04.12.1934
Efri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Guðrún Lárusdóttir:

Mér finnst nú, að ég megi vel við una að heyra 2 hv. þdm. standa upp og láta í ljós sömu skoðun og ég fyrst þegar málið kom fyrir þessa hv. d., að frv. sé ekki nægilega undirbúið. Það er ekki frv. sjálft, sem ég er á móti, heldur tel ég undirbúninginn ekki nægan. Málinu er dembt óundirbúnu hér inn á þingið, án þess nokkur kostur hafi gefizt til þess að kynna sér, hvernig það samrýmist hugsunarhætti fólksins. Hv. þm. S.-Þ. talaði um þá miklu sálrænu þýðingu, sem þetta gæti haft á hugsun fólksins, og það er sú hlið málsins, sem ég tel þýðingarmesta.

Ég hefi ekki alls fyrir löngu lesið bók, sem að vísu er ekki ný, eftir þekktan höf., amerískan kvenlækni, sem hefir kynnt sér ýmsa sjúkdóma sálarlegs eðlis. Þar segir, að það hafi mjög alvarleg og djúptæk áhrif á sálarlíf konunnar, hafi hún látið leiðast til þess að eyða fóstri. Enda þarf ekki langt að leita til þess að finna dæmi þess, að það hefir valdið sturlun og æfilangri hugarkvöl. En þó að þetta gangi ekki svo langt, að valda fullkominni sturlun, getur það hvílt sem skuggi á sál konunnar alla æfi. Ég hefi - gegnum aðra - kynnzt konu, sem átti 2-3 heilbrigð og efnileg börn, en sagðist aldrei hafa getað horft í augu þeirra vegna blygðunar yfir því, að hafa eitt sinn leiðzt til þess að láta eyða fóstri. Og þó hún leiddist út í það ung og óþroskuð, að undirlagi barnsföður, sem stóð á bak við, þá skoðaði hún sig sem morðingja og gat því aldrei horft með djörfung og gleði í augu barnanna sinna.

Ég held, að ég verði að fara nokkrum orðum um þær brtt., sem fyrir liggja, þó langt sé liðið síðan þær voru lagðar fram. Brtt. mín um að fella niður 2. gr. frv. byggist á því, að ég vil ekki skylda læknana til þess að gefa þær leiðbeiningar, sem þar er ætlazt til. Hv. frsm. sagði með nokkrum sanni að tilgangurinn væri sá sami og ég lagði áherzlu á. Í öðru tilfellinu kemur kona til læknis, og hann telur, að henni stafi heilsutjón eða lífshætta af að ala barn, og gefur hann þá hispurslaust allar leiðbeiningar til þess að koma í veg fyrir það. Í hinu tilfellinu heilbrigð kona, og í staðinn fyrir, að frv. ætlast til, að henni séu veittar allar leiðbeiningar umsvifalaust, þá ætlast ég til með till. að konan sé rækilega skoðuð, og sé hún álitin svo hraust, að henni sé ekki ofraun að ala barn, þá séu henni engar upplýsingar gefnar um varnir gegn því að verða barnshafandi.

Þá eru nokkrar orðabreytingar, og fer það vitanlega eftir smekk hvers eins, hvaða orð menn vilja helzt nota. Ég á hér brtt. um að nota orðið að „framkalla“, og fannst mér hv. þm. lá mér að bera fram brtt. við mína eigin till., en nú sé ég, að það er orðið alsiða. En mér gekk ekki annað til en að finna hentugt orð og vanda málið eftir föngum.

Þá kem ég að 9. gr., sem er mergurinn málsins og mest hefir verið deilt um. Ég get alls ekki fellt mig við annað en að heilsutjón eitt eða lífshætta komi þar til greina. Hvorki fátækt eða aðrar þjóðfélagslegar ástæður eiga að koma til mála hvað þetta snertir. (SÁÓ: Það gerir það ekki). Jú, þetta er rangt hjá hv. 4. þm. Reykv. Það er beint ráðgert í 9. gr. frv. En í stað þess að láta örðugar ástæður heima fyrir ráða hinu minnsta í þessu efni, á fátækrastjórnin að grípa inn í og bæta úr vandræðunum án þess að það skoðist sveitarstyrkur, heldur frjálst framlag til þess að koma í veg fyrir, að konan þurfi vegna fátæktar að ganga inn á þessa braut. Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að það gæti oft orðið um seinan að leita til fátækrastjórnar, en ég held, að ástæðulaust sé að óttast það, með þeim samgöngum, sem við höfum nú orðið auk símans. Ég held því, að það liggi beint fyrir að samþ. ákvörðun um að fátækrastjórn komi til skjótrar og góðrar hjálpar, án þess að styrkur, veittur á þennan hátt, skoðist sveitarstyrkur.

Það er eins og allir geta skilið, að þar sem fátækt er og mörg börn, er viðurhlutamikið að taka móðurina frá heimilinu, og hefir enda oft kostað móðurina lífið. Þar sem þannig stendur á, verður sveitarstjórn oft að koma til skjalanna hvort sem er, og tel ég miklu betra að byrgja brunninn áður en það verður um seinan.

Mér fannst hv. frsm. vera ósanngjarn í garð ljósmæðranna. Ég vil ekki láta því ómótmælt, að þær hafi ekki þekkingu á þessum málum. Það er of mikið vantraust á þeirri stétt kvenna, sem öðrum fremur hefir sýnt hyggindi, ósérplægni og dugnað í störfum sínum. Starf ljósmæðra krefur og þekkingar og fræðslu. Núv. landlæknir hefir gert sér mikið far um að auka menntun þeirra. Þungaðar konur munu alloftast leita ráða hjá ljósmóður, henni verður það fyrst fyrir, að segja ljósmóðurinni sem gerst frá ástandi sínu í hvívetna. Ég tel það því hagræði fyrir lækninn, þegar hann er tilkvaddur, að geta fengið ýmsar vísbendingar um heilsufar konunnar hjá ljósmóðurinni og haft hana í ráðum með sér.

Annars ætla ég ekki að fjölyrða meira um þetta mál. Ég hefi getað tafið það svo, að því hefir ekki verið hraðað eins gegnum Ed. eins og Nd., en málið er svo mikilsvarðandi, að það verður að athugast vel og rækilega. Ég get vel fellt mig við dagskrána, sem fram er komin; ég tel það gott að fá umhugsunarfrest til næstu þings.