04.12.1934
Efri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Hæstv. heilbrigðismálaráðh. leggur áherzlu á, að frv. verði ekki breytt neitt, svo að það geti orðið að l. nú þegar. Ég fæ ekki séð, þar sem þetta er nýtt mál, að það sé neitt ódæði, þótt breyt. séu á því gerðar og það ekki afgr. alveg eins og það kom úr lagaverksmiðju stjórnarráðsins. Ég tek undir það með hv. þm. S.-Þ., að þetta er stórt stökk frá þeim ákvæðum, er hingað til hafa gilt og átt nokkra stoð í almenningsálitinu. Mér þykir það því nokkuð mikið, að hæstv. ráðh. skuli amast við því, að brtt. komi fram. Ég hygg, að í öllum till. séu athuganir, sem gott er að komi fram. Ég held, að málið hafi verið lítið athugað í Nd., og hér hafa að vísu nokkrar umr. farið fram um það, en málið hefir verið sótt af kappi og aths. ekki vel séðar af þeim, er ráðin hafa í deildinni.

Ég á hér örlitla brtt., og er hún í samræmi við aðalhugsun frv. Hún er um það, að læknum einum sé falin þessi mál, og hygg ég, að það sé í bezta samræmi við meginhugsun frv. víða í öðrum löndum fást aðrir við þessar leiðbeiningar en læknar, og hefir mátt lesa um það í blöðunum hér í Reykjavík t. d. Ég held, að það sakaði ekki að banna öðrum en læknum að hafa slíkar leiðbeiningar með höndum. Þótt þetta taki ekki til þess, að einstaklingar tali saman um þessi efni, þá stemmir það stigu fyrir, að menn, sem ekkert vit hafa á þessum hlutum, séu að auglýsa, að þeir veiti leiðbeiningar um þá, og boli þá kannske burt þeim, er færastir eru til þessa.

Ég mun greiða atkv. með þeirri dagskrá, er hér hefir verið borin fram. Ég hygg, að málið bíði engan hnekki við það, þótt það sé athugað betur, því að það er margt að athuga í þessu sambandi.