13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ég ætla fyrst að snúa mér að hv. 10. landsk. Hann mun hafa látið orð falla í ræðu sinni hér í dag um það, að það væri af hlífð við einhverja, máske við Sigurð Kristinsson og hv. þm. Ísf., að hann ekki opinberaði eitthvað merkilegt, sem væri óþægilegt fyrir þá, sem stóðu að tilvonandi stjórnarmyndun í fyrravetur. Ég óska, að hv. þm. sýni ekki þessa hlífð; ég get ekki séð, að neinn akkur sé í því, ef hér er um að ræða, alvarlegt mál, þar sem fyrir öðrum stendur þetta þannig, að það hafi verið honum sérstaklega kært, frekar en nokkrum öðrum, að ekkert varð úr þeim samningum, sem byrjað var á og honum þýðir ekki að neita, að voru alveg þeir sömu og leiddu til núv. stjórnarmyndunar. Það var sama krafan, sem Framsfl. gerði til Alþfl., að hann hjálpaði til að skipuleggja afurðasöluna. Og þetta var ástæðan til þess, að flokkurinn óskaði eftir að losna, við hv. 1. þm. Skagf. úr stj. — Ég skora því á hv. þm. að upplýsa allt, sem hann getur, og láta það ganga út yfir hvern um vera skal. En ég spái því, að hann standi svo höllum fæti, að hann hafi bara af hlífð við sjálfun sig ekki treyst sér til að hrekja þetta, sem sagt er. Honum sjálfum er það að kenna, að þetta starf dróst frá því í nóvember í fyrra og þangað til í ágúst í sumar, því fyrst þegar hann er kominn úr stj., er hægt að sinna þessum málum. Hv. þm. reyndi sér til afsökunar að halda því fram, að það væri ekki rétt, að fyrir honum hefði ekki vakað að taka föstum tökum á afurðasölumálunum. Ég verð að hryggja hann með því að leggja fram óhrekjandi vitnisburð um muninn á aðstöðu okkar fyrir einu ári, er við deildum um þetta hér í þessari sömu stofu. Þegar þeir atburðir höfðu gerzt, að Framsfl. hafði reynt að mynda stjórn með Alþfl. til þess að leysa þetta mál, og þegar hv. 10. landsk. og Jón Jónsson eru búnir að eyðileggja þetta sama, og þegar Jón Árnason er búinn að senda fundarboð til allra kaupfélagsstjóra á landinu, og óskar, að þeir komi á fund til þess að ræða afurðasölumálið, þá kemur Jón í Stóradal með till. um að skora á stj. að láta athuga innanlandssölu með landbúnaðarafurðir. Í till. segir svo:

Ed. Alþingis skorar á ríkisstj. að láta fara fram rækilega athugun á því, hversu heppilegast væri að haga sölu á afurðum landbúnaðarins landinu sjálfu og hvaða ráðstafanir væri hægt að gera af ríkivaldsins hálfu til þess að tryggja sem bezt markað fyrir þær innanlands og a. m. k. svo hátt verð, að bændur fengju framleiðslukostnaðinn endurgoldinn“.

Þetta er fyrsti liður till., sem gengur út á það, að stj. láti fram fara athugun. Annar liður till. hljóðar svo: „Skal leita um þetta umsagnar Búnaðarfélags Íslands, Sambands íslenzkra samvinnufélaga, Sláturfélags Suðurlands og Mjólkurbandalags Suðurlands“. Þetta er sá liður, sem Jón Þorláksson vildi ekki samþ. Svo er þriðji liður till.: „Leggja skal árangurinn af þessari athugun fyrir næsta Alþingi“.

