13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl]:

Ég ætla að svara nokkrum orðum því helzta, sem hefir komið fram til andmæla gegn þessu frv., sem hér liggur fyrir, án þess að ég vilji blanda mér inn í þær umr., sem hafa farið fram milli hv. frsm. meiri og minni hluta og út af nál.

Það kom fram hjá hv. 10. landsk., að hann áliti frv. að ýmsu leyti breytt til hins verra frá því, sem það var, þegar n. gekk frá því. Rökstuðningur kom ekki fram fyrir þessu, enda býst ég við, að þessi staðhæfing sé byggð á nokkuð hæpnum röksemdum, vegna þess að maðurinn, sem gekkst aðallega fyrir þessu, var Ingimar Jónsson. Hann var fenginn til að fara í gegnum frv. eins og það kom frá n., með mjög góðum lögfræðingi, til þess að athuga það að efni til og ganga frá því að öðru leyti. Eins og n. gekk frá frv. í upphafi, voru nefndar þar ýmsar stofnanir, sem gert var ráð fyrir, að kæmu seinna í frv., en ekki búið að ákveða í sjálfu frv., hvaða valdsvið þær hefðu áður en þær eru nefndar í gr. frv. Þetta var óviðkunnanlegt form, sem varð að lagfæra. Ingimar Jónsson gekk í gegnum frv. með þessum lögfræðingi, enda álít ég, að þeir hafi gengið betur frá frv. en gert var af n.

Þá minntist hann á einstakar gr. frv., að þær væru ekki nægilega ljóst orðaðar, en samt gat hann vitanlega komizt að meiningu þessara gr. án þess að beita nokkrum lögskýringum. Hann hefir því þar sannað það sjálfur, að frv. er ekki óljóst orðað, fyrst og fremst með því, að það var engum vandkvæðum bundið fyrir hann að skilja, hvað var meint í hverri gr., án þess að hann þyrfti að beita nokkrum lögskýringum. Í öðru lagi er það, að ég hefi ekki séð hann koma með brtt. í þessa átt, sem stafar af því, að honum þykir sæmilega greinilega gengið frá þessum ákvæðum.

Hann minntist sérstaklega á 3. gr. frv., um seljendur mjólkurinnar. Það gefur að skilja, að þetta orð „seljendur“ mjólkurinnar er ómögulegt að misskilja. Þarna er rætt um það, að seljendur mjólkurinnar eigi að greiða verðjöfnunargjald. Með þessu er vitanlega átt við þá, sem selja mjólkina til mjólkurhreinsunarstöðvar. Þar getur ekki verið um aðra að ræða, eins og hann benti á í framsöguræðu sinni, því að þegar mjólkin er gengin í gegnum búin og gengur síðan í gegnum sölumiðstöð, þá getur sú sala, sem þar fer fram, ekki verið undanþegin verðjöfnunarskatti, enda komst hann að þeirri niðurstöðu sem rétt var. Það er því engum blöðum um það að fletta, að þetta ber að skilja eins og hann gerði.

Það getur hinsvegar verið meira vafaatriði og skipt nokkru máli, hvernig orðað verði niðurlag 4. gr., sem hann talaði um. Ég vil orða gr. eins og þar er gert, en ekki fallast á þá brtt., sem hann ber fram við hana ásamt hv. 2. þm. Rang. Þar er í raun og veru gengið nokkuð inn á aðra braut viðvíkjandi þessu löggjafarákvæði en gert er í kjötlögunum, þar sem tekið er fram, að við ákvörðun verðlagsins skuli fyrst og fremst tekið tillit til framleiðslukostnaðar og kaupgetu. Hér er lagður nokkuð annar grundvöllur. Það getur átt sér stað, að það verði hér með mjólkina svipað og í Englandi. Þar hefir þeirri reglu verið fylgt, að mjólkurverðið hefir verið miðað við kaupgetu og framleiðslukostnað, en vegna þess, hvað þeir hafa orðið að vinna mikið úr afgangsmjólk, sem þeir hafa fengið tiltölulega lágt verð fyrir, þá hafa þeir nú í seinni tíð tekið upp þá aðferð að hefja sérstakt „propaganda“ fyrir sölu mjólkur og selja hana ódýrara, til þess að auka söluna, t. d. í skólum. Þetta borgar sig þar, sem verð fyrir vinnslumjólk er lágt. Þar getur borgað sig að nota þannig nokkuð af mjólkinni til að auka söluna. Ég held því, að það verði eðlilegast að fylgja sömu reglum í þessum l. og hefir verið viðvíkjandi sölu kjöts, en ekki binda þetta eins og gert er með þessari brtt.

