04.12.1934
Efri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég hefi áður lýst afstöðu minni til þessa máls og sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Nú er komin fram brtt. frá hv. 10. landsk. við 1. gr., um að aftan við gr. bætist það, sem þar segir. Ég skal lýsa yfir því, að ég tel þessa till. heldur til bóta, þótt ég viti ekki, hvort hún kemur að fullkomnu gagni; hygg ég að öll allshn. líti svo á.

Þá vil ég víkja að dagskrá hv. 1. þm. Reykv., sem ég er algerlega á móti. Ástandið er óviðunandi eins og nú er, og tel ég því, að ekki geti komið til mála að vísa frv. frá, því að ég efast ekki um, að með því er mikil bót ráðin á ástandinu frá því, sem nú er. Hitt er annað mál, að reynslan kann að leiða í ljós, að það þurfi endurbóta við frá því, sem nú er.

Ég fer ekki inn á almennar umr. um frv., en því miður virtist mér það koma fram, og það við 3. umr. málsins, hjá sumum hv. þm., að þeir vissu ekki, hvað ákvæði frv. gilda. Hv. 1. þm. Reykv. taldi, að hér væri verið að lögleiða það, sem kvenþjóðin, hin heilbrigða alþýðukona, eins og hann komst að orði, mundi segja, að hún vildi ekki. Hann kvað einnig svo að orði, að hér væri verið að löghelga það, sem í augum fólksins væri glæpur. Ég skil þetta ekki, þar sem það er skýrt tekið fram í frv., að heilbrigðisástæður einar komi til greina, og þetta hefir einnig verið rætt sérstaklega og er skýrt tekið fram í grg. frv. Ég held þó, að menn séu hér að mestu leyti að berjast við skugga.

Ég tel frv. hafa fengið rækilega meðferð í Ed. Um Nd. veit ég ekki. Finnst mér full ástæða til þess að láta það reyna sig, því að það bætir úr því ástandi, sem nú er, þótt það sé kannske ekki fullnægjandi. Ég vænti því þess, að hv. d. samþ. frv., en felli dagskrána, og geri ekki á því neinar vafasamar breyt. Hinsvegar þarf frv. að fara til Nd. hvort sem er, því að felld var úr því gr. við 2. umr.