Hér er ekkert talað um frv., heldur aðeins athugun. Þetta veika kvak kemur fram eftir að Framsfl. hefir orðið að láta tvístranda á stjórnarmyndun með Alþfl. á þessum grundvelli og eftir að vitað er, að sá maður á Íslandi, sem mest hefir gert til þess að þoka þessum málum áfram, hefir kallað saman alla fulltrúa samvinnufélag anna á fund í Rvík til þess að ræða þessi mál. En hvernig er þá aðstaða þessa ráðh., sem þá sat „fungerandi“. af því hann vildi ekki ganga inn á, að Sigurður Kristinsson eða Ásgeir Ásgeirsson mynduðu stj. með þessu prógrammi? Hans bandamenn eru þannig, að þegar kemur að miðlið till. um það, að leita skuli umsagnar þessara félaga, þá kemur formaður þess flokks, sem er í bandalagi við hv. 10. landsk., og mótmælir því, að leita skuli umsagnar þessara félaga. Hann óskar þess, að forseti beri till. upp í þrennu lagi, til þess að geta fellt þetta úr, og heimtar svo nafnakall um þetta. Þá kemur í ljós, að form. Sjálfstfl., Jón Þorláksson, greiðir fyrstur manna atkv. móti till.liðnum, ennfremur 1. þm. Reykv., sem heldur sinni stefnu ennþá og vill vinna þessu máli allt það tjón, sem hann getur, Bjarni Snæbjörnsson, þáv. þm. Hafnf., og núv. 2. þm. Rang., sem nú er með hv. 10. landsk. undir minni hl. áliti n. — Ég vil biðja hv. 2. þm. Rang. að útskýra fyrir d., í hvaða ljósi maður eigi að skoða atkvgr. hans. Hann er sá eini af þessum mönnum, sem nú telur sig vera með frv., og hans atkvgr. get ég því ekki skilið öðruvísi en að hann hafi viljað leysa þetta mál utan við samvinnufélögin. En hitt er annað mál, að það var samþ. að spyrja samvinnufélögin en ekki meira. — Ég bar fram brtt. við þessa till. Jóns Jónssonar, og gerði það fyrst og fremst í samráði við flokksmenn mína í d. og form. Alþfl.till. gekk inn á nýja leið, þá leið, sem hv. 10. landsk. svo síðar fór. Till. var á þessa leið:

Ed. Aþingis skorar á ríkisstj. að skipa 5 manna n., ólaunaða, til þess að undirbúa fyrir næsta þing frv. um skipulag á sölu landbúnaðarafurða innanlands, svo framarlega sem Samband ísl. samvinnufél., Sláturfél. Suðurlands, Mjólkurbandalag Suðurlands. Búnaðarfélag Íslands og Alþýðusamband Íslands vilja leggja til, hvert um sig, einn mann í nefndina“.

Ef þessi till. er borin saman við upprunalegu till., kemur fram allt annað viðhorf. Hún er einungis um það, að þessi 5 stóru félög skuli leggja til menn í n. til þess að rannsaka þessi mál og leggja þá rannsókn fyrir næsta Alþingi. Það er ekki verið að tala um neina „athugun“, heldur að fá hæfa menn frá þessum félögum til þess að gera frv., sem svo verði lagt fyrir Alþingi. En það mátti svo sem nærri geta, að þetta átti ekki upp á pallborðið hjá hv. 10. landsk. Hann mótmælti till. og fékk með sér sinn eina flokksmann, Jón Jónsson, og alla sjálfstæðismenn til þess að greiða atkv. á móti henni, og var hún því felld. — Nú skyldi maður ætla, að hv. 10. landsk. hafði farið eftir þeirri leið, sem lá opin samkv. till. Jóns Jónssonar, sem sé þeirri, að skipa n. eða setja mann eða menn í að athuga, hversu heppilegast væri að koma þessum málum fyrir. Þegar svo þessi maður eða menn hefðu gert sínar athuganir, áttu þeir að senda till. til þessara 5 félaga og fá álit þeirra. Þá var hægt fyrir stj. að gera annað tveggja, leggja þessa athugun fyrir þingið eða búa til úr því frv. En hvað gerist? Hv. 10. landsk. lætur alveg undir höfuð leggjast að láta þessa athugun fara fram, sem Jón Jónsson fyrirskipaði í sinni till. og hann og sjálfstæðismenn höfðu samþ., heldur fer hann inn á leið okkar framsóknarmanna og formanns Alþf1. Svo rignir bréfum frá honum til þessara stofnana, þar sem hann biður um nefndarmenn. Þá er hann í raun og veru kominn inn á þann grundvöll, sem hann lét drepa, og það án þess að nokkur knýjandi ástæða hafi verið til þess frá hans sjónarmiði. Ég óska, að hv. þm. geri hreint fyrir sínum dyrum og segi, hvers vegna hann fylgdi ekki till. Jóns Jónssonar og hvers vegna hann fór hina leiðina, sem hann var búinn að fordæma. Og hvað var það, sem gerði mína leið svo girnilega, að hann gat ekki hreyft sig fyrir því, að hann fékk ekki bréf nógu fljótt frá félögunum? Ég skal spara honum ómakið og svara honum. Ég hygg, að það sé alveg ljóst, að áður en Jón Jónsson kom með sína till. er Jón Árnason búinn að boða til fundar, og hann kemur saman. Þessi fundur var lifandi mótmæli gegn skoðun Jóns Þorlákssonar, sem vildi, að þessi félög væru látin utan við þetta. Svo gera þessir menn frv. bæði um mjólkur- og kjötmálin, og voru sumir þeirra, eins og Jón Árnason, búnir að leggja að þessu grundvöll áður. Þá er það, sem ráðh. kemur og fær þessa menn til að vera í n. með skjólstæðing sínum, sem hann setur sem formann hennar. Svo eru bæði ráðh. og form. n., þm. V.