09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Einar Árnason:

Ég ætla að segja nokkur orð út af annari ræðu hv. 1. þm. Reykv., um Kaupfélag Eyfirðinga og Mjólkursamlag Akureyrar. Það vill svo vel til, að ég hefi í vasanum skýrslur um starf Mjólkursamlagsins 1933. Af því að hv. 1. þm. Reykv. vefengir reikninga Mjólkursamlagsins og kaupfélagsins, er nauðsynlegt að gefa nokkrar skýringar, því að það kom greinilega fram, að hv. þm. veit ekki, um hvað hann er að tala. Hann kastar fram órökstuddum ummælum og tortryggir reikninga samlagsins. Mjólkursamlagið er sjálfstæð stofnun og hefir sjálfstætt reikningshald. það ber sjálft uppi allar skuldir, er á því hvíla, og greiðir af þeim vexti og afborganir. Hv. þm. kastaði fram þessum ummælum út af kostnaði þeim, sem Reykvíkingar myndu hafa af því að gerilsneyða mjólk sína og dreifa henni út til kaupenda frá sérstakri miðstöð. Gerði hann mikið úr því, hvílíkur kostnaður myndi af þessu stafa. Ég ætla því að upplýsa það, að allur kostnaður Mjólkursamlagsins 1933 varð 5,8 aurar á lítra, að meðtöldum dreifingarkostnaði út um bæinn til neytenda. En dreifingarkostnaðurinn út af fyrir sig nam 2 aurum á lítra. Samlagið lætur dreifinguna í akkorð, og fá þeir menn, sem hana annast, 2 aura á lítra, og verða þeir þá að ábyrgjast að greiða bætur fyrir flöskur, sem ekki er skilað aftur heilum. Getur það því ekki náð nokkurri átt, sem hv. þm. sagði um kostnað þann, sem verða myndi af gerilsneyðingu og dreifingu mjólkur í Rvík.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara mjög út í ræðu hv. þm. En orð hans um Mjólkursamlag Akureyrar eru sýnishorn af því, hversu ábyggilegt það er yfirleitt, sem hann ber fram í þessu máli. Hv. þm. er ákaflega ófróður um þessi mál, — og hvernig ætti annað að geta verið um mann, sem aldrei hefir komið nærri þessum hlutum? Þessi mál eru flóknari en svo, að um þau sé hægt að dæma af engri þekkingu. En frv. það, sem hér liggur fyrir, er eina lausnin á þeim, sem um er að ræða. Ég segi ekki, að ekki megi breyta því til bóta í einstökum atriðum, en aðalstefna þess er áreiðanlega rétt.