Hin brtt., sem fyrir liggur, er aðeins breyt. á orðalagi. Ég skal taka það fram, að hv. 10. landsk. lýsti því með ákaflega sterkum fullyrðingum, hvað vel hefði verið gengið frá frv. frá n. Það voru teknar upp tvær gr. orðréttar úr frv. n., og önnur þeirra er þessi 11. gr., sem hann hefir nú séð ástæðu til að koma fram með brtt. við, vegna þess að hún sé ekki nægilega vel orðuð, þó að hún sé orðrétt frá hendi n. Ég álít, eins og ég sagði, að frv. geti engum misskilningi valdið. Það má deila um það, hvort þetta orðalag sé til bóta; það getur verið, að það sé heldur betra, en ég sé þó ekki betur en að gr. sé þannig nú, að hún megi standa eins og hún er. Ég álít því, að réttast sé að fella báðar þessar brtt., sem hér liggja fyrir, því að hvorug þeirra er til bóta. Brtt. við 11. gr. er þó meinlaus, því að þar er aðeins um orðabreyt. að ræða.

Þá komu hér fram nokkrar aths. frá hv. 1. þm. Reykv., og það var náttúrlega það sama og var rætt m. a. í Nd., að hve miklu leyti þessi l. snertu hagsmuni Rvíkur og þeirra, sem framleiða mjólk í nágrenni Rvíkur. (MJ: Er búið að ræða þetta í Nd.?). Það vildi svo til, að þegar kjötlögin voru til umr. í Nd., þá var þetta atriði dregið inn í þær umr. og rætt af hv. 3. þm. Reykv. viðvíkjandi þessu er ekki að búast við, að komizt verði að niðurstöðu, sem allir verði sammála um.

Ádeilur hv. 1. þm. Reykv., að við með frv. þessu vildum drepa niður mjólkurframleiðsluna í nágrenni Rvíkur, hitta líka hans eigin flokksmenn, eins og t. d. hv. 2. þm. Rang., sem hefir lýst yfir fylgi sínu við frv. Að ég ekki tali um núv. form. Sjálfstfl., sem flutti í fyrra hér á Alþingi frv., sem gekk í sömu átt og þetta, og að sumu leyti lengra, þar sem átti að leggja 2 aura verðjöfnunargjald á hvern lítra mjólkur, sem framleiddur var hér í nágrenni Rvíkur., Það er því ekki með neinum rétti hægt að halda því fram, að við framsóknarflokksmenn séum með þessu sérstaklega að níðast á Reykvíkingum, því að sjálfstæðismenn eiga hér óskipt mál, og ganga að sumu leyti lengra. Að því er snertir mjólkurframleiðendur í Rvík og nágrenni, geta menn aldrei verið á sama máli um það, að hve miklu leyti þetta nýja fyrirkomulag geti orðið þeim til hagsbóta og að hve miklu leyti til hins verra. Það er allt af deilt um, hvernig fara myndi, ef til mjólkurstríðs kæmi, hvort framleiðendur hjá Rvík myndu halda betur út en austanmenn. Ég hefi bent á það hvað eftir annað, hversu framleiðslukostnaðurinn er mikill hér í nágrenni Rvíkur, og að þeir, sem hér búi, standi því eðlilega verr að vígi heldur en hinir, sem hafa ódýrari framleiðslu. Af sömu rökum ættu þeir því að verða undir í mjólkurstríði við austanmenn, ef til slíkra hluta kæmi. Annars myndi mjólkurstríð sennilega fara svo, að báðir myndu tapa, því að baráttan myndi kosta mikla peninga, sem framleiðendur og neytendur yrðu svo að borga síðar. Ég held því, að allt tal um það, að framleiðendum hér sé sérstaklega íþyngt með þessu nýja skipulagi, hafi við lítil rök að styðjast. Þvert á móti munu þessi nýju lög geta orðið þeim til hagsbóta, ekki síður en hinum, sem fjær búa.

