09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég gerði það af ásetningi að hafa framsöguræðu mína um þetta frv. stutta og sleppa fjöldamörgu, sem ég hefði kosið að ræða um jafnvel við 1. umr., til þess að komast hjá því, ef hægt væri, að tefja umr. um þetta mál við 1. umr. Ég skal því svara hv. 1. þm. Reykv. mjög stutt.

Hann minntist á það, að þessi bráðabirgðal. væru óþörf. Ég hefi fært fram þau rök fyrir því, sem ég tel nauðsynleg, og sé því ekki ástæðu til að endurtaka þau, en vil aðeins benda á það, að mjólkursölunefndin, sem nú er fullskipuð, hefir það vald samkv. l., sem önnur n., skipuð af stj., mundi ekki hafa haft. Hún er þegar byrjuð á að rannsaka möguleika fyrir sameiginlegri gerilsneyðingu fyrir nágrenni Rvíkur og hvernig henni verði fyrir komið, og mun hún gera ráðstafanir í þá átt, að salan geti orðið skipulögð um áramót.

Viðvíkjandi því, að ekki hafi verið tilhneiging til þess að flytja kýr inn í lögsagnarumdæmi Rvíkur og selja mjólkina beint, verður að standa staðhæfing á móti staðhæfingu. Mér er vel kunnugt um það. En þegar sýnt var, að þetta fyrirkomulag átti ekki að gilda, hættu menn vitanlega við að flytja fjós sín inn í lögsagnarumdæmi Rvíkur. (MJ: Það má gera nógar ráðstafanir móti því). Á þær ráðstafanir hefir ekki sérstaklega verið bent, og vitanlega er ekki hægt að gera ráðstafanir gegn því nema á þann hátt að leggja verðjöfnunarskatt á mjólkina gegnum sölumiðstöð, eins og gert var ráð fyrir í frv., sem lagt var fram á þingi 1933 af fyrrv. varaformanni og núv. formanni Sjálfstfl., og það sýnir, hvað flokkurinn er skiptur í þessu efni. Fyrrv. varaform. flokksins ber fram frv. um að leggja verðjöfnunarskatt á alla mjólk, sem framleidd er í Rvík, en þá kemur hv. 1. þm. Reykv. og mælir því í gegn. Þessir hv. þm. hafa alveg samskonar hlutverk í þessu máli, annar talar fyrir Rvík, en hinn talar fyrir sitt kjördæmi.

Hv. 1. þm. Reykv. benti á það m. a., að það væri alger óþarfi að gerilsneyða mjólk, sem framleidd væri í Rvík. Þetta er út af fyrir sig staðleysa, sem ekki hefir við nokkur rök að styðjast, vegna þess, að hér utan við lögsagnarumdæmi Rvíkur er framleidd mjólk, t. d. á Seltjarnarnesinu, sem er nær bænum heldur en sú mjólk, sem framleidd er innan lögsagnarumdæmis Rvíkur. Þessir framleiðendur hafa því betri aðstöðu til þess að flytja mjólkina ógerilsneydda og óskemmda heldur en sumir þeirra, sem framleiða hana innan lögsagnarumdæmis Rvíkur.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, að ekki eigi að leggja verðjöfnunarskatt á þá mjólk, sem framleidd er innan lögsagnarumdæmis Rvíkur, er það að segja, að alstaðar þar, sem þessi sala hefir verið skipulögð, hefir verið gengið það feti framar en hér, að það hefir verið lagi verðjöfnunargjald á mjólk, hvort sem hún var framleidd nær eða fjær bæjunum, einmitt vegna þess, að þessi l. eru ekki síður sett í þágu framleiðendanna í bæjunum og í námunda við bæina heldur en þeirra, sem fjær eru, til þess að losa þá við óeðlilegt og of mikið framboð þeirra, sem framleiða mjólkina fjær. Þess vegna er engin leið til þess að skipuleggja mjólkursöluna á annan hátt en að leggja skatt í einhverri mynd á þá, sem eiga að njóta markaðsins á neyzlumjólkinni. Þetta hefir verið gert í Noregi, Svíþjóð og Englandi og hvergi verið farin sú sanngirnisleið, að undanþiggja þá, sem framleiða mjólk á ræktuðu landi, eins og gert er í þessu frv.

Viðvíkjandi dreifingarkostnaðinum vil ég taka það fram, að með því að skipuleggja dreifingu mjólkurinnar á þann hátt, sem bezt er að skipuleggja, t. d. eins og gert hefir verið á Akureyri, þar sem dreifingarkostnaðurinn er 6 au., þá fer þessi dreifingarkostnaður ekki — a. m. k. ekki neitt verulega — fram úr því, sem hver einstaklingur, er selur beint, hefir af því að dreifa sinni mjólk til neytendanna.

