing talin siðspillandi glæpur. Ef samvizkan segir: þú mátt ekki - það er glæpur, en lögin segja: þú mátt - það er ekki glæpur, - þá er hætt við, að freistingin verði of mikil og þaggi niður rödd samvizkunnar. Fyrst þegar hugsunarhátturinn er svo breyttur, að fólkið heimtar svona lög, á að setja þau, en fyrr ekki.