Í raun og veru hefir það verið svo hér, að undanfarið hefir verið rekið fullkomið mjólkurstríð. Það hafa verið 103 mjólkurbúðir, og þar af 80 löggiltar. Geta því allir séð, hvað slíkt fyrirkomulag hefir kostað neytendur og framleiðendur umfram það, sem þörf var á. Þó hefir mjólkurverðinu verið haldið í skefjum af Mjólkurbandalagi Suðurlands, sem hefir verið að reyna að finna leið út úr þessu öngþveiti, allt á kostnað manna fyrir austan, en til hagsbóta fyrir framleiðendur hér. Hefir mjólkurstríðinu þannig að nokkru leyti verið skotið á frest. En það var ekki hægt að halda þessu lengur áfram, því að það er ekki eðlilegt, að framleiðendur austanfjalls haldi mjólk sinni lengur frá markaðinum hér án þess að fá eitthvað í staðinn. Bezta lausnin á þessu máli verður því sú, sem frv. felur í sér, að framleiðendur í nágrenni Rvíkur fái tryggðan markaðinn hér, en borgi aftur verðjöfnunargjald til hinna, sem verða að láta vinna úr mjólk sinni að miklu leyti. Væri þetta gjald aftur látið falla niður, þá félli um leið niður ástæðan fyrir þá, sem fjær búa, að halda mjólk sinni frá markaðinum hér. Því hefir verið haldið fram, að það kostaði mjólkurframleiðendur hér í nágrenni Rvíkur mikið fé að selja mjólk sína gegnum mjólkurstöðvar, vegna gerilhreinsunar og dreifingar, sem þeir hefðu verið lausir við og gætu verið lausir við, þar sem þeir hefðu útbýtt mjólk sinni sjálfir. Þessi ástæða fellur af sjálfu sér, þegar þess er gætt, að þessir framleiðendur hafa einmitt orðið að kaupa flutning á mjólkinni hingað, auk þess dreifingu og innheimtu, að nokkru leyti a. m. k., sem ég hefi fyrir satt, að hafi numið um 5 aur. pr. lítra. Til samanburðar má t. d. geta þess, að hjá K. E. A. hefir dreifingar- og gerilsneyðingarkostnaður numið 5,8 aur. pr. lítra. Hvort það tekst að koma þessum kostnaði svona langt niður hér, veit ég ekki, en við vonum, að hann komist langt niður. Auk þessa kostnaðar, sem ég nú hefi greint, verða þeir framleiðendur, sem selja beint, að kosta miklu fé til þess að hafa framleiðsluna sem jafnasta allt árið. Stafar það af því, að þeir hafa fasta kaupendur og verða að fullnægja mjólkurþörf þeirra á hverjum tíma. Þetta mun kosta þá 1—2 aura pr. lítra. Verði frv. samþ., þá fellur þessi kostnaður niður, því að þá verður ekki nauðsynlegt fyrir þá að hafa framleiðsluna jafna árið um kring; þeir hafa þá enga fasta viðskiptamenn, þar sem þeir yrðu að selja gegnum mjólkurstöð, og verður þá alltaf hægt að bæta við mjólk að austan til þess að fullnægja þörfinni. Hér getur því orðið hagnaður fyrir framleiðendur hér, án þess að það kosti aðra nokkuð. Stærsta atriðið fyrir framleiðendur hér er þó það, að með þessu eina móti, að greiða verðjöfnunargjaldið, geta þeir haft markaðinn hér í Rvík vissan.

Þá má benda á það, að mjólkurframleiðendur hér í grennd við Rvík hafa jafnan verið háðir Mjólkurfélagi Rvíkur. Það verða allt af hjá þeim meiri og minni afgangar af mjólk, sem þeir verða að koma í vinnslu hér. Það er því engum efa undirorpið, að svo framarlega sem þetta ástand verður ekki lagfært, því mun draga að því, að mjólkurframleiðendur hér yrðu að koma upp sinni eigin vinnslustöð, og þá myndi það sýna sig, að það yrðu miklir afgangar suma daga, sem taka yrði til vinnslu, ef mjólkurstríð væri komið. En það væri óneitanlega mikið öfugstreymi hlutanna, ef mjólk, framleidd hér í nágrenni Rvíkur, yrði vinnslumjólk, meðan seld væri hér mjólk, sem flutt væri hingað langan veg með ærnum kostnaði. Það er því sama, hvernig sem á mál þetta er litið, þá verður því ekki neitað með neinum rökum, að á því er tekið með fyllstu sanngirni, bæði að því er snertir þá, sem búa hér í grennd, og hina, sem búa lengra frá, og að hið nýja fyrirkomulag verður til hagsbóta fyrir báða, ef vel tekst að framkvæma það. Eftir að hafa kynnt mér þetta mál eins og ég nú hefi gert, þá segi ég óhikað, að ef ég ætti eftir að búa hér í nágrenni Rvíkur, þá teldi ég mig miklu öruggari undir þessu nýja fyrirkomulagi heldur en ef mjólkurstríð væri sífellt yfirvofandi, sem yrði öllum til ógagns.