-Húnv., í framboðsleiðangri út um allt, og það gerist ekkert í n.; henni liggur ekkert á. Frv. frá kaupfélagsstjórunum er til. Ráðh. er þarna kominn inn á það að skipa n. eins og Samvinnufélögin og Alþfl. höfðu viljað, og er hann þá kominn inn á þann grundvöll, sem hann nú vill komast út af, nefnilega að spyrða saman verkamenn og bændur: það er þessi nýjung, sem kemur fram í till., sem form. Alþfl. og framsóknarmenn stóðu að, að vita hvernig gæfist, að samvinnufélögin og Alþfl. sem starfandi eining fyrir neytendur í bæjunum tækju höndum saman um að reyna að brúa þá gjá, sem alltaf hefir verið í þessum málum. Inn á þetta er hv. þm. kominn, þegar hann biður Alþfl. að leggja til mann í n. Hitt er annað mál, að hann vill nú með brtt. sínum reyna að útiloka neytendur svona eftir á. — Það væri því mjög æskilegt, að hv. þm. vildi skýra frá því, hvers vegna hann og hans nánustu vilja ekki hafa neytendur með, úr því að þeir voru nógu góðir til þess að leggja mann í n. til þess að búa til frv. Svo gerist ekkert annað hjá hv. 10. landsk. en að hann snýst inn á leið andstæðinga sinna, sem hann var áður búinn að fordæma, en hefir þá ekki meiri áhrif á stéttarbróður sinn en það, að honum er ómögulegt að fá hv. 1. þm. Skagf. til þess að gera meira í þessu máli en það, sem hæstv. forsrh. hefir skýrt frá hér. Þetta er mál, sem maður er ekkert að fara út f hér, en við, sem erum kunnugir því, hvernig aðstaðan var viðvíkjandi mjólkurlögunum í Árnessýslu, vitum vel, að fyrir þann flokk, eða öllu heldur fyrir það flokksbrot, sem hv. 10. landsk. óskaði eftir vináttu við, var það heppilegra, að tekin væri sú afstaða, sem þáv. dómsmrh. tók, sem sé að halda öllu, sem málið varðaði, svífandi í lausu lofti fram yfir kosningar, og geta svo dregið sig í hlé hvenær sem var og án þess að taka tillit til þess, þó að lögbrotin héldu áfram óhindruð. Það vissu allir, að hv. 10. landsk. vildi ekki, að l. yrðu framkvæmd, af því að hann hafði ekki þrek til þess að taka þá afstöðu í mjólkurmálinu, sem stríddi á móti hagsmunum sjálfstæðismanna. Aftur á móti álít ég, að hv. 1. þm. Skagf. hafi haft góðan vilja til þess að taka föstum tökum á málinu. En hvernig í ósköpunum átti hann að gera það, þegar hann hafði 1. þm. Reykv., pólitískan ritstjóra Vísis og aðra slíka góða menn sem aðalstuðningsmenn í málinu?

Ég hefi minnzt á þetta í nál., til þess að sýna það, að þessi stjórn, þó að hún hefði ekki þingmeirihluta að baki sér, heldur væri millibilsstj., tók sér vald í ýmsum öðrum málum, eins og t. d. þegar atvmrh. tók sér það vald sjálfur, eftir kosningarnar í sumar og eftir að hann varð í hreinum minni hluta, að gefa út bráðabirgðal., sem tóku afnotaréttinn af einni síldarverksmiðju landsins eignarnámi. Hvers vegna hafði hv. þm. þrek til þess að gera þetta, mjög á móti stefnu síns flokks, þar sem hann skapaði með þessu fordæmi, sem flokksbræður hans eru ekki ánægðir með. Það hefði ekkert verið við þetta að athuga, ef hv. 10. landsk. hefði haft jafnmikinn áhuga fyrir því að hrinda þessu máli áfram, sem hér um ræðir. Hann gat tekið till. kaupfélagsstjóranna og komið málinu af stað, en hann gerði það bara ekki. Hann hélt áfram sínu milda aðgerðarleysi. Hvers vegna var hv. 10. landsk. svona aðgerðarlaus í þessu máli meðan hann var ráðh., og hvers vegna snýst hann frá sínum málstað, þegar hann sér, að straumurinn er svo sterkur á móti honum, að hann getur ekkert, og þegar hann sér, að samvinnufélögin láta ekki bjóða sér aðstoð Jóns Þorlákssonar, en taka málið í sínar hendur og taka til sinna ráða? Þessi stjórn fór síðan svo frá, að hún hafði ekki gert nokkurn skapaðan hlut í þessu máli.

