10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Magnús Torfason:

Ég geri ekki mikið úr þeirri breyt., sem frv. þetta hefir tekið í Ed. Ég hefi áður látið það í ljós, að ég tel ákvæði 1. gr. frv., um skyldu lækna til þess að upplýsa konur um getnaðarvarnir, vera nokkuð frekt. Og við nánari athugun málsins hefi ég styrkzt í þeirri skoðun. Ég lít svo á, að þetta sé blettur á frv., og eins og það nú er orðað, blátt áfram svívirðilegt í garð kvenþjóðarinnar. En við þessa umr. vildi ég benda á, að ég fæ ekki séð, að neitt aldurstakmark að neðan sé sett hvað þessar konur snertir, sem eiga heimtingu á því að fá þessar upplýsingar. Það væri þá helzt, að konan þyrfti að vera staðfest að gömlum og góðum landslögum og hafa náð fullum fjórtán ára aldri. Til skamms tíma hefir það varðað við hegningarlögin að skipta sér af yngri stúlkum en 16 ára. En þessar konur, sem að áliti löggjafans eru börn, eiga að geta farið til lækna og heimtað allar upplýsingar viðvíkjandi þungunarvörnum. Ég býst við, að hv. n. hafi ekki athugað nægilega þetta atriði. Ég vil því fastlega mælast til þess, að málið verði nú tekið út af dagskrá og allshn. bæti við ákvæði um þetta atriði.

Þá vil ég geta þess, að 11. gr. virðist vera túlkun á hegningarlögunum. Slíkt hefir ekki komið fyrir síðan á einveldistímunum; þá skeði það, að konungur fór að túlka með bréfi lög, sem hann sjálfur hafði gefið. Síðan hefir þetta ekki komið fyrir, enda er það algild regla, ef lög eru ekki nógu skýr, að setja verður ný lagafyrirmæli, sem taka af öll tvímæli. Yfirleitt held ég, að þetta frv. hefði öllum að skaðlausu mátt daga uppi á þessu þingi, einkum þegar það er játað af flm., að ástandið sé í þessum efnum mun betra hér en í þeim öðrum löndum, sem við er miðað. Ég vil strika undir það, sem ég sagði við 2. umr., að lög sem þessi þekkjast ekki með kristnum þjóðum. Ég tel mjög viðurhlutamikið fyrir smáþjóð eins og okkur Íslendinga að ganga fram fyrir skjöldu í slíku máli sem þessu, meðan það er algerlega í óvissu, hvort þessar ráðstafanir verða til góðs eða valda tjóni.