Þá sný ég mér loks að framkvæmd gömlu mjólkurlaganna, sem hér giltu, enda þótt það sé leiðinlegt að draga umr. um þau inn í umr. um þessi lög, því að þau koma þeim mjög lítið við. — Hv. 10. landsk. vildi halda því fram, að það hefði verið mín sök, að þau lög væru ekki framkvæmd. Að ég hafi ekki viljað framkvæma þau, eins og hv. þm. sagði, er algerlega rangt. Í þessum gömlu lögum segir svo, að þau komi þá fyrst til framkvæmda, þegar búið sé að löggilda nægilega mörg fullkomin mjólkurbú. Lögin gengu í gildi vorið 1933, en það var ekki farið að hugsa um að framkvæma þau þegar kom fram undir jól í fyrra, en þá kvartaði Mjólkurfélag Rvíkur yfir þessu. Var þá farið að hefjast handa um framkvæmd laganna, en þá kom í ljós, að engin löggilt mjólkurbú voru til. Þáv. atvmrh. vildi þá halda því fram, að með því að veita mjólkurbúunum fjárstyrk hefðu þau verið viðurkennd sem fullkomin mjólkurbú. En nú var sá galli á gjöf Njarðar, að t. d. Mjólkurbúið á Korpúlfsstöðum hafði aldrei fengið neinn styrk, og var því samkv. þessu ekki löggilt mjólkurbú. Þegar svo einn smákaupmaður var kærður fyrir brot gegn l. þessum, var þegar augljóst, að þessi löggilding, að veita búunum styrk, var einskis virði. Löggilding búanna varð vitanlega að fara fram opinberlega, vegna alls almennings, sem eftir lögunum átti að fara. Þetta hafði ég bent atvmrh. á, en hann vildi ekki ganga inn á það. Samkv. þessu sýknaði ég því mann þann, sem kærður var fyrir brot gegn lögunum. Þegar hér var komið, gaf atvmrh. út auglýsingu í Lögbirtingablaðinu um löggilding mjólkurbúanna, sem svo var sent út um allan bæ í skyndingu. — Mjög fljótlega eftir að auglýsing þessi hafði verið birt var annar maður kærður fyrir brot gegn þessum lögum. Þann mann dæmdi ég að sjálfsögðu sekan. Það liggur nú alveg beint fyrir, að atvmrn. hefði ekki farið að gefa út þessa auglýsingu, ef það hefði álitið þá skýringu rétta, að búin hefðu verið löggilt með styrkveitingunni. Þá viðurkenndi dómsmrn. líka, að dómur minn yfir manni þeim, er fyrst var kærður, hefði verið réttur, þar sem það áfrýjaði honum ekki. Það bendir ótvírætt til þess, að það hafi litið svo á, að lögin gætu ekki komið til framkvæmda fyrr en löggilding hefði farið fram. Hinum dómnum, sem dæmdur var eftir að auglýsingin hafði verið gefin út, var áfrýjað til hæstaréttar og staðfestur þar. Önnur afskipti hafði ég ekki af þessu máli að því er snertir þáv. atvmrh.