Þá kem ég að hv. 1. þm. Reykv. Ég álít, að hans afstaða í þessu máli sé miklu virðingarverðari en þeirra ágætu manna annara, sem áttu sæti í stj. og eiga nú sæti í þessari d., því að hann er alltaf sjálfum sér samkvæmur. Hann hefir frá því fyrsta barizt á móti því, að mjólkursalan yrði skipulögð, bæði meðan hann átti sæti í Nd. og eins nú við þær umr., sem farið hafa fram um málið. Hann hefir ekki falskt yfirskin í málinu, en játar, að andstaða hans sé í sambandi við málstað kjördæmis þess, sem hann er þm. fyrir. Ég hefi eiginlega lítið við þennan hv. þm. að segja, því að hann er fulltrúi þeirrar stefnu, sem vill hafa það sama skipulagsleysi í þessum efnum og hefir verið hingað til. Mjólkin var einu sinni á 1 krónu lítrinn, en var komin niður í 42 aura, samhliða því, að sumir bændur fengu 11 til 12 aura fyrir lítrann. Það er þessi aðstaða, sem ekki særir hagfræðilegar tilfinningar hv. 1. þm. Reykv., og einungis fyrir það, að sú stétt, sem hann er fulltrúi fyrir, hefir hagnað af þessu, en honum er aftur á móti sama um þær stéttir, sem hann er ekki fulltrúi fyrir. Honum er sama, þó að þær fái óhreinsaða mjólk og líði fyrir það ástand, sem hefir verið í þessum efnum og það kemur honum ekkert við, hvort löggiltur er einn fjósbás hér sunnan til í bænum hjá einum flokksbróður hans eða ekki. Þetta minnir á það, þegar hinni útvöldu guðs þjóð var leyft að selja útlendingum skemmt kjöt, en þeir trúuðu og útvöldu máttu ekki éta það sjálfir. Hvers vegna eiga þeir efnuðu að fá barnamjólk t. d. frá Korpúlfsstöðum, en aðrir ekki? Þeir viðurkenna svo sem, að hún sé holl fyrir þeirra börn, en þeim kemur það ekkert við, þó að fátæklingarnir í kjallaraholunum fái óhreinsaða mjólk.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að skipulagslögin stefndu að því, að Rvík yrði étin upp. Hún væri hræ, sem bændur í næstu sveitum vildu éta upp. Eru Spánverjar okkar hræ, af því að þeir kaupa vörur frá okkur, eða þá Ítalir og Portúgalar? Erum við hræ Englendinga, af því að þeir selja okkur kol? Menn hafa hingað til álitið, að það réði mestu í verzlunaviðskiptum, hverju menn hefðu hagsmuni af, og þessi kenning hv. 1. þm. Reykv. er því alveg ný.

Viðvíkjandi járnbrautinni hans Jóns Þorlákssonar segir þessi þm., að nú sé búið að rækta svo mikið hér í nágrenni Rvíkur, að engin þörf sé á því að flytja mjólk að austan á járnbraut. Mér dettur það ekki í hug, að heili heilanna hafi ekki séð það fyrir, að það mundi verða ræktað landið hér í kringum bæinn. Hann hefir áreiðanlega séð, að Suðurlandsundirlendið var miklu eðlilegri staður til ræktunar en holtin hér í nágrenni Rvíkur, og það, sem vakti fyrir Jóni Þorlákssyni þá, kemur jafnt til greina nú, sem sé það, að tengja saman þessa landshluta, svo að fólkinu hér geti liðið betur. Hv. þm. sagði, að það skipti ákaflega litlu máli, hvort Reykvíkingar keyptu mjólk að eða ekki. Eftir hans skoðun ættu það að vera iðnaðarfjós, sem ættu að sjá bænum fyrir nægilegri mjólk. Þau voru einmitt að rísa hér upp í skjóli misheppnaðra mjólkurl. Það má nefna t. d. fjós eins og Guðmundur Þorkelsson hefir komið á fót, þar sem eru um 50 kýr. Hvar hefir hann sín tún eða sína bithaga? Hann verður að kaupa hey að, annaðhvort austan úr sveitum eða þá frá útlöndum, eða þá útlendan fóðurbæti. Á maður svo, samkv. skoðun hv. 1. þm. Reykv., að hugsa sér að hér verði verkaskipting, þannig, að Rvík, frá því að vera fyrst og fremst