Ég hefi talað við marga af mjólkurframleiðendum í nágrenni Rvíkur, og þeir viðurkenna, að dreifingarkostnaðurinn sé a. m. k. 5 au. á hvern lítra hjá sér, og það þó þeir hafi stór bú. Og reynslan er sú á Akureyri, að þeir, sem selt hafa beint — því þar hefir engin þvingun verið í þessu efni —, hafa smátt og smátt gengið inn í mjólkursölusamlagið, vegna þess að þeir hafa talið það borga sig betur að láta mjólkursölusamlagið sjá um dreifinguna heldur en að gera það sjálfir. — Það hefir verið bent á, að kostnaðurinn við dreifingu hjá Mjólkurfélagi Rvíkur hafi orðið mjög mikill, og er það rétt, en það er ekki til fyrirmyndar. Dreifingarkostnaðurinn á Akureyri sýnir aftur á móti, hvað hægt er að komast í þessu efni, ef málið er vel skipulagt.

Þá minntist hv. 1. þm. Reykv. á, að ranglátt væri að undanþiggja verðjöfnunargjaldi þá mjólk, sem framleidd væri á 1 hektara af ræktuðu landi fyrir hverja kú. Þetta er það, sem framleiðendur innan lögsagnarumdæmis Rvíkur hafa farið fram á, og það byggist á öðru en því, sem hv. þm. vildi vera láta. Þetta byggist á því, að reynsla undanfarinna ára hefir sýnt það, ekki sízt í nágrenni Rvíkur, að tilhneiging hefir verið til þess að framleiða mjólk á þann hátt að nota fóðurbæti meira en góðu hófi gegnir. Þetta veldur því, að mikið fé fer út úr landinu fyrir fóðurbæti, sem eyðir okkar dýr- mæta gjaldeyri, en skapar enga atvinnu í landinu. Þess vegna er þetta ákvæði beinlínis stílað, og mér þykir líklegt, eða a. m. k. mun stj. stuðla að því, að gerðar verði frekari ráðstafanir til þess að fyrirbyggja slíka framleiðslu á mjólk. Með þessu ákvæði er ýtt undir mjólkurframleiðendur innan lögsagnarumdæmis Rvíkur að rækta land, en sleppa verksmiðjuiðnaði mjólkurinnar, sem átt hefir sér stað, en þarf að útrýma.

Almennt vil ég segja það um málið, að afstaða Sjálfstfl., hefir ekki verið sérstaklega ákveðin. Nú upp á síðkastið hefir komið fram í málgögnum flokksins sérstök umhyggja fyrir neytendum í Rvík. En síðan 1917 hefir bæjarstj., þar sem flokkurinn hefir verið í meiri hl., haft vald til þess að skipuleggja mjólkursöluna til hagsbóta fyrir neytendur, en þeir hafa alls ekkert að því gert í þessi 16 ár annað en að auka búðafjöldann upp í 80, sem hefir orðið til þess að hækka dreifingarkostnaðinn, og hefir það komið niður á neytendunum. Þetta er verk flokksins í þessu máli. En nú rísa blöð þessu sama flokks upp til þess að láta líta svo út, sem þau beri hag neytendanna sérstaklega fyrir brjósti í þessu máli. En þegar talað er um þetta mál hér, er leikið algerlega tveim skjöldum. Form. Sjálfstfl. ber fram frv. 1933 um að leggja verðjöfnunarskatt á mjólk, sem framleidd er í nágrenni Rvíkur, en svo kemur hv. 1. þm. Reykv. og segir, að þennan skatt megi ekki leggja á framleiðsluna í nágrenni Rvíkur. Þegar svona er talað og breytt, er ekki gott að segja, hvernig maður á að taka á málinu gagnvart þessum flokki, því sannast að segja er ekki gott að vita, hver er hin raunverulega stefna flokksins í þessu máli. Er það stefna flokksins, að ekki megi leggja verðjöfnunarskatt á mjólkurframleiðsluna hér í Rvík, eins og hv. 1. þm. Reykv. heldur fram, eða það, sem komið hefir fram af hálfu form. flokksins?

Um þetta mál skal ég svo ekki fara fleiri orðum, en ég vildi mælast til þess, að við þessa 1. umr. yrðu menn ekki langorðir úr hófi fram, því það gefst tækifæri til að tala um einstök atriði málsins við 2. umr.