09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Jónsson:

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði í lok ræðu sinnar, vil ég lýsa yfir því, að ég viðurkenni ekki að hafa í ræðu minni farið út fyrir þau mörk, sem látin eru takmarka umr. við 1. umr. mála. Ég fór ekki út í einstök atriði frekar en nauðsyn bar til, en ræddi málið á almennum grundvelli, benti á, að hverju leyti ég teldi frv. gott og að hverju leyti ég teldi breytinga þörf, sem sé að því er snertir framleiðslu mjólkur innan lögsagnarumdæmis Rvíkur. Get ég því ekki fallizt á, að ég hafi lengt umr. um hóf fram. Verð ég að segja, að mér finnst engan þurfa að furða það um þetta gamla ágreiningsmál, þó að haldin sé um það ein ræða við 1. umr.

Mér þótti hin margprísaða lipurð hæstv. ráðh. skríða í felur í síðari ræðu hans. Nú gildir ekkert annað en hnefinn í borðið og svona skal það vera. Landið skal skiptast í verzlunarumdæmi eins og hér fyrr á öldum, þegar Hólmfastur var hýddur við staur og annað var eftir því. Þá var það síður, þegar vandræði steðjuðu að, að stjórnin skipulagði allt í rústir. Stefnan er sú sama nú, þó að útfærslan hafi ef til vill lánazt eitthvað betur.

Hæstv. ráðh. var enn að verja útgáfu bráðabirgðal. um þetta efni með því að reyna að sýna fram á, hvað n. hefði gert til undirbúnings málinu. En það starf mun ekki hafa verið ýkjamikið, þar sem heill mánuður leið frá setningu bráðabirgðal. þangað til n. var stofnuð. Þegar svo hæstv. ráðh. fór að lýsa störfum n., þá heyrði ég ekki eitt atriði í þeirri upptalningu, sem krefðist lagabreytinga. Hæstv. ráðh. kemst ekki kringum það, að hann hefir seilzt út fyrir nauðsynina með setningu þessara bráðabirgðal. En ég get látið útrætt um það.

Þá undrar það mig, hversu mjög hæstv. ráðh. hugsar í flokkum. Held ég, að hann hafi komið að því fjórum sinnum í síðari ræðu sinni, að form. Sjálfstfl. hafi borið fram till., sem ég hafi talað á móti. Við erum ekki með nein handjárn í Sjálfstfl. Veit ég ekki, hvernig hæstv. ráðh. hugsar. Hann spyr, hver sé stefna Sjálfstfl. í mjólkursölumálinu. Ég svara: Skoðun hvers þm. innan flokksins. Þetta finnst væntanlega hæstv. ráðh., sem er vanur handjárnum, alveg ógurlegt. Ég get skilið það. En nú vil ég líka spyrja hæstv. ráðh.: Hver er stefna Framsfl., t. d. í bannmálinu? Hefir lukkazt að setja svo handjárn á alla framsóknarmenn, að enginn megi þar hafa skoðun á nokkru máli, hversu smátt sem er?

Ég hefi yfirleitt aldrei heyrt neinn þm. tala hér á Alþingi, sem hugsaði eins mjög í flokkum og hæstv. ráðh., því að hann heldur sig geta drepið mál með því að sýna fram á, að form Sjálfstfl. hafi einhverntíma borið fram frv., sem ég hafi verið á móti. En hversu leitt sem það kann að vera fyrir hæstv. ráðh., þá eru nú samt ekki enn komin á okkur handjárn.

Þá færði hæstv. ráðh. það sem ástæðu gegn því, að aðrar reglur giltu um mjólkurframleiðendur innan lögsagnarumdæmis Rvíkur og utan, að Seltirningar ættu t. d. auðveldara um að koma sinni mjólk óskemmdri á markaðinn en ýmsir framleiðendur innan lögsagnarumdæmis Rvíkur. Þetta er rétt, og verður aldrei hægt að draga svo neina línu, að hvergi verði ósamræmi. En það hafa líka komið fram ákveðnar till. um, að Seltjarnarnes yrði lagt undir bæinn, vegna þess, hvað það ætti margt sameiginlegt við Rvíkurbæ. Ég hefi reyndur alltaf verið á móti þessu, því að eins og ég er fylgjandi sjálfsákvörðunarrétti þjóðanna, vil ég að Seltirningar ráði þessu sjálfir. Þetta kemur líka vafalaust á sínum tíma. En þó að l. geti ekki komið fullkomlega rétt fram gagnvart öllum, er þó sjálfsagt, að sú reglan gildi um hvora, innan- og utanbæjarframleiðendur, þar sem um gerólíkar ástæður er að ræða.

Þá sagði hæstv. ráðh., að þessi l. um gerilsneyðingarskyldu, söluskyldu og verðjöfnunarskyldu væru jafnt í þágu allra framleiðenda. Ef svo er, þá er það undarlegt, hve menn eru misjafnlega þakklátir því, sem fyrir þá er gert. Ég var t. d. á fundi í fyrradag, þar sem ég held, að flestir mjólkurframleiðendur í Rvík hafi verið saman komnir. Heyrði ég þar ekki eina rödd, sem mælti þessum l. bót. Var það einróma álit manna, að ef þessi l. kæmu til framkvæmda, þá yrði það til þess að leggja í rústir þessa atvinnugrein innan Rvíkur.

Í blöðum þeim, sem næst standa hæstv. ráðh., hefir því verið haldið fram, að samkomulag hefði náðst um þetta mál fyrir einskæra lipurð hans. Mér kom á óvart að sjá þar orðið lipurð. Og dæmi það, sem ég nefndi, sýnir, hverskonar samkomulag hér er um að ræða.

Hæstv. ráðh. sagði, að verðjöfnunarskatturinn væri nauðsynlegur til þess að verjast verðhruni mjólkurinnar. Ég viðurkenni, að hann geti gert gagn í því að halda verðinu uppi. Ég hefi heldur ekkert á móti því, að þeir, sem flytja mjólk til Rvíkur, komi sér saman um, með hverjum hætti þeir vilji hafa mjólkursöluna, komi sér saman um sölumiðstöð, gerilsneyðingu og annað. Ég hefi ekkert á móti því, að þeir jafni með sér verð mjólkurinnar. En það er að mínum dómi óréttlátt, að leggja þessar kvaðir á þá, sem búa innan markaðssvæðisins. Markaðurinn í Rvík miðast ekki við alla þá mjólk, sem þar er notuð, heldur mismun þess, sem neytt er og framleitt í bænum.

Ég er nú ekki kunnugur ástandinu á Akureyri eða ástæðunum fyrir því, að dreifingarkostnaður er þar svo lítill. Þætti mér ekki ólíklegt, að útreikningarnir væru eitthvað skakkir, en ef svo er ekki, þá hlýtur Kaupfélag Eyfirðinga að hafa aðstöðu til þess, t. d. vegna annars atvinnurekstrar síns, að lækka þennan kostnað. Hann er svo lítill, að ég held ekki, að allt geti verið með felldu. Jafnvel formælendum málsins dettur ekki í hug, að kostnaðurinn geti komizt niður í 6 aura hér. Veit ég, að þegar þessi l. eru búin að vera nokkurn tíma í framkvæmd, þá hlæja menn að þessari áætlun hæstv. ráðh. Dreifingarkostnaður verður aldrei undir 10 aurum, ef hann fer þá niður úr 14 aurum. Hann sagði, að nýlega hefðu tveir stórframleiðendur mjólkur komið inn í mjólkursamlagið. Getur það vel verið um þá stóru, að þeir hafi gagn af að vera innan þess, en smáframleiðendur hafa svo lítinn dreifingarkostnað, að hann er ekki teljandi. Verður hann oft enginn. Til dæmis er eitt fjós í nánd við mig, og streymir þangað fólk hvarvetna að með fötur. Þetta er alveg heilbrigt ástand. Fólk fær beztu vöru, nýja og óskemmda án nokkurs kostnaðar. Ef heilbrigðiseftirlit er gott, þá er þetta fyrirkomulag óaðfinnanlegt. Og svo á að fara að leggja 160—200 þús. kr. í kostnað til þess að afnema þetta ástand.

Hæstv. ráðh. sagði, að verðjöfnunarskatturinn myndi stuðla að aukinni ræktun. Ef ég hefði t. d. 8 kýr og 3 ha. ræktaðs lands, myndi ég flýta mér að koma ræktuninni upp í 8 ha., til þess að verða skattfrjáls. Þetta getur litið nógu laglega út við fyrstu sýn. Þetta kemur allt heim, ef ekki koma til greina fleiri atriði en í dæminu eru nefnd. En þegar jafnframt á að leggja á menn stórgjöld fyrir að fá að selja mjólk og gerilsneyða, þá munu fáir geta beðið þangað til þeir hafa ræktað þessa 8 ha. og eru orðnir skattfrjálsir.

Hér umhverfis Rvík hafa verið ræktuð upp grýtt holt og fúamýrar, svo að nú eru þar komnir fallegustu blettir. Og nú á, fyrir einskærun þráa sumra manna, að binda enda á þessa þróun, því að sumir þeir, sem þessa ræktun hafa framkvæmt, verða settir í gjaldþrot vegna skulda, sem atvinnurekstur þeirra getur ekki lengur risið undir við þessar nýju álögur. Væri fróðlegt að vita, hvað bankarnir segðu um þetta.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta má. Ég heyrði, að hv. 2. þm. Eyf. kvaddi sér hljóðs. Mun hann ætla að upplýsa eitthvað um dreifingarkostnaðinn hjá Eyfirðingum, en ég býst ekki við, að þær upplýsingar hafi nein áhrif á mína skoðun.

Að lokum ætla ég að láta í ljós þá ósk, að hv. landbn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, líti með velvilja til þeirra aths., sem ég hefi gert hér, og þoki frv. í þá átt, sem ég hefi lagt til, að gert yrði.