útgerðarbær og máske í skjóli vatnsaflsins með tímanum iðnaðarbær, verði landbúnaðarbær? Eiga topparnir á hæðunum hjá Kleppi og á Öskjuhlíðinni að vera sú Eden, sem gefur Edensgróður handa Reykvíkingum? Svo ætti hún að loka sér, eins og pólitískur ritstjóri Vísis hélt fram, þegar hann vildi ekki, að hingað yrðu keyptar afurðir úr Árnessýslu, sem sendi andstæðinga sjálfstæðismanna á þing. Við skulum hugsa okkur, að það ráð yrði tekið, að Rvík yrði gerð að landbúnaðarborg og hefði fjós af tegund þeirri, sem Guðmundur Þorkelsson hefir komið upp, til þess að ala sín börn á. Ennfremur getum við hugsað okkur, að Rvík gæti sýnt það sjálfstæði, sem vakir fyrir leiðtogum Sjálfstfl. Við getum svo líka hugsað okkur, að aðrar þjóðir lokuðu sér fyrir landbúnaðarframleiðslu okkar, — og hvernig færi þá fyrir fólkinu í sveitunum, þegar teknir væru frá því möguleikarnir til þess að lifa á því, sem landshættir heimta að það lifi á og það hefir alltaf gert? Ef aðstaða okkar væri svo eins og hún er nú, að við kæmum litlum hluta fiskframleiðslunnar út í markaðslöndum okkar, þá leiddi þessi kenning í stuttu máli sagt til þess, að Rvík stæði alveg lömuð gagnvart heimsmarkaðinum. Ef það ráð yrði svo tekið að framleiða ennþá meiri mjólk í Guðmundar-Þorkelssonar-legum fjósum, og það yrði sá atvinnuvegur, sem þessum bæ yrði boðið upp á, þá yrði ekki gaman að vera hér í Rvík, og a. m. k. vildi ég ekki hafa átt þátt í að skapa slíkt ástandi.

Ég hygg, að þessi sami hv. þm. hafi gert sínum málstað óskaplegan ógreiða, en okkur andstæðingum sínum aftur nokkurn greiða, með því að minnast á þá staði, þar sem samvinnumenn hafa verið einir um að koma fullkomnu skipulagi á mjólkursöluna. Það er alveg rétt hjá hv. þm., það er ákaflega gott skipulag á mjólkursölunni hjá Kaupfélagi Eyfirðinga. Mjólkin er þar ódýrari en í nokkrum öðrum kaupstað á landinu, og bændur fá þar meira fyrir hana en nokkursstaðar annarstaðar. Þar er minni hreinsunar- og flutningskostnaður en hér. En af hverju heldur hv. þm., að þetta sé? Það er af því, að þar er svo mikilli góðvild og svo miklu mannviti blandað saman við mjólkina. Mannvitið kemur fram í því, hvernig skipulagið er, og þar er ekkert af þeirri beiskju, sem kemur fram hjá þeim mönnum, sem eru að reyna að læða inn í frv. till. um það, að framleiðendurnir séu látnir níðast á neytendunum. Þegar Vilhjálmur Þór og hæstv. forseti þessarar d. komu þessu skipulagi á, á Akureyri, þá voru þeir ekki með társtokkin augu yfir því, að þeir skyldu ekki geta látið verkamennina í kjöllurunum á Akureyri borga meira en 25 aura fyrir lítrann. Þeir voru líka of séðir verzlunarmenn til þess að sjá það ekki, að þeir græddu á því að hafa mjólkina ódýra, því að um leið gátu menn á Akureyri keypt meira af mjólkinni. Þeir hafa séð það, að það borgar sig bezt að vera réttlátur við báða aðila, kaupendur og neytendur, og þeir hafa þess vegna fullkomið skipulag, sýna fullkomna sanngirni, en eru þó styrkir sjálfir. Við verðum að játa það, samvinnumenn hér fyrir sunnan, að við erum ekki annað en ófullkomnir lærisveinar þessara góðu manna á Akureyri. Við búumst ekki við að komast eins langt, a. m. k. ekki strax, en okkar afsökun er sú, að við mætum sterkari mótstöðu í þessu starfi okkar. Þeir hafa ekki mikið af mönnum eins og t. d. hv. 2. þm. Rang. og hv. l. þm. Reykv., sem ekki þoldu, að samvinnufélögin yrðu spurð um, hvernig þau álitu bezt að koma þessu fyrir.

Hv. 1. þm. Skagf. hélt hér nokkuð langa ræðu. Ég álít, að hann hafi miklu verri aðstöðu en flokksbróðir hans, hv. 1. þm. Reykv., vegna þess að hv. 1. þm. Reykv. lifir eftir sínum lög- um og hefir aðstöðu til þess að koma til dyranna eins og hann er klæddur. Ég hefi hv. 1. þm. Skagf. grunaðan um að hafa viljað vel í þessu máli, en ekki getað það, vegna þeirra kringumstæðna, sem flokkur hans setur hann i. Þetta gerir aðstöðu hans veika, og þess vegna er hann hér með stóryrði, sem ég ætla, að ekki sé honum til mikillar ánægju. Honum kom það augsýnilega illa, að yfirlit var gert yfir þetta mál. Þetta er ósköp mannlegt. Honum hlýtur að koma þetta illa, þegar hann hugsar um það, að flokkur hans hefir ekkert gert í þessu máli, og ekki nóg með það, heldur hefir frá byrjun látið áhrifamestu málgögn sín ofsækja þá menn, sem hafa unnið að þessu máli. Það er út af fyrir sig gott og blessað fyrir hv. l. þm. Skagf. og hv. 2. þm. Rang. að segja það austur í sveitum, að þeim komi það ekkert við, hvað Morgunbl. og Vísir segi um þetta mál. Þeir afneita bara blöðunum, þegar lesnir eru upp úr þeim hinir hörðu áfellisdómar yfir stj. fyrir að hafa komið þessu máli í framkvæmd. Og þeir afneita líka þeim þm. Sjálfstfl., sem hafa komið hreinlega fram í þessu máli. Þetta er beint áframhald af því, þegar þeir drápu till. mína um að láta samvinnufélögin hafa forustuna um að rannsaka þetta mál. Aðstaðan er þá þannig hjá þessum flokki, að ofan á það, að þeir hafa ekkert gert í málinu og blöð þeirra hafa komið svona hraksmánarlega fram, og ofan á það, að þeir menn úr flokknum, sem vegna kjósenda sinna gátu ekki snúizt gegn málinu, hafa afneitað flokknum og blöðum hans, ofan á þetta allt bætist svo það, að Morgunblaðið, þegar það fréttir það af fundinum að austan, að því hafi verið afneitað þar og að þar hafi verið sagt, að flokknum komi ekki við, hvað blaðið skrifi um þetta mál, þá afneitar það bara sjálfu sér og segir, að þessar greinar hafi verið eftir einhverju sveitarkarla, núv. eða fyrrv. flokksmenn, sem hafi fengið að skrifa skammir um mjólkur- og kjötsölul. Það er þess vegna hryggðarsjón, sem maður lítur yfir í þessu efni, þegar maður athugar það, að hv. 1. þm. Skagf., sem er einn af leiðandi mönnum flokksins, hefir meðan hann var í stj. setið á hv. 10. landsk., sem sennilega hefir viljað gera eitthvað meira, en ekki fengið það. Þegar svo búið er að fella þá till., sem hér kom fram í fyrra um að framleiðendur og neytendur ynnu saman að því að leggja grundvöll undir þessa starfsemi, þá eru öll blöð flokksins látin spilla fyrir þessu máli eins og hægt er. Svo þegar kemur inn í þingið og búið er að gefa út l. um þetta og það er vitað, að bak við þau stendur yfirlýstur þingmeirihluti í báðum deildum, þá fara 2 gildustu menn flokksins austur yfir heiði og halda fundi með sínum beztu mönnum þar og spyrja þá, hvað þeir eigi að gera í málinu, hvort þeir eigi að vera með því eða á móti því, eða hvort þeir eigi að vera hlutlausir. Þar er þeim svo sagt, að ekki sé til neins að vera á móti því, því að straumurinn sé orðinn svo sterkur, að það þýði ekki neitt. Svo gerist þetta stórmerkilega fyrirbrigði, að í staðinn fyrir, að Sjálfstfl. stendur saman í hverju einasta máli — eins og t. d. í rakarafrv. sæla, sem þeir gerðu að flokksmáli, sem varð svo til þess, að einn af helztu mönnum flokksins þorði ekki að koma inn á rakarastofu í mörg ár, vegna þess, að hann hafði brugðizt loforði, sem hann hafði gefið áður en málið var gert að flokksmáli — þá klofnar hann um þetta mál. Halda menn, að þetta sé af tilviljun, að helmingur flokksins afneitar blöðum hans? Nei, það er staðreynd, að þetta sýndi einmitt mikla hyggni, úr því sem komið var, hjá þeim mönnum flokksins, sem voru fulltrúar fyrir bændur. Menn vita, að það er ekki heppilegt fyrir hv. 2. þm. Rang. að halda fram þeirri skoðun hv. 1. þm. Reykv. austur í Rangárvallasýslu, að Reykjavík sé sjálfri sér nóg á þessu sviði. Útkoman er því sú, að þm. úr sveitakjördæmum er leyft að vera með þessu máli, en þeir þm., sem eru fyrir kaupstaði eða eru landsk., halda áfram að fjandskapast gegn því.

Við framsóknarmenn stöndum aftur á móti þannig að vígi, að við höfum náð samkomulagi við stærstu neytendasamböndin í landinu um að leysa þetta mál, og við höfum byrjað svo vel núna á nokkrum vikum, að það er meira gegnumgrípandi heldur en það, sem hefir verið gert af öllum öðrum til samans frá árinu 1917. Á þessari braut munum við svo halda áfram, og okkur dettur ekki í hug að taka til greina fleyga frá þeim mönnum, sem hafa leyfi til þess að vera með. Við lítum mannlega á þetta og við viljum ekki vera ginningarfífl þeirra manna, sem við vitum, að eru á móti málinu, og þess vegna munum við fella alla þessa fleyga, sem frá þeim koma í báðum deildum, og skila frv. hreinu út úr þinginu á þeim grundvelli, sem lagður var með till., sem hv. 10. landsk. neyddist til þess að styðja, eftir að hann sá sér ekki aðrar leiðir færar.

Ég ætla, áður en við fáum kvöldmatarfríið, að leiðrétt, tvo eða þrjá hv. þm. Ég skal ekki eyða löngum tíma í smávægilegar aths. eða pex hv. 1. þm. Skagf., sem hann er frægur fyrir. Hann taldi það rangt, að hv. þm. Mýr. hefði verið frumkvöðull mjólkurfrv. frá 1932. Ef þessi hv. þm. veit ekki, að hv. þm. Mýr. var í stjórn Búnaðarfél. og lét rannsaka málið á búnaðarþinginu og fékk landbn. það til flutnings á Alþingi, þá verður hann að læra betur. Sannleikurinn er sá, að fyrstu hreyfing um þetta mál, rannsókn þess og athugun, er komin frá samvinnumönnum. Sá fyrsti andblær um skipulagningu þess í þinginu er frá þeim kominn. Það er kunnugt, að form. Alþfl. sagði á þinginu 1932, þegar hv. þm. Mýr. hreyfði þessu máli, að jafnaðarmenn vildu helzt bæjarframleiðslu á mjólk. Það vilja þeir helzt enn. Nú getur hv. 1. þm. Reykv. séð. hvað það er að vera skammsýnn. Ef hann og hans flokkur hefði þá tekið höndum saman við jafnaðarmennina um þetta stefnumál þeirra, þá hefði verið hægt að koma á þeirri innilokun, sem hann vill fá. Þeim stóð opið að taka Fossvog og allar mýrar í nágrenninu. Hermannsmýrina líka, og stofna kúabú fyrir bæinn, til þess að útiloka sveitamennina. En Sjálfstfl. var skammsýnn þá eins og endranær. Hann hafði ekki vit á að taka í útrétta hönd jafnaðarmanna, þegar hún bauðst. Nú er samningsgrundvöllur okkar og jafnaðarmanna allur annar. Hann byggist á því að spara búðakostnað, flutningskostnað o. fl. á líkan hátt og Eyfirðingar hafa gert. Og hv. þm. hefir játað, að Eyfirðingar hafi leyst málið vel, með hagsmuni bæði neytenda og framleiðenda fyrir augum. Það getur ekki verið hv. þm. nein ánægja að vitna í það, að þeim hafi staðið til boða félagsskapur við jafnaðarmenn um þetta mál og naga, sig svo í handarbökin fyrir að hafa ekki notað það tækifæri meðan kostur var á. Okkur hefir aldrei komið til hugar að sparka í neytendur, eins og virðist vaka fyrir hv. 10. landsk. Okkar sigur er í því fólginn að sameina með skipulagi hagsmuni beggja aðila, neytenda og framleiðenda.

Þá vildi hv. 1. þm. Skagf. gefa hv. þm. G.-K. dýrðina fyrir að vera meðflm. að frv., sem hv. þm. Mýr. var aðalflm. að á þinginu 1932. En hve lengi var sá Adam í Paradís? Var það nokkur sérstök dyggð af hv. þm. G.-K. að vera með málinu í Nd., en láta svo samherja sína í Ed. setjast á það og eyðileggja það og halda svo áfram á sömu braut með því að eyðileggja framkvæmd þeirra vesölu laga, sem komust í gegnum þingið? Heldur hv. þm. að svona frammistaða verði álitin mjög þakkarverð? Nei, fyrir svona málflutning fær hv. þm. G.-K. ekki lof fyrir annað en það, að hafa leikið grínrullu í þessum skrípaleik sjálfstæðismanna. Alvöruleysið og fláttskapurinn skín hér alstaðar í gegn.

Ég skal þá að lokum víkja að hv. 10. landsk. og minnast á aðaluppistöðuna í brtt. minni hl. n., sem miðar að því að sparka í neytendur í bæjunum. Þessi hv. minni hl. heldur, að hann hafi hér ákaflega sterka aðstöðu, einskonar hagfræðilegan Gíbraltar. Ég verð nú að hrella þessa heiðursmenn, hv. 10. landsk. og hv. 2. þm. Rang., með því, að á þinginu í fyrra lagði ég þá spurningu fyrir þeirra ágæta samherja, Jón í Stóradal, hvort hann gæti bent á dæmi, þar sem framleiðslukostnaðurinn væri lagður til grundvallar fyrir verðlagi vörunnar. En sá mæti maður, Jón í Stóradal, gafst upp við að svara þeirri spurningu. Þrátt fyrir greind sína og lærdóm tókst honum ekki að finna nokkurt dæmi í veraldarsögunni sér til varnar. Jafnvel Rússar urðu honum ekki til bjargar. Eða hvernig halda menn, að þessu sé varið með aðalframleiðsluvöru þeirra, kornið? Mundi Stalín láta reikna út þurftarlaun þeirra, sem vinna að jarðyrkjunni, og verðleggja kornið samkv. því? Nei, það er markaðsverðið, sem ræður, alveg eins og það er komið undir markaðsverðinu á Spáni og Ítalíu, hvað við fáum fyrir fiskinn. Ég vil beina þeirri ósk til dýrkenda þessarar stefnu, að þeir komi með dæmi úr innlendri eða erlendri hagfræðisögu, sem sýni, að það hafi tekizt að láta þurftarlaun fólksins, sem að framleiðslunni vinnur, vera grundvöll undir verðlagi framleiðslunnar. Ef þeir geta það, skal ég játa mína fáfræði. Ég skal geta þess, að ég hefi á nefndarfundi borið þetta undir forstjóra Mjólkurfélagsins, af því að hann lét orð falla á svipaða leið og þessir hv. þm., og beðið hann að nefna dæmi um þetta, en hann gafst upp, alveg eins og Jón í Stóradal. Það getur verið að við fáum síðar í kvöld einhverjar skynsamlegar ástæður frá hv. minni hl. n. En ég vil þó benda þeim tveimur hv. þm., sem að nál. standa, á það, að það getur verið, að þeir reki sig á óþægilega hluti í sambandi við þá lausn, sem þeir hugsa sér. Það hefir verið talað um einskonar beltaskiptingu á mjólkurframleiðslusvæðinu eftir kostnaði við framleiðsluna. Dýrasta beltið yrði þá Reykjavík, næst t. d. Mosfellssveitin, en ódýrasta beltið sveitirnar fyrir austan fjall. Hvernig færi svo, þegar farið væri að reikna út framleiðslukostnaðinn og leggja hann til grundvallar fyrir mjólkurverðinu? Það mætti byrja t. d. í Þykkvabænum. Svo væri farið í Blikastaði, sem er 70 þús. króna jörð, þó að hún sé ekki stærri né betri en venjuleg jörð í Þykkvabænum. Hvað ætli framleiðslukostnaðurinn yrði þar? Þá er komið að melunum í Rvík, sem ruddir hafa verið með miklum kostnaði og elju. Mundi ekki lóðaverðið hér í bænum koma til greina í þessu sambandi. Setjum svo, að hótel Borg hefði ekki verið byggt og ekki símstöðin á sinni 150 þús. kr. lóð og að þessir hv. þm. hefðu tekið sér fyrir hendur að „púla upp á kúgras“ á þessum stöðum. Hver ætli útkoman yrði svo hjá þeim, þegar þeir færu að reikna út framleiðslukostnaðinn í þessu dýra belti og verðleggja mjólkina samkv. því handa blessuðum börnunum hérna í Reykjavík? — Ég ætla að lofa mínum hv. andstæðingum að glíma við þessa gestaþraut meðan við erum að borða kvöldmatinn.