Þá vil ég með nokkrum orðum svara hv. 1. þm. Skagf. Hann sagði, að ég hefði farið með vísvitandi ósatt, er ég hélt því fram, að hann hefði stöðvað framkvæmd mjólkurlaganna. Um þetta mál hefir mikið verið skrifað, og er því flestum kunnugt um. hver maður sá var, sem málið snerist aðallega um. Þar sem hér var líka aðeins um lögreglubrot að ræða, þá get ég gjarnan lesið upp úr bréfum þeim, sem fóru á milli mín og ráðuneytisins um málið. Eftir að ég hafði dæmt Jafet Sigurðsson fyrir að selja ógerilsneydda mjólk, skrifaði ég ráðuneytinu og spurðist fyrir um það, hvort ég ætti að láta fullnægja dómnum, þar sem maðurinn hefði áfrýjað málinu til hæstaréttar. Að ég spurðist fyrir um þetta, var fyrst og fremst af því, að eins og hv. 1. þm. Skagf. veit, er allt af mjög deilt um það, hvort yfirleitt eigi að fullnægja dómum á meðan þeir eru undir áfrýjun, og í öðru lagi fannst mér rétt að spyrjast fyrir um þetta, þar sem þetta var fyrsti dómurinn, sem kveðinn var upp samkv. lögunum. Þá var það líka, að gefa átti út reglugerð m. a. um barnamjólk, og taldi hinn dæmdi, að mjólk sú, er hann seldi, gæti fallið undir hana. Var svo beðið eftir svari viðvíkjandi fullnægingu dómsins, og skal ég nú lesa upp niðurlag svarbréfsins. Það hljóðar svo: „Jafnframt tekur ráðuneytið það fram, að lögreglustjóranum ber auðvitað að sjá um, að enginn selji mjólk gegn skýlausum fyrirmælum laga nr. 97 frá 1933, hvað sem líður áfrýjun þess, máls“. Í bréfinu er enginn stafur um það, hvort fullnægja eigi dómnum eða ekki. Heldur aðeins að lögreglustjóranum beri að fylgja skýlausum fyrirmælum mjólkurlaganna. En hver voru nú hin skýlausu fyrirmæli þessara laga meðan dómur hæstaréttar var ekki fallinn í hinu áfrýjaða máli? Ég held, að þau hafi verið mjög vafasöm hvað þetta snertir.

Hinn 26. febr. fæ ég svo aftur bréf frá ráðuneytinu. Þar segir svo: „Er þess beiðzt, að þér annist fullnustu dómsins að öllu leyti og endursendið síðan dómsgerðina hingað með áritun yðar um fullnustuna“. Þetta er nákvæmlega sama fyrirskipunin sem lögreglustjóri fær jafnan um fullnustu dómur. Í þessu bréfi er ekkert minnzt á það, að ég hafi fengið fyrirskipun áður um að láta fullnægja þessum dómi. Þetta bréf er einungis ritað þannig til þess að hægt sé að snúa því til leggja handa.

Ef ég hefði t. d. framfylgt dómnum, hefði verið sagt, að aldrei hafi verið ætlazt til, að þessum dómi væri fullnægt. En þegar ég svo framfylgdi honum ekki, er sagt, að þetta hafi átt að þýða það, að framfylgja skyldi dómnum. Ég gæti komið með heilan bunka af fyrirskipunum um að fullnægja dómum, og engin þeirra er orðuð á þennan veg. — Eftir að þessu sleppir kemur svo fyrirskipun um það, að fullnægja skuli dómnum, án þess að tekið sé fram, að um það hafi verið gefin fyrirskipun áður, sem skylt hefði verið að gera, ef svo hefði verið. — Þá gerðum við heilbrigðisfulltrúi fyrirskipun um það, að athugað skyldi í hverri mjólkurbúð, hvort seld væri ógerilsneydd mjólk. Síðan er mjólkursalan stöðvuð nema í 3 búðum, sem halda áfram að selja ógerilsneydda mjólk. Þá spyrjumst við fyrir um það hjá dómsmrn., þegar þessi maður, sem hlut átti að máli, er kallaður fyrir í maímánuði, hvort loka megi búðum hans. Þetta gerðum við af sömu varúðarráðstöfunum, eins og þegar við spurðum um það, hvort ætti að fullnægja dómnum, sem var undir áfrýjun, því ef fullnægt hefði verið dómnum og honum hefði svo verið hrundið í hæstarétti, var búið að valda einstökum mönnum tjóni, sem skipti kannske tugum þúsunda, og hefði það vitanlega komið á mitt bak, ef ég hefði ekki haft hreina fyrirskipun frá ráðuneytinu sjálfu um að fullnægja dómnum. Þess vegna datt mér ekki í hug að gera það, þegar ég fékk ekki fyrirskipanir um það. En þegar þessi maður hlýddi ekki, lét ég fulltrúa minn spyrjast fyrir um það, hvort loka mætti hjá honum, og gerði ég það vegna þess, að í búðunum var selt margt annað en mjólk, t. d. brauð og ýmislegur annar varningur, en það stendur ekkert um það í 1., hvað eigi að gera, ef þeir, sem sektaðir eru, láta sér ekki segjast við það. Það var því ábyrgðarhluti fyrir mig að fullnægja dómnum, nema ég hefði dómsmrn. á bak við mig. Þess vegna lét ég fulltrúa minn hringja til þáv. dómsmrh., Magnúsar Guðmundssonar, og spyrjast fyrir um það, eftir að búið var að kalla þennan mann fyrir rétt, hvort loka ætti búðum hans. Þá var því svarað af dómsmrh., að þetta mætti bíða fyrst um sinn, þangað til hann gæfi aðra fyrirskipun. — Til þess að sýna, að hér sé ekkert vafamál á ferðinni, ætla ég að lesa upp embættisvottorð frá fulltrúa mínum um þetta atriði, til þess að sýna og sanna að það var ekki ég, sem stöðvaði framkvæmd mjólkurl. Þetta var sérstaklega borið á mig, þegar ég var í framboði norður á Ströndum, og þess vegna fékk ég embættisvottorðið, sem hljóðar svo:

„Hermann Jónasson lögreglustjóri.

pt. Kaldrananesi.

Eftirfarandi vottast:

Kristján Jóhannssson mjólkursali var sektaður 16. apríl s. l. fyrir ólöglega mjólkursölu. Hinn 18. þ. m. hafði lögreglustjórinn komizt að því, að Kristján hélt hinni ólöglegu sölu áfram, og fól hann mér þá að koma fram ábyrgð gegn honum og gera þær ráðstafanir, sem tiltækilegar væru til þess að hindra söluna. Ég kallaði þá Kristján fyrir þann 19. þ. m. en þá fékk hann af skrifstofu minni að tala í síma við dómsmálaráðh., sem síðan í símtali tjáði mér, að málið mætti bíða, unz hann tilkynnti mér, hvað gera skyldi í því, en fyrirskipun þar að lútandi er ókomin.

Jónatan Hallvarðsson“.

Í þessu vottorði sést, að ég gaf fulltrúa mínum fyrirskipun um að fullnægja mjólkurl. Maðurinn flýr þá á náðir dómsmrh., sem gefur þá fyrirskipun, sem talað er um í vottorðinu.

Nú getur hv. 1. þm. Skagf. náttúrlegu borið á þennan embættismann, að hann hafi gefið falsvottorð um það, sem farið hefir fram á hans skrifstofu. En með öðru móti er ekki hægt að komast að mér með það, að ég hafi staðið á móti framkvæmd mjólkurl. (MG: En allur tíminn frá 29. des. til maí?). Ég er búinn að fara í gegnum þennan tíma, og það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að vera að slíta sannanakeðjuna, sem hann nú er að bogna undir. Ég er búinn að sanna þetta svo rækilega, að ég býst ekki við, að hv. þm. detti í hug að standa upp aftur. En ég get samt komið með ennþá sterkari sannanir, því þegar fulltrúi minn fær ekkert svar, skrifar hann bréf 1. júní, sem ég hefi hér með höndum og skal lesa upp:

„... Leyfi ég mér því hér með að æskja fyrirmæla hins háa ráðuneytis um það, hvort gera skuli aðrar ráðstafanir gagnvart kærða en að beita sektarákvæðum viðkomandi l. til þess að hindra hina ólöglegu mjólkursölu, t. d. að loka búðum hans, en jafnframt skal það tekið fram, að kærði auk ógerilsneyddrar mjólkur selur brauð og annan bakarísvarning í búðum sínum“.

Þegar svo fulltrúanum leiðist eftir svari, ítrekar hann við ráðuneytið, hvort loka megi búðunum, hvort ráðuneytið standi á bak við það.

Þá kemur loks bréf nokkrum dögum eftir kosningar, dagsett 21. júlí. Þar segir á þá leið, að þetta, sé ráðuneytinu óviðkomandi, en vitanlega beri lögreglunni að sjá um að 1. sé framfylgt.

Eftir kosningarnar rankar ráðh. svo við sér, að hann þarf að hreinsa sig af bréfum. Þá skrifar hann bréf, þar sem hann segir, að það ætti að framfylgja mjólkurl. og hafa allt aðra skipun á mjólkursölunni í bænum. Þess vegna er þessi dráttur. Það er spurzt fyrir um það hvað eftir annað, en ekkert svar fæst fyrr en eftir kosningar. Þá kemur þetta bréf, þar sem svarað er út, í hött. Ef ráðuneytinu hefði verið alvara með að láta framfylgja 1., þá mundi það, þegar það var spurt 1. júní, hafa gefið út fyrirskipun um það.

Hér liggur því fyrir hver sönnunin á fætur annari í þessum bréfum og embættisvottorðinu um, að það var dómsmrh. sjálfur, sem kom í veg fyrir, að mjólkurl. væru